23.4.2016 | 00:31
Útklippta setningin, sem var það merkilegasta þegar upp var staðið.
Í Alþingiskosningunum 1978 áttu allir von á því að Alþýðubandalagið myndi endurtaka leikinn frá í borgarstjórnarkosningum á undan og verða næst stærsti þingflokkurinn, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum.
Það yrðu söguleg straumhvörf.
Úrslitin urðu söguleg, báðir stjórnarflokkarnir stórtöpuðu, einkum Framsókn, sem fékk minnst fylgi, 12 þingmenn, en öllum á óvart fengu Kratar jafn marga þingmenn og Allaballar, 14.
En sigurinn var engu að síður mikill fyrir A-flokkana og nánast óhjákvæmilegt að þeir færu saman í stjórn.
Þegar Helgi E. Helgason fréttamaður byrjaði að taka viðtal við Guðmund J. Guðmundsson niðri við höfn daginn eftir kosningarnar, var jakinn afar niðursokkinn í hugsanir sínar, tók í nefið, horfði á Esjuna og tóbaksdósina til skiptis og muldraði eitthvað.
Helgi mundaði hlóðnemann, myndavélin fór í gang og Helgi spurði jakann hvað hann hefði að segja um úrslitin, einmitt þegar jakinn var að horfa á Esjuna, þurrkaði sér um nefið með tóbaksklútnum, setti hann í vasann, horfði síðan aftur á Esjuna og stundi loks og sagði stundarhátt: "Þurftu helvítin endilega að fá fjórtán!"
Helgi hafði tvístigið fram að þessu en áttaði sig nú fyrst á því nú, að jakinn var enn að tala við sjálfan sig, því að orð hans voru augljóslega ekki ætluð fyrir sjónvarpsviðtal.
Hann ræskti sig vandræðalega, og gekk alveg að Guðmundi til þess að að gera honum ljóst að myndavélin væri byrjuð að rúlla.
Þá fyrst áttaði jakinn sig á stöðunni, spurningin var endurtekin og svarið, sem birtist þjóðinni um kvöldið, svaraði nákvæmlega engu og enginn man eftir því svari.
En við hlógum mikið uppi á fréttastofu við að horfa á þessa neyðarlegu uppákomu áður en setningin var klippt út.
En í ljós kom, að orð Guðmundar, sem aldrei voru notuð, voru í raun stórmerkileg, því að þau lýstu svo vel ástandinu sem ríkti á milli A-flokkanna.
Hvorugur gat unnt hinum að hafa forystu um stjórnarmyndun, svo að Óli Jó, formaður flokksins sem mestu tapaði, varð að mynda vinstri stjórn sem sat ekki nema í rúmt ár vegna ósamkomulags, - var í raun óstarfhæf vegna rígsinsins sem ríkti á milli flokkanna.
Að því leyti var setning Guðmundar jaka bæði lýsing á þessu ástandi, sem enginn þorði að minnast á, og ekki síður forspá um það sem gerast myndi, það langmerkilegasta sem sagt var þetta ár, að stjórnin myndi springa á mettíma.
Sjáðu senuna sem klippt var út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er aðeins eitt sem fer meira í pólitískar taugar vinstri manna, en kapitalistar. Það eru vinstrimenn í öðrum flokkum.
Þegar ég stundaði leshring í kommúnískum fræðum um 1980, lærði ég fljótt af stalínistunum sem stjórnuðu leshringnum, að þeir sem voru ekki nógu nærri harðlínunni, voru í raun hættulesustu andstæðingar byltingarbarnanna.
Endurskoðunarsinnarnir svokölluðu, dreifðu og drógu úr fylgi við hinar sönnu stjórnmálahreyfingar sem kenndu sig við verkalýðinn og verkalýðsbaráttuna. Þessir endurskoðunarsinnar voru því sem vírus eða trjóuhestar í líkama harðkjarna kommúnista.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.4.2016 kl. 01:06
Svoleiðis einkennir alla heittrúarmenn. Það má til dæmis skoða ástina milli Hvítasunnusafnaðarins, Krossins, Vegarins og þjóðkirkjunnar.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 23.4.2016 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.