Þegar virðingin sigraði óvirðinguna.

Umhugsunarvert er að fylgjast með neikvæðum viðbrögðum undramargra við því kjörorði EM í knattspyrnu að sýna mótherjum virðingu. Það nýjasta, úr herbúðum þjóðernissinnaðs flokks í Danmörku, þar sem íslenska landsliðið er nýtt í áróðri flokksins gegn hörundsdökkum Evrópubúum, vekur upp gamlan draug frá því fyrir 80 árum.

Þegar slíkt gerist er hollt að minnast nokkurrra tilvika þegar ólíkir íþróttamenn sýndu hver öðrum virðingu og einstaka vináttu.

Í tveimur tilfellum var um að ræða annars vegar afreksmenn, sem Hitler og nasistarnir hófu upp til skýjanna til þess að sýna fram á yfirburði hins hvíta "aríska" kynþáttar gagnvart "óæðri kynþáttum" eins og Gyðingum, Slavneskum þjóðunum og blökkumönnum, - en hins vegar bandaríska blökkumenn. 

Þegar Max Schmeling rotaði öllum að óvörum blökkumanninn Joe Louis 1936 var Schmeling hafinn upp til skýjanna og báru Hitler og Göbbels hann á höndum sér við heimkomuna.

Max var ekki mikið um þetta gefið en fékk ekki rönd við reist frekar en Íslendingar og íslenska landsliðið nú gagnvart notkun danskra þjóðernissinna á myndum af íslenska knattspyrnulandsliðinu til þess að amast við hörundsdökku fólki í Evrópu.  

En gæfuhjól Max Schmelings snerist heldur betur við 1938 þegar Louis gersigraði Þjóðverjann.

En milli þeirra tókst náin vinátta og virðing sem entist meðan báðir lifðu.

Á Ólympíuleikunum 1936 tókst vinátta á milli langstökkvaranna Lutz Long og Jesse Owens sem entist líka meðan báðir lifðu.

Long var þýskur og tók forystunna í langstökkskeppninni, Hitler og nasistunum til mikillar ánægju.

Owens var í vandræðum með atrennuna og Long gaf honum góð ráð. Hvort það skipti miklu máli eða ekki var söm gerðin hjá Long, Owens tók forystuna, setti glæsilegt Ólympíumet og varð stjarna leikanna með fern gullverðlaun.

Owens var frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og þrátt fyrir einstæð afrek hans bauð Roosevelt honum ekki í Hvíta húsið.

Suðurríkin voru þá enn eitt helsta vígi Demokrata og takmörk fyrir því hvað mætti styggja forsprakka kynþáttaaðskilnaðar í Suðurríkjunum.

Owens mátti þola kynþáttamismunum í heimalandi sínu og gista til dæmis á lakari hóteldum en hinir hvítu, þegar hann var á ferð í Bandaríkjunum, þótt hann fengi að vera í jafngóðu hóteli og hinir hvítu í Þýskalandi nasistanna! 

 


mbl.is „Knattspyrna snýst um virðingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband