28.5.2016 | 08:31
Misjöfn reynsla af kosningabandalögum og samstarfi flokka.
Reynsla af kosningabandalögum hefur verið misjöfn í áranna rás og formið líka misjafnt. Í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 1938 stilltu kratar og kommar upp sameiginlegum lista, sem fékk mun minna fylgi en flokkarnir tveir fengu samanlagt í kosningum á undan og eftir.
Í Alþingiskosningunum 1956 mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur kosningabandalag sem byggðist á því að flokkarnir ætluðu að ná meirihluta á Alþingi út á rúmlega þriðjung atkvæða með því að nýta sér galla þáverandi kjördæmaskipunar.
Þeir buðu ekki fram sameiginlega lista, heldur var ætlunin að Framsóknarmenn bygðu ekki fram lista í þéttbýliskjördæmum heldur kysu lista Alþýðuflokksins, en í dreifbýliskjördæmum byðu kratar ekki fram heldur kysu lista Framsóknarflokksins.
Bandalagið fékk nafnið Umbótabandalagið, en öflugir andstæðingar þess klíndu á því heitinu Hræðslubandalagið, sem svínvirkaði greinilega, því að þessi tilraun krata og Framsóknar mistókst.
Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið meirihluta í bæjar- og borgarstjórnarkosningum í Reykjavík samfellt alla öldina að undanteknum kosningunum 1978 tóku andstæðingar Sjalla sig saman og buðu fram sameiginlegan lista, Reykjavíkurlistann eða R-listann 1994 með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjórnarefni og höfðu sigur.
Listinn bauð aftur fram 1998 og 2002, en ekki 2006, eftir að samstarfið hafði rofnað, og eftir kosningarnar 2006 mynduðu Sjallar og Framsókn meirihluta.
Það virðist mest fara eftir samhug og heilindum í svona samstarfi hvernig það gengur.
Stundum gefst betur að lofa ákveðnu samstarfi fyrirfram frekar en kosningabandalagi eins og Viðreisnarstjórnin gerði 1963, 1967 og 1971.
Það gekk upp 1963 og 1967, en þegar Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð og buðu fram 1971, laskaðist Alþýðuflokkurinn það mikið að Viðreisnarstjórnin féll.
Samstarf en ekki kosningabandalag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.