"Blessuð sértu, sveitin mín"?

Ef niðurstaða sinnuleysis landsmanna gagnvart Mývatni leiðir til hruns alls lifríkis við vatnið verður hið jarðfræðilega útlit vatnsins enn að vísu til staðar og mun laða ferðafólk áfram að því.

Gervigígarnir verða áfram. Dimmuborgir líka. Kálfaströnd með vogum sínum og hraunskúlptúrum.

En það er aðeins helmingurinn af aðdráttaraflinu. Hinn helmingurinn er heimsfrægt og verðmætt lífríki þess og Laxár og á plánetu eins og jörðinni þar sem lífríki á undir högg að sækja af mannavöldum, verður slíkt lífríki ekki metið til fjár.

Vatnið er örgrunnt og fyrir löngu hefði verið átt að vera búið að því að rannsaka, hvort byggð við það og umsvif öll eru ekki komin fram yfir það að hægt sé yfirleitt að ráða við sívaxandi skólp og mengun, sem steðjar að því, nema að minnka byggðina og færa hótel og önnur mannvirki yfir á annað vatnasvæði.

Eða þá að leiða skólp og mengandi efni frá vatnsverndarsvæði Mývatns.

Mér skilst að ekkert lát eigi að vera á nýbyggingum, meðal annars stóru og nýju hóteli alveg niðri við bakka þess hjá Reykjahlíð.

Allir halda áfram gróðasókn sinni, þótt að í það stefni, að varan, sem á að selja, lífríkið allt, verði uppétin eins og þegar kartöflubóndi étur allt útsæðið.

Þjóðsöngur íslenskra sveita, "Blessuð sértu sveitin mín" varð til í Mývatnssveit.

Öll umgengni íslensku þjóðarinnar, sem ber ábyrgð á vatninu, er í æpandi ósamræmi við upphafsljóðlínu þess söngs.


mbl.is Bregðist við eins og við náttúruhamförum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar sem ég þekki til erlendis þá er þetta rakið 90% til ofnotkunar tilbúins áburðar hjá bændum í kringum vötnin - svo hvað er öðruvísi hér sem þarf að "rannsaka"

Grimur (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 10:03

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig á að selja " lífríkið allt" ef ekki má byggja aðstöðu fyrir ferðamenn við vatnið?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.5.2016 kl. 11:11

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í meirihluta á Alþingi, sem hefur getað veitt fé í hreinsibúnað við Mývatn ef sveitarfélagið hefur ekki efni á því.

Ferðaþjónustan hefur bjargað fjárhag ríkisins eftir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008, sem var í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Þar að auki er formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra þingmaður fyrir Norðausturkjördæmi.

Þorsteinn Briem, 6.5.2016 kl. 13:50

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu á ekki að leyfa nýja gististaði við Mývatn.

Þorsteinn Briem, 6.5.2016 kl. 13:55

5 identicon

Ef þetta er Cyano-baktería sem grasserar þarna... þá gangi okkur vel að losa okkur við þann fjanda, lífseigari en næstum allt, enda eitt elsta ef ekki elsta lífvera á jörðinni.

DoctorE (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 15:16

6 identicon

Af hverju bara sumar nætur af hverju ekki allar nætur?

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 17:10

7 identicon

Ferðaþjónustan er að rústa þessu svæði og það er alveg óþarfi að gera þjóðina ábyrga fyrir því.  Ekki er hún að græða á þessum drullupolli, Mývatni.  Svo mikið er víst.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 6.5.2016 kl. 18:38

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, Elín, þjóðin öll hefur grætt eins mikið og Mývatni og á Þingvöllum, Gullfossi, Geysi og öðrum náttúruverðmætum landsins.

Athugaðu, hvað þessi fjögur fyrirbæri, sem ég nefni, eru ólík, rétt eins og Bítlarnir eða söngvararnir í MA-kvartettinum.

Þess vegna er sú þrefalda ef ekki fjórfalda aðför að Mývatni, sem hefur verið í gangi í hálfa öld og heldur áfram, svo afdrifarík og slæm.

Dvöl sífjölgandi ferðamanna við vatnið hefur áhrif ekki síður en umferð þeirra við vatnið.

Það þurfa ekki allir ferðamenn, sem skoða fyrirbæri eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi að gista endilega á þessum stöðum sjálfum.

Það má finna staði eða svæði fyrir slíkt utan vatnsverndarsvæðisins ef það er það, sem þarf.  

Ómar Ragnarsson, 6.5.2016 kl. 21:23

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar John Lennon dó, dóu Bítlarnir. Þegar Jón frá Ljárskógum dó, dó MA-kvartettinn.

Ómar Ragnarsson, 6.5.2016 kl. 21:24

10 identicon

Ég sé ekki plúsana við húsnæðisvandræði, ólaunuð störf og nú síðast drullupollinn Mývatn.  Það er engum greiði gerður með því að gera þetta svona illa.  Hvorki okkur sem hér búum né þeim sem hingað koma sem gestir.  Tónlistin lifir hins vegar að eilífu og þeir John og Jón frá Ljárskógum sömuleiðis :)  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.5.2016 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband