8.8.2016 | 23:05
Vel valin verkefni, góð byrjun hjá forsetanum.
Mikið þótti mér vænt um að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skyldi velja Sólheima í Grímsnesi sem sinn fyrsta stað til að heimsækja og vekja athygli á.
Það snertir mig persónulega á þann hátt, að eitt af því sem mér finnst kannski allra vænst um að hafa getað lagt lið á ferli mínum sem fréttamaður, var að fá tækifæri til að kynna einn íbúann, Reyni Pétur í sjónvarpi og opna augu fólks fyrir þeim hæfileikum mannkostum, gleði og væntumþykju, sem fólkið þarna býr yfir, - jafnvel snilldarhæfileikum eins og hjá Reyni Pétri.
Á Sólheimum má kalla marga hinsegin fólk á sína vísu, og því var ekki síðra það tiltæki forsetans að koma í Gleðigönguna hjá hópi, sem þurfti enn lengur en fólkið á Sólheimum, að lifa í skugga fáfræði og fordóma um hinsegin fólk.
Og á Fiskideginum mikla á Dalvík var fjölmennasta hátíðin utan Reykjavíkur og þar að auki með miklum menningarbrag og góðri framkomu gesta og heimamanna.
Forsetinn setti með þessu fordæmi fyrir okkur hin, þegar hann sagðist vera ánægður með að fá tækifæri til að geta vakið athygli á góðum málum.
Ég fór því í dag til þess að reyna eitthvað svipað, þótt í litlu sé, og setti einkanúmerið EDRÚ á reiðskjóta minn, Létti.
Í vetur ók ég jöklabíl á stórum dekkjum í hjólförunum, sem myndast höfðu í Vesturlandsveg, en á svona stórum dekkjum getur verið ómögulegt að aka alveg beint í svona hjólförum.
Það varð til þess að lögreglan stöðvaði mig og ég blés í blöðru hjá þeim.
Ég get gantast með þetta á þann hátt, að ef þeir sjá svona hálfáttræðan karl á vélhjóli gætu þeir kannski átt það til að tékka á því hvort hann væri allsgáður að taka upp á svonalöguðu.
Þá er vissara að veita upplýsingarnar á númerinu, svo að ekki þurfi að blása aftur í blöðru.
En, án gamans, númerið er á hjólinu til þess að vekja athygli á hinu stórkostlega þjóðþrifastarfi sem SÁA innir af hendi og hefur bjargað þúsundum mannslífa, beint eða óbeint, og ómældum fjárhæðum.
Sömuleiðis að hvetja til íhugunar um gildi bíndindis og heilbrigðs lífernis.
Og á Litla-Hrauni er ljóst að eru ágætis menn, því að samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu eru númeraplöturnar á vélhjólum svo litlar, að ekki á að vera hægt að setja nema þrjá stafi í röð.
Var mér sagt að ég yrði skipta EDRÚ í tvennt, hafa ED- í efri línunni en RÚ í neðri.
En, viti menn, - án þess að ég bæði um það leystu númerasmiðirnir á Hrauninu málið fyrir mig eins og sjá má.
Í reglum um einkanúmer er ákvæði um að 65 ára og eldri þurfi aðeins að borga 2600 krónur fyrir svona númer á vélhjóli, - kannski eitthvað meira fyrir bílnúmer.
Þetta er hugulsemi, - lífeyrisþegar lækka oft mikið í launum við að fara á eftirlaun og auk þess er eðli máls samkvæmt meiri nostalgía hjá þeim en hinum yngri.
Forseti Íslands kominn á Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú ert sólargeisli elsku Ómar
Ragna Birgisdóttir, 8.8.2016 kl. 23:28
Aldraður á fínni Frú,
forseta á glöggan,
Ómar kallinn enn edrú,
ekki hélt þó löggan.
Þorsteinn Briem, 8.8.2016 kl. 23:44
Ekki til betri menn en á Litla-Hrauni, enda hafa þeir verið betraðir.
Framsóknarflokkurinn er hins vegar á Kvíabryggju.
Þorsteinn Briem, 8.8.2016 kl. 23:51
Góður Steini..
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 9.8.2016 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.