28.6.2016 | 08:58
Stade de France 2000, - hvað nú? Rússarnir 2008.
Þegar úr vöndu var að ráða fyrir þáttaröðina "Fréttir aldarinnar" árið 2001 vegna vals á 100 mestu íslensku fréttunum á 20. öldinni, varð árangur íslenska karlalandsliðsins í EM 2000 fyrir valinu sem ein af þeim.
Ástæðan var sú, að á Stade de France í landsleik við heimsmeistara Frakka, þar sem Íslendingar höfðu lent í riðli með þeim, gerðist það í fyrsta sinn í íslenskri knattspyrnusögu, að íslenskt landslið hafði í fullu tré við sjálfa heimsmeistarana í alvöru landsleik, þýðingarmiklum leik í undanfara stórmóts.
Í leiknum hér heima höfðum við gert magnað jafntefli við heimsmeistarana og á Stade de France að viðstöddum tugþúsundum áhorfenda á þessum þjóðarleikvangi Frakka, reyndist íslenska liðið eiga fullt erindi og standa að öllu leyti gullaldarliðið stórþjóðarinnar á sporði.
Frökkum tókst að merja eins marks sigur í lok leiksins og Íslendinga var heiðurinn.
EM draumurinn, að komast í úrslitakeppni á stórmóti, rættist að vísu ekki það sinn, en nú hefur hann ræst, og nú verður Stade de Franca að nýju örlagavettvangurinn.
Íslenska liðið núna minnnir að því leyti á rússneska liðið á EM 2008, að það á hug og hjörtu knattspyrnuáhugafólks um víða veröld.
Knattspyrnan, sem Rússarnir léku 2008 var sú skemmtilegasta og besta um áraraðir og fleytti þeim upp í undanúrslit.
Það var einkum sóknarleikur þeirra með Arzhavin sem skærustu stjörnuna, sem gladdi mann og sýndi fram á að ekki væri hægt að drepa góða sóknarknattspyrnu með því að gera leikinn að langdregnu tafli, þar sem annað liðið spilar aðeins upp á að fá ekki á sig mark.
Það sem er svo æðislegt við leik íslenska liðsins í gær, var hvað sóknarleikurinn var beittur hjá íslenska liðinu.
Eitt mikilvægt atriði er sameiginlegt íslenska liðinu og því rússneska 2008, gífurleg yfirferð leikmanna.
Sagt var að að meðaltali hefðu íslensku leikmennirnir hlaupið 50% lengri vegalengd samanlagt í leiknum en hver leikmaður enska liðsins.
Rússarnir léku einnig svona 2008, en af einnþá meiri hraða en nokkurt annað lið sem ég man eftir.
Í undanúrslitunum kom hins vegar í ljós, að þeir höfðu gengið fram af sér, og að of mikið hafði verið lagt á of fáa menn.
Þetta verður aðalatriðið varðandi leikinn á Stade de France næsta sunnudag.
Þess vegna var það afar dýrmætt að leikurinn i gær fór ekki í framlengingu og vítaspyrnukeppni.
Innáskiptingarnar í lok tveggja síðustu leikja gefa vonir um að hægt verði að dreifa álaginu meira en hingað til, þar sem sama byrjunarliðið hefur leikið nánast alla leikina.
Í vináttulandsleikjunum í ár hafa Lars og Heimir reynt að prófa sem flestar útfærslur af samsetningu liðsins og leikaðferðum.
Vonandi tekst þeim að leysa úr komandi vandamálum af sömu færni og þeir hafa gert hingað til.
Ísland ekki jafn vinsælt frá eldgosinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.