8.5.2016 | 01:37
Á að vera leysanlegt mál.
Trén, sem nú eru farin að takmarka flutningsgetu flugvéla vegna þeirrar hindrunar, sem þau eru í aðflugi og flugtaki, gefa enga hugmynd um þann trjágróður sem var á þessu svæði þegar land var numið en hvarf af völdum manna og svalara veðurfars.
Ef þessi tré áttu að tákna endurheimt íslensks skóglendis hefðu þau átt að vera af lágvaxnari íslenskum tegundum.
Trén eru hávaxin barrtré af erlendum uppruna, sem ekki uxu á Íslandi fyrr en farið var að gróðursetja slík tré fyrir rúmri öld.
Skógurinn, sem lækka þyrfti, til þess að flugbrautin nýtist til fulls, er mikill minnihluti skógar í Öskjuhlíð og það á að vera leysanlegt mál að breyta skóginum þannig að þarna verði lægri skógur með íslenskum trjám, svo sem birki og reyni.
Lítið samræmi er í því að þessi tré séu ósnertanleg á sama tíma og til stendur að fella fallegan og skjólsælan skóg austast í Smáíbúðahverfinu og reisa þar íbúðablokkir sem byrgja fyrir lægri hús, sem standa fyrir sunnan þennan skóg.
Trén hafa skapað vandræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Reykjavíkurborg hefur ekki haldið því fram að skógurinn í Öskjuhlíð sé ósnertanlegur, heldur þveröfugt.
Skógurinn, sem er væntanlega íslenskur, er hins vegar á útivistarsvæði Reykvíkinga og Reykjavíkurborg ræður því hvort hluti hans verði felldur vegna flugvallarins á Vatnsmýrarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 8.5.2016 kl. 05:26
25.10.2013:
"Í framhaldi af undirritun meðfylgjandi samkomulags milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group munu ríki og Reykjavíkurborg vinna í samræmi við áður undirritaða samninga.
Undirbúningur eftirfarandi verkefna mun þegar hefjast:"
"... ii) Aðilar ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári [2013]. ..."
"iii) ... Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingar vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má."
Samkomulag ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um sameiginlega athugun á flugvallarkostum (svokölluð Rögnunefnd)
Þorsteinn Briem, 8.5.2016 kl. 05:33
Reykjavíkurborg og einkaaðilar eiga meirihlutann af Vatnsmýrarsvæðinu - Stjórnarskrárvarinn eignarréttur
"Eignarréttur er réttur einstaklings, fyrirtækis eða annars lögaðila til að nota hlut, selja eða ráðstafa á annan hátt og að meina öðrum að nota hann."
Reykjavíkurborg og einkaaðilar eiga meirihlutann af Vatnsmýrarsvæðinu, merkt hér með gulum strikum:
Þorsteinn Briem, 8.5.2016 kl. 05:37
Meirihluti Vatnsmýrarsvæðisins, 58%, er í eigu Reykjavíkurborgar og einkaaðila.
Eignarrétturinn er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni og Reykjavíkurborg getur því krafist þess að ríkið afhendi henni það land sem borgin á núna á Vatnsmýrarsvæðinu.
Og ein flugbraut hefur ekki verið talin nægjanleg á Vatnsmýrarsvæðinu.
Einnig hvort skógur yrði felldur vegna flugbrautarinnar við austurenda hennar í Öskjuhlíð, sem einnig er útivistarsvæði Reykvíkinga.
Þar að auki er svæðið við suðurenda norður-suður brautar flugvallarins einnig útivistarsvæði Reykvíkinga.
Þorsteinn Briem, 8.5.2016 kl. 05:41
22.3.2016:
Dómur um NA/SV-flugbrautina á Vatnsmýrarsvæðinu (sem segir nákvæmlega það sem undirritaður hefur alltaf sagt hér um þetta mál)
Þorsteinn Briem, 8.5.2016 kl. 05:50
Koma þá ekki umhverfisverndarsinnar sem segja skóginn ómetanlegt útivistarsvæði Reykvíkinga, lífríki sem á undir högg að sækja af mannavöldum, sem ekki verði metið til fjár og hvergi til annars staðar í heiminum? Skógur sem á sér enga hliðstæðu, hvorki hér á landi né annars staðar í veröldinni. Og að ef einhver vafi leiki á umhverfisáhrifum, eigi náttúran að njóta vafans. Látum ekki dali víkja fyrir virkjunum, hraun fyrir vegum og tré fyrir flugbrautum. Mæta mótmælendur og hlekkja sig við trén? Verður Ómar þar eða slæst hann í hóp skógarhöggsmanna?
Hábeinn (IP-tala skráð) 8.5.2016 kl. 12:15
Vá, vá, vá!
Ómar Ragnarsson, 9.5.2016 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.