Þegar ég sá eini sem slapp heill heilsu úr veislunni.

Í tengslum við vel heppnaða sýningu Herranætur á leikritinu Vængstýfðum englum í Hveragerði 1958 fengu allir að borða á hótelinu þar. 

Varla var veislan búin þegar allir urðu veikir nema ég. Sumir urðu svo veikir, að þessi veikindi rötuðu í blaðafrétt, enda varð að kalla héraðslækninn til. Rútan, sem við vorum í, gat ekki komist af stað til Reykjavíkur og af þessu hlutust hin mestu vandræði. 

Þetta þótti veislugestum ósanngjarnt hvað mig snerti, því að í veislunni hafði ég farið í kappát við beljakann Lúðvík B. Albertsson, sem var nokkuð eldri en ég og státaði af því að hafa verið afleysingalögregluþjónn á Siglufirði.  

Fór þetta einvígi þannig að Lúðvík tapaði illla, - ég át hann undir borðið, ef svo mátti segja, því að hann varð allra manna veikastur en ég kenndi mér einskis meins. 

Við rannsókn málsins upplýstist jafnframt hvaðan eitrunin kom og hvers vegna Lúðvík varð veikastur en ég sá eini sem slapp.  Í ljós kom að ég hafði verið eini veislugesturinn sen ekki hafði borðað grænar baunir, sem Lúðvíg hafði að sjálfsögðu graðgað í sig öllum öðrum fremur.

Baunirnar voru rannsakaðar og reyndust eitraðar. 

Hefði varla þurft að spyrja að örlögum mínum ef ég hefði ekki verið svona fráhverfur grænum baunum.

Ef þetta hefði verið fjölskylduveisla hefði hún breyst í fjölskituveislu.  


mbl.is Brúðkaupsgestir fengu matareitrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Mér finnst orðið "fjölskituveisla" vera bæði lýrískt og myndrænt og verður hér með tekið inn í íslenskar orðabækur. Orðið segir allt sem þarf og er þar að auki hláturvekjandi svo maður verður að passa sig. Frábært hjá þér Ómar.. 

Már Elíson, 29.7.2016 kl. 10:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér þykir miður ef orðið vekur slíkar hræringar með mönnum, sem eru að reyna að halda í sér, að þeir geri á sig. Ekki síst ef ástand viðkomandi manns er slíkt að hann verði stykkisólmur.   

Ómar Ragnarsson, 29.7.2016 kl. 11:57

3 Smámynd: Már Elíson

Stykkisólmur...enn eitt snilldarorðið...Hvar er nýyrðabókin þín ?

Már Elíson, 29.7.2016 kl. 12:24

4 identicon

Ómar rétt er að hafa í huga leiðbeiningu Ara fróða: "Hvatki es missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist." Ekki fóru alveg allir í matinn í Hótel Hveragerði í janúar 1959 (ekki 1958). Þeir örfáu sem ekki fóru, þar á meðal ég, veiktust ekki. Þeir sem veiktust voru skelfilega veikir. Ekkert var gert í málin, enda hóteleigandinn blindur! ( og samdi lagið "Ljósbrá", sem síðar varð frægt.)

Jakob R. Möller (IP-tala skráð) 29.7.2016 kl. 16:22

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Æ, takk fyrir minn elskanlegi Jakob. Mér fannst einhvern veginn að þetta hefði verið leikritið "Vængstýfðir englar" sem sýnt var í Hveragerði, en 1959 var Þrettándakvöld sýnt, og það hefur verið það Herranæturleikrit, sem var þá á ferð. 

Það, sem missagt er hjá mér, er orðið "allir" í setningunni "...fengu allir að borða" og leiðréttist það hér með.

Það fengu fengu sem sé ekki alveg allir að borða, og hinir örfáu, sem ekki fengu að borða, gátu auðvitað ekki gætt sér á eitruðum grænum baunum og fengið skitu, - og raunar meira en það, orðið fárveikir.

Ef þessi eina villa mín er leiðrétt, stendur frásögnin að öðru leyti, - af þeim næstum öllumm, sem fengu að borða, fengu allir eitrunina nema ég.

En þarna sést hvor okkar kláraði sitt lagadeildarnám. Annar okkar orðinn "jússósa" og með fullkominn "juridiskan þankagang." 

Ómar Ragnarsson, 29.7.2016 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband