12.6.2016 | 19:22
"Einsetukonurnar" í Hvammi. Þjóðarkrafan 1976.
Þegar ég var fimm sumur að Hvammi í Langadal árin 1950-54 bjuggu þrjár nokkurs konar einsetukonur í gömlum, hálfhrundum torfbænum, skammt frá íbúðarhúsinu, sem var úr steinsteypu og þá 18 ára gamalt.
Þessar þrjár konur, móðir og tvær dætur, voru niðursetningar á kostnað sveitarsjóðs, en í einu herbergi íbúðarhússins bjó fjórði niðursetningurinn, sem einnig var kona.
Hún var einsetukona að því leyti til að hún dvaldi ávallt ein í herbergi sínu án þess að vera á ferli að öðru leyti innan húss, en að fór út og kom heim þegar hún fór í stanslausar gönguferðir sínar um dalinn sem förukona.
Gisti hún þá stundum annars staðar, einkum á Björnólfsstöðum, sem voru yst í dalnum.
Einsetumenn voru í héraðinu og einn þeirra, Þorvaldur Pétursson, bjó einn á Strjúgsstöðum eftir að hann missti son sinn ungan.
Önnur dóttir Ásdísar Jónsdóttur, skáldkonu frá Rugludal, var lengstum í kaupavinnu að heiman, og mægðurnar í torfbænum voru sveipaðar ákveðinni dulúð.
Ýmislegt, sem heyrðist um þær og fortíð þeirra, hefði hugsanlega getað valdið fordómum í þeirra garð, en þegar sú yngsta þeirra varð að lokum ein af vistmönnum á hæli á Blönduósi kom í ljós að hún var í engu ólík öðru vistfólki og furðu fróð um þjóðfélagið þótt einangrunin í torfbænum og síðar í kofa við Blöndu, hefði bent til annars.
En andrúmsloft galdraofsókna getur vel gripið nútíma fólk. Eftir óvenjulega mörg mannshvörf var svo komið í lok árs 1975, að hávær bylgja reis um það að upplýsa þessi mannshvörf, og ekki aðeins það, heldur gaf almenningsálitið sér það að hvörfin væru af mannavöldum og að finna þyrfti hina seku og refsa þeim.
Þetta viðhorf smitaðist inn í fjölmiðlana, einkum í harðri samkeppni tveggja síðdegisblaða, Vísis og Dagblaðsins og loks lék allt þjóðfélagið á reiðiskjálfi, allt frá miklu umtali almennings upp í gegnum Alþingi og ríkisstjórnina.
Galdranornir þessara tíma voru fíkniefnaneytendur, sem meðal annars neyttu ofskynjunarlyfsins LSD, en afleiðingar af neyslu þess og afleiðingar af neyslu fleiri fíkniefna í senn, sem gátu valdið afar slæmum afleiðingum, gerðu þetta fólk og hegðun þess að ógn í hugum margra.
"Þetta eru nú engir kórdrengir" var sagt þegar harðir dómar voru felldir, án þess að fyrir lægju lík, morðvopn eða bein sönnunargögn, og dómsmálaráðherra sagði að þungu fargi væri létt af þjóðinni.
Af nornabrennum og fóstureyðingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
15.9.1976:
"Karl Schütz kom hingað til lands fyrir nokkrum vikum að ósk ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að veita aðstoð við rannsókn Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins."
Alþýðublaðið 15.9.1976
Ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar 1974-1978
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:34
"Karl Schütz var að eigin sögn sérfræðingur í að "vernda æðstu ráðamenn Sambandslýðveldisins og upplýsa mál sem vörðuðu öryggi ríkisins".
Þegar hann var farinn af landi brott lýsti hann því yfir í viðtali við þýskt síðdegisblað að meðferð gæsluvarðhaldsfanganna hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni."
Hliðverðir dómsmorðs? - Greinasafn Sigurfreys
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:35
Þeir sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins eru allir saklausir, þar sem sekt þeirra hefur ekki verið sönnuð.
Og á þeim voru framin gróf mannréttindabrot.
"Rétturinn til réttlátra réttarhalda byggir á mörgu, eins og því hvernig sönnunargögnin eru kynnt, hegðun réttarmeðlima, almennings og fjölmiðla."
"Að vera álitinn saklaus þar til sekt er sönnuð.
Réttur þessi byggir á því að dómarar gæti þess að fordómar hafi ekki áhrif á úrskurð þeirra. Þetta á einnig við um aðra opinbera starfsmenn.
Í þessu felst að opinber yfirvöld, sérstaklega lögregla og saksóknarar, láti ekki í ljós skoðanir sínar á sakhæfi sakbornings fyrr en að réttarhöldum loknum.
Jafnframt felur rétturinn í sér að yfirvöldum beri skylda til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar eða valdamiklir hópar í samfélaginu hafi áhrif á framvindu málsins."
Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi - Ýmis mannréttindi
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:36
"Þegar um er að ræða sakamál er lögð rík áhersla á það sjónarmið að dómur sé byggður á réttum forsendum, þannig að saklaus maður verði ekki dæmdur fyrir brot sem hann hefur ekki framið."
"Í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skal maður, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, talinn saklaus þar til sekt hefur verið sönnuð."
Um lög og rétt. - Réttarfar, Eiríkur Tómasson, 2. útg., bls. 202-204.
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:37
Læknablaðið, 11. tölublað 2011:
Flestir geta játað falskt - Viðtal við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing
3.10.2011:
Gísli Guðjónsson, einn fremsti réttarsálfræðingur heims, vill láta taka upp Guðmundar- og Geirfinnsmálin
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:39
"Endurupptaka dómsmáls - 1. Það þegar mál er tekið til nýrrar meðferðar eftir að dæmt hefur verið í því."
Lögfræðiorðabók með skýringum, Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:40
26.2.2016:
"Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands segist lesa út úr dómi Hæstaréttar í gær að hvorki löggjafinn né endurupptökunefnd geti hreyft við gildi dóms sem hefur fallið.
Einnig að þegar endurupptökunefnd meti hvort mál skuli endurupptekið þurfi viss skilyrði að vera fyrir hendi, til dæmis að komið hafi fram ný gögn og svo framvegis.
Hæstiréttur áskilur sér alltaf endanlegt mat á því hvort slík skilyrði hafi verið fyrir hendi."
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:44
26.2.2016:
"Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands telur að endurskoða þurfi lög um endurupptökunefndina.
Hugsanlegt sé að styrkja nefndina með ýmsum hætti.
"Ein aðferðin er sú að gera endurupptökunefnd að dómstól," segir Stefán Már."
Þorsteinn Briem, 12.6.2016 kl. 19:45
Hver sagði "Þetta eru nú engir kórdrengir" þegar harðir dómar voru felldir? Sért þú að vísa í dóma í Geirfinns og Guðmundarmálinu þá finn ég ekkert svipað fyrr en fyrst 17 árum eftir dómsuppkvaðningu.
Í öllum liðum sem sakfellt var fyrir í Geirfinns og Guðmundarmálinu lágu fyrir bein sönnunargögn, vitni eða játningar. Engin ný gögn hafa komið fram síðan þá. Öllum er frjálst að hafa sína skoðun á gildi þerra gagna sem til grundvallar lágu. En skoðanir eru ekki sönnunargögn.
Dómur í Geirfinns og Guðmundarmáli féll 1980. Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur 1994 og hafði ekkert lagagildi fyrir þann tíma. Stjórnarskránni var svo breytt til samræmis 1995. Stjórnarskrá eins og lög er ekki afturvirk. Mál verða aðeins dæmd eftir þeim lögum sem gilda þegar meint brot á að hafa verið framið.
Hábeinn (IP-tala skráð) 12.6.2016 kl. 21:10
Ragnar Hall, sem settur var sem sérstakur saksóknari vegna beiðnar um endurupptöku, lét þau orð falla í sjónvarpsþætti að hinir sakfelldu hefðu ekki verið neinir kórdrengir. Ég geri ráð fyrir að Ragnar vildi nú aldrei hafa sagt þessi orð, en þau vitnuðu beinlínis um að réttlætinu virtist ekki hafa verið fullnægt með niðurstöðu hans. "Justice must not only be done, it must seen to be done."
Hitt hvað varðar ummæli Hábeins, þá eru þau út í hött. Íslensk stjórnvöld gáfu um það fullvissu á sínum tíma þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var fullgildur, að þótt mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar væru ófullkomin, þá væri dómaframkvæmdin að fullu í samræmi við sáttmálann.
Þar fyrir utan getur varla verið að réttarmorð séu í samræmi við lýðveldisstjórnarskrána hversu léleg sem hún hafi verið, þ.e. fella þunga dóma eingöngu á grundvelli játninga eftir marga mánuði í einangrunarvist án þess að þær játningar hafi verið studdar með staðreyndum.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 12.6.2016 kl. 21:38
Ragnar Hall lét þau orð falla að hinir sakfelldu hefðu ekki verið neinir kórdrengir 1997 en ekki 1980 þegar dómar voru felldir.
Dómarar eiga að fara að lögum en ekki fyrirmælum stjórnvalda. Meðan óskir stjórnvalda eru ekki lögfestar hafa þær ekkert gildi. Fullvissa stjórnvalda nær ekki yfir dómaframkvæmdir.
Það er ómarktækt að vitna í greinar stjórnarskrár og lög sem ekki voru til þegar dómur var kveðinn upp.
Í öllum liðum sem sakfellt var fyrir í Geirfinns og Guðmundarmálinu lágu fyrir bein sönnunargögn, vitni eða játningar. Engin ný gögn hafa komið fram síðan þá. Öllum er frjálst að hafa sína skoðun á gildi þerra gagna sem til grundvallar lágu. En skoðanir eru ekki sönnunargögn.
Mál verða aðeins dæmd eftir þeim lögum sem gilda þegar meint brot á að hafa verið framið. Hugmyndir okkar tíma, mannréttindi og lög hafa ekkert gildi í málum fortíðarinnar. Þau skipta þúsundum mál síðustu aldar sem ekki falla að lögum okkar tíma en voru í fullu samræmi við lög þess tíma.
Hábeinn (IP-tala skráð) 12.6.2016 kl. 21:57
Hundrað árum eftir þjóðarmorð Tyrkja á Armenum, löngu áður en það hugtak varð skilgreint og sett í mannréttindasáttmála, eru þjóðþing og ríki að viðurkenna þau.
Gísli Guðjónsson hefur starfað við mörg mál, þar sem ranglega dæmdir menn voru sýknaðir og þau mál eru mörg erlendis.
Nina Simone var meinað að fá gráðu konsertpíanista í tónlistarstofnun Philadelpiu í Bandaríkjunum áður en lög um réttindi blökkmanna voru sett þar í landi.
Skömmu fyrir andlát hennar hálfri öld síðar var henni veitt doktorsgráðan.
Mjög athyglisvert er að heyra röksemdir Hábeins fyrir því að í "hugmyndir okkar tíma og lög hafi ekkert gildi í málum fortíðarinnar."
Samkvæmt því eru ofangreind mál hrein steypa af hálfu þeirra, sem rétt hafa hlut þeirra, sem brotið var á í fortíðinni samkvæmt hugmyndum okkar tíma.
Ómar Ragnarsson, 12.6.2016 kl. 23:03
Þorgeir Þorgeirsson var dæmdur í Hæstarétti 1987, vísaði málinu til Mannréttindadómstólsin í Strassborg 1988 og var dæmdur þar sýkn saka 1992.
Ómar Ragnarsson, 12.6.2016 kl. 23:11
Hundrað árum eftir þjóðarmorð Tyrkja á Armenum er stjórnvöldum, þáttastjórnendum, bloggurum og pistlahöfundum flestra landa frjálst að túlka það að vild. Það hefur ekkert lagagildi fyrir Armena og setur enga kvöð á Tyrki.
Gísli Guðjónsson hefur starfað við mörg mál, þar sem dæmdir menn voru sýknaðir og þau mál eru mörg erlendis. Gísli Guðjónsson hefur einnig starfað við mörg mál þar sem dæmdir menn voru ekki sýknaðir, og þau mál eru líka mörg erlendis.
Nina Simone var meinað að stunda nám við tónlistarskóla í Philadelphiu. Skömmu fyrir andlát hennar var henni veitt heiðursgráða við skólann. Það kemur lögum ekkert við og eftir sem áður stundaði hún ekki nám við skólann og útskrifaðist ekki frá honum.
Þorgeir Þorgeirsson var dæmdur í Hæstarétti 1987, sá dómur stendur enn hafi hann ekki fengið náðun. Hann höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og mannréttindadómstóllinn taldi sýnt að meiðyrðalöggjöf Íslands fæli í sér brot á tjáningarfrelsinu og 10. grein mannréttindasáttmálans. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að dómurinn á Þorgeiri hefði þó ekki falið í sér brot á íslenskum lögum heldur verið í samræmi við 108. gr. laga og dómahefð á landinu. Með öðrum orðum fólu, samkvæmt dómstólnum, lögin sjálf í sér mannréttindabrot, en ekki dómurinn gegn Þorgeiri einn og sér.
Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur 1994 og breytist þar með réttarheimildaleg staða sáttmálans úr því að vera þjóðréttarleg
skuldbinding á grundvelli alþjóðasamnings yfir í að vera almenn lög frá Alþingi. Misræmi milli almennra laga frá Alþingi og þjóðréttarlegra skuldbindinga á grundvelli alþjóðasamninga geta skapað ríkinu þjóðréttarleg viðurlög, hvað sem það er. Það allavega kemur dómstólum ekkert við, almenn lög frá Alþingi eru það sem dómstólar fara eftir..
Hábeinn (IP-tala skráð) 13.6.2016 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.