Einstakt andrúmsloft samheldni og æðruleysis í hjarta Brussel í dag.

Ferðalag í strætisvagni fram og til baka inn í miðborg Brussel í dag, alla leið niður á Kauphallartorgið, gaf nokkra innsýn í hug sleginna borgarbúa, sem munu þurfa nokkurn tíma til þess að melta þann veruleika hryðjuverkaaldar, sem nú hefur lostið niður sem eldingu í Brussel.

Samgöngur í borginni hafa truflast mikið, það fer ekki á milli mála. Margar götur eru lokaðar og áætlanir strætisvagna hafa riðlast.

Við þurftum að bíða í nær klukkustund eftir vagni, og þá komu þeir allt í einu tveir, sá fremri troðfullur en hinn aftari hálftómur.

Enda urðu þeir sums staðar að fara út af hefðbundnum akstursleiðum vegna lokana.

Við Brouckere neðanjarðarbrautarstöðina var herflokkur sem hélt uppi eftirliti og strangri reglu. Helga, herinn Brussel

Hermenn með alvæpni skoðuðu þá sem ætluðu í lestina, og má sjá þá og fólkið fjær á þessari mynd.

Skammt frá, á Kauphallartorginu, var enn mikill mannfjöldi, sem búinn er að vera þar í allan dag og halda uppi stanslausri óundirbúinni dagskrá með hvatningarhrópum og söngvum, auk þess að börn og fullorðnir skreyttu torgið með blómum, áletrunum og listsköpun.

Skilaboðin vor firna skýr: Í þjóðarsorg eftir hroðalegt ódæði, sem er tilræði við frið, frelsi, lýðræði og mannréttindi, munu kúgararnir ekki buga einhuga þjóð.

Stundin á torginu í dag var mér mikils virði. 12 ára gamall var mér sett það verkefni að soga í mig stemningu hugrakkrar baráttu fyrir mannréttindumm, lýðræði og æðruleysi, sem lýst er í stórvirki Hugos, Vesalingunum.

Reynt var að skila þessari stemningu til íslenskra áhorfenda í Iðnó, og í dag var hægt að upplifa hana sanna, massíva og sterka í hjarta Brussel.   


mbl.is Blóðug og skelfingu lostin á bekk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"12 ára gamall var mér sett það verkefni að soga í mig stemningu hugrakkrar baráttu fyrir mannréttindumm, lýðræði og æðruleysi, sem lýst er í stórvirki Hugos, Vesalingunum.

Í hvaða hlutverki varstu, Gavroche?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.3.2016 kl. 22:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Gavroche. Þegar tjaldið var dregið frá eftir hlé, stóð götudrengurinn á miðri götunni sem verið var að loka með götuvígi áður en hermennirnir kæmu og hvatti stúdentana og aðra byltingarmenn til dáða með því að halda hvassa einræðu: "Svona, flýtið ykkur nú! Við þurfum fleiri stóla! Fleiri borð!...o. s. frv.".

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Gunnar Hansen og aðstoðarleikstjórinn Einar Pálsson undirbjuggu þetta vandlega og lengi, því að Gunnar sagðí að götubörn heimsborganna yrðu fjölmennustu vesalingar mannkynsins. Og reyndist sannspár.

Þess vegna lagði hann áherslu á gildi þessa hlutverks í sýningunni 1953 og setti mig eftir föngum inn í verkið.

Það var eitt mitt mesta lán í lífinu að hafa fengið leiðsögn á borð við þessa.   

Ómar Ragnarsson, 23.3.2016 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband