18.7.2016 | 20:42
Þegar tæknibreytingar fella stórveldi á sínu sviði.
Sumar tæknibreytingar í viðskiptum og iðnaði eru þess eðlis, að bregðist þeir sem lifa á gömlu tækninni ekki afar skjótt við og af mikilli hugkvæmni við að gerbreyta starfsemi sinni í krafti hinnar nýju tækni, er viðbúið að þeir lifi breytingarnar ekki af.
Sú var tíðin að Kodak og Hans Petersen voru stórveldi í kvikmynda- og ljósmyndaiðnaðinum, annars vegar á Kodak á heimsvísu en Hans Petersen hér heima í krafti þess að selja Kodak-vörur,
Þegar stafrænu myndavélarnar komu til sögunnar þráaðist Kodak of lengi við að gera róttækar breytingar á stafsemi sinni. Tækni þeirra við að búa til myndavélar, þar sem myndirnar voru á filmum og framkölluðust þegar í stað, gekk alls ekki nógu langt til að hamla á móti yfirburðum stafrænu myndanna og tengdrar vöru í hinum tölvuvædda myndavélaiðnaði.
Það er til marks um hve mikil bylting þetta var, að hér á árum áður var maður vikulegur viðskiptavinur Hans Petersen, en inn í búðina í Ármúla, þá einu, sem eftir er, hef ég aldrei komið og hef ekki hugmynd um hvað þar er að finna.
Hins vegar á ég oft leið í verslanirnar Símabæ og Elco þarna rétt hjá, en sú fyrrnefnda byrjaði smátt í horninu á Nettó í Mjóddinni, enn hefur þrifist vel sem verslun með miklu vöruúrvali og lágu verði.
Ég hef stundum verið að velta vöngum yfir því hvernig stóru olíufyrirtækin muni bregðast við því þegar olían þverr og útskipti á orkugjöfum verða.
Munu einhver þeirra eða þau öll þráast svo við að ríghalda í óbreytta starfsemi að aðrir orkurisar ryðji þeim úr vegi?
Eða mun eitthvert þeirra verða fljótari en hin og nógu fljótt til að söðla um og taka þátt í byltingunni?
Hvað segir ekki erlenda máltækið: "If you can´t beat them, join them."
Hans Petersen gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki N1 kominn með stærsta eignarhaldið á Metan hérlendis ? - Annars var ég sjá það einhversstaðar, að olían er EKKI á útleið miðað við hvað hefur fundist í Mexicoflóa og Norðmenn eru ekki á þeirri skoðun að olían sé að þverra í þeirra ranni. - Ja, þetta sá ég..
Már Elíson, 18.7.2016 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.