31.5.2016 | 09:15
Þegar Elmar slapp við martröð.
Elmar Geirsson var með allra fljótustu og spretthörðustu landsliðsmönnum Íslands, og hann og Baldvin Baldvinsson voru yfirgengilega "fljótir á fimm metrunum" á sjöunda áratugnum eins og stundum er sagt um fljóta framherja.
Sagt var að Baldvin gæti sent sjálfum sér boltann og hraði hans færði KR-ingum meistaratitil 1968.
Hvorugur þeirra var með sérstaka boltameðferð eða leikni með boltann, enda þurftu þeir yfirleitt ekki á henni að halda.
Undantekning var þegar Elmar fékk boltann í frægum sigurleik Íslendinga yfir Austur-Þjóðverjum 1975 á svipaðan hátt og Ásgeir Sigurvinsson í sama leik, - snilld Ásgeirs skóp mark en Elmar náði ekki að nýta hraða sinn til að skora.
Þegar Gunnar Thoroddsen þáverandi sendiherra í Kaupmannahöfn, heilsaði upp á íslensku landsliðsmennina áður en landsleikur við Dani byrjaði á Idrætsparken 1967, þar á meðal Elmar, hné Elmar skyndilega niður og missti við það af leiknum.
Elmar skallaði helst aldrei boltann, þoldi ekki slík höfuðhögg, og einhver sem var að leika sér með bolta þegar sendiherrann ætlaði að taka í hönd Elmars, spyrnti honum óvart í höfuð hins snjalla framherja.
Það var alveg óborganlegt að heyra Hermann Gunnarsson, sem var í liðinu, segja frá þessu atviki og öðrum varðandi þennan einstaða landsleik.
Landsliðið lék því þennan leik án Elmars, en á móti kom, að hann slapp við þá einstæðu martröð sem 14:2 úrslitin voru.
Þau úrslit hefðu varla breyst mikið með Elmar um borð, því að það er enginn grundvallarmunur á 14:2 og 14:3 eða 14:4.
Fékk boltann í höfuðið myndskeið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.