Barnaskapur og firring varðandi fjölmiðlun.

Nú má sjá áframhaldandi viðbrögð í stórum stíl við fréttaflutningi af aflandsfélagamálinu á netinu, meðal annars í athugasemd við frétt á mbl.is þar sem RUV er kallað DDRUV og ítrekuð krafan um að leggja Ríkisútvarpið niður.

Málið hófst reyndar ekki á RUV heldur með "fyrirbyggjandi" sókn á facebook-síðu konu forsætisráðherra þar sem talað var um Gróu á Leiti og reynt að gera lítið úr málinu.

Ráðherrann setti fréttastofu RUV þegar í viðtalabann og hafinn var upp mikill söngur um ósvífna og vítaverða "herferð" fréttastofu RUV á hendur honum, ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum.

En setjum sem svo að RUV hefði hegðað sér í samræmi við kröfurnar um að þegja sem kyrfilegast um þessi mál alveg frá byrjun.

Þá væri RUV ekki með í samstarfi erlendra sjónvarpsstöðva og fréttamiðla klukkan 18:00 í dag þar sem farið verður samtímis í útsendingu frá mörgum löndum yfir stærsta gagnaleka þar sem skattaskjólaleikur háttsettra íslenskra ráðamanna yrði áberandi.

Til þess að andæfa þessu þyrfti að skrúfa fyrir möguleika landsmanna til að fylgjast með hinni erlendu umfjöllun á netinu, ekki hvað síst vegna þess að það myndi þykja fréttnæmt í þeirri umfjöllun, hvernig sjálfur ríkisfjölmiðillinn reyndi að aftra umfjöllun um málið hér heima.

Ef slíkt hefði orðið ofan á hefði það lýst firringu, sem virðist ríkja hjá þeim, sem hamast gegn eðlilegri umfjöllun fjölmiðla um svona stórt mál.

En firring getur ekki þrifist nema sem afleiðing af barnaskap varðandi nútíma fjölmiðlun og nútíma upplýsingamiðlun, sem þróast upp í áunna firringu.   

 

 

 

 


mbl.is „Óásættanleg hegðun forsætisráðherra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ómar, gæti nokkuð verið að þú sért vanhæfur til að fjalla um gagnrýni á fréttastofu RUV?  Sérstaklega þegar við höfum í huga að dóttir þín er hluti af genginu á fréttastofunni og einnig ert þú að þiggja allvæn eftirlaun frá þessari ríkisstofnun..

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.4.2016 kl. 14:02

2 identicon

Ríkisútvarp Vinstrimanna er ekkert ósanngjörn lýsing á hegðun RÚV.

Ágætt dæmi um það var í helgarþætti Gísla Marteins núna á laugardaginn.  Þar var fjallið um aflandsmálið á þann hátt að í 20 mínútur voru sýndar grínmyndir af forsætisráðherra, fjármálum eiginkonu hans líkt við framhjáhald, fjármálaráðherra kallaður lygari og í umræðunni voru 4 aðilar, ásamt þáttastjórnandanum! allir sammála um glæpsamlega hegðun ríkistjórnarinnar.  Engin sagði að nein lögbrot hefðu verið framin, einungis að þeirra mati væri þetta siðferðislegar rangt.  Engin andmæli, engin rök á móti heldur einhliða áróður hjá ríkisfjölmiðli.

Er RÚV svo uppfullt af réttlætiskennd að það álitur að óþarfi sé að bjóða öðrum í umræðuna?

Karl (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 14:05

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Orðið vanhæfi er notað um menn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir umbjóðendur sína. Það sem ég skrifa á þessa bloggsíðu skrifa ég fyrir sjálfan mig og þá, sem nenna að lesa hana eða skrifa athugasemdir á hana.

En það kemur svo sem ekki á óvart að það sé borið fram að ég sé vanhæfur til að skrifa og þess vegna beri að stöðva skrif mín. Annað eins hefur nú sést.

Hin "ríflegu eftirlaun" mín eftir starfið hjá RUV eru rúmlega 240 þúsund krónur á mánuði og "rífleg eftirlaun" konu minnar eru um 170 þúsund.  

En þetta er ekki í fyrsta skiptið sem óvildarmenn mínir telja hér á síðunni, að við eigum að skammast okkur fyrir slík ofurlaun og éta það sem úti frýs.

Ómar Ragnarsson, 3.4.2016 kl. 14:17

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvað er ekki rétt í upplýsingum RUV um þetta mál?

Hvað má almenningur ekki vita?

Þorsteinn Briem, 3.4.2016 kl. 14:21

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ómar, ekki átti ég von á svona heiftarlegum viðbrögðum við sakleysislegri athugasemd. Fyrir það fyrsta þá er ég ekki í hópi óvildarmanna þinna. Og mér finnst þú í hópi beztu fjölmiðlamanna fyrr og síðar.  En vanhæfið í þjóðfélaginu er víða vegna smæðar og alls konar hagsmunakrosstengsla. Við skulum ekki blanda því saman við lagalega skilgreiningu eins og pólitíkusar skýla sér á bak við.

Ef þú getur sannfært sjálfan þig um að þín afstaða varðandi RÚV stjórnist ekki af hagsmunakrosstengslum þá læturðu þér athugasemd mína  létt um eyrun þjóta. Ef ekki þá verðurðu að sætta þig við einstaka gagnrýni frá okkur sem erum ekki í liði með útvarpi allra starfsmanna.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.4.2016 kl. 14:45

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

1311 trustmedia 01b

Þorsteinn Briem, 3.4.2016 kl. 15:18

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Steini, ég veit að þú veizt, að svona könnun segir ekkert um gæði fréttamennskunnar eða hlutlægni fréttamanna á RÚV. Það að 76% svarenda finnist allt í lagi að láta RÚV mata sig á fréttum staðfestir bara að fólk er upp til hópa ógagnrýnið og sakleysislega einfalt.  Þeim mun verra er að sjá hvernig sumir starfsmennirnir misfara með vald sitt og flytja skoðanir í stað frétta. Þessi herferð sem nú stendur yfir á lítið skylt við hlutlæga fréttamennsku. Og hún er ekki til upplýsingar heldur innrætingar.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.4.2016 kl. 15:50

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi skjálfti manna við að verja óverjandi framkomu forsætisráðherra er aumkunarverð að mínu mati. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.4.2016 kl. 16:17

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ágæti Jóhannes. Ég bið þig afsökunar ef ég hef glæpst til þess í fljótfærni að spyrða þig við óvildarmenn mína með því að slá inn það orð.

Raunar hef ég ekkert við það að athuga þótt skoðanir manna á mér og því sem ég er að gera séu skiptar og að sumum sé illa við það sem ég stend fyrir.

Það ríkir skoðana- og tjáningarfrelsi í landinu.  

En einstaka nafnleysingi hefur hamast svon linnulaust gegn mér og skrifum mínum í athugasemdum á þessari síðu að augljóst er að þessum óvildarmönnum er sérstaklega illa við mig og ásakanir um allt of há eftirlaun mín stinga alltaf við og við upp kollinum.

Er ekki furða þótt þeim harðasta þyki þau há fyrir "ómerking og svíðing" eins og hann kallaði mig síðast.  

Ómar Ragnarsson, 3.4.2016 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband