13.7.2016 | 20:12
Gamall hrollur tekur sig upp.
Þegar horft er yfir aðstæður í Sveinsgili á myndunum í kvöldfréttum Sjónvarpsins fer um mig gamall hrollur frá sumrinu 1966.
Þá átti ég nýjan Bronco og við Helga fórum á honum upp í Kerlingarfjöll.
Þetta var snemmsumars og stór skafl huldi gil, sem þurfti að fara yfir á leið okkar upp á Keis.
Mér tókst að komast yfir skaflinn en þegar komið var upp, datt mér það í hug að gaman væri að aka niður hann endilangan eftir miðju hans þótt brattinn væri mikill.
Sjálfur fór ég aldrei á skíði á þessum árum en sagði við Valdimar Örnólfsson að ég þyrfti ekki skíði, ég gæti alveg eins notað jeppann og jafnvel orðið fljótari en skíðamaður, af því að þegar skaflinum sleppti gæti ég brunað á fullri ferð áfram, en skíðamaður hins vegar ekki.
Þetta gerði ég áfallalaust þrátt fyrir geigvænlegan hraða og hafði enginn gert þetta áður, og ekki síðar heldur að sögn Valdimars.
Síðan fórum við til Reykjavíkur en afar mikil hlýindi og leysing næstu vikuna urðu til þess að á einum stað, þar sem ég hafði ekið á miklum hraða niður skaflinn, myndaðist stórt gat í hann, sem sýndi, hvað hefði gerst ef hann hefði brostið undan jeppanum.
Hugsanlega var það hinn mikli hraði jeppans sem bjargaði málum, en ef skaflinn hefði brostið undan jeppanum á þessum stað, hefði hann fallið niður í gilið og hugsanlega oltið þar eftir læknum í því og undir skaflinn.
Að minnsta kosti hafði ég ekki hugmynd um það fyrir þessa þeysireið hve djúpt var undir skaflinum því að þetta var fyrsta ferð mín í fjöllin.
Þá voru engin bílbelti í bílum og hefði vart þurft um að binda.
Ef ég hefði verið fáum dögum síðar á ferð hefði getað farið illa.
Þetta sýnir að það er oft að mörgu að hyggja í ferðum á hálendi Íslands.
Barst með ánni undir ísdyngjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í sögu Miðausturlanda: Sviðsetning ólíkleg
Þorsteinn Briem, 18.7.2016 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.