10.9.2016 | 08:31
Hvar eru forsetabíllinn og Glitfaxi?
Eftir þrjú ár rennur út 75 ára grafarhelgi Goðafoss. Þá fyrst er gerlegt, hennar vegna, að aðhafast eitthvað til að kanna skipsflakið, ef það finnst endanlega og það er tæknilega mögulegt.
Í þætti um slysið, sem sýndur var á Stöð 2 í nóvember 1994, hálfri öld eftir að skipinu var sökkt, sagði einn eftirlifandi skipverji frá því, að hann hefði stokkið í sjóinn af kassa utan af Packard-bíl, sem stóð á skipinu.
Bíllinn var gjöf Roosevelts, Bandaríkjaforseta, til forseta Íslands og ætlað var að leysa af hómi eldri bíl af Packard-gerð, sem ríkisstjóraembættið hafði notað sem viðhafnarbíl.
Fróðlegt væri að vita, hvort þessi forsetabíll á eftir að finnast. Ekki skiptir máli, hversu illa hann er leikinn af ryði, því að samkvæmt reglum um fornbíla, nægir að finna grindina með grindarnúmerinu og vélarblokkina með vélarnúmerinu.
Er þá hægt að gera bílinn upp samkvæmt kröfum um, hvernig slíkt þurfi að gera.
Goðafossslysið er Titanic-slys Íslands.
Í febrúar 2026 rennur út grafarhelgi annars flaks í Faxaflóa, flaksins af flugvélinni Glitfaxa, sem liggur undan Flekkuvík á Vatnsleysuströnd að því er ætlað er.
Þegar vélin fórst var gengið út frá því að flakið væri skilgreint sem grafreitur og ekki hróflað við því. 20 manns voru um borð og eru lík þeirra þar enn að öllum líkindum.
Brak úr vélinni fannst, svo að líklegt er að hún hafi brotnað við harkalega lendingu á sjónum.
Ástæða slyssins er ekki ljós, ekki vitað hvort henni var flogið í sjóinn, til dæmis vegna hæðarmælisskekkju eða annarrar bilunar eða hvort hún varð eldsneytislaus.
Ef flakið fyndist yrði kannski, þótt seint sé, hægt að leysa þessa 65 ára gömlu gátu.
Goðafoss fundinn af þýskum kafara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Eftir þrjú ár rennur út 75 ára grafarhelgi Goðafoss. Þá fyrst er gerlegt, hennar vegna, að aðhafast eitthvað til að kanna skipsflakið, ef það finnst endanlega og það er tæknilega mögulegt."
"Þýski kafarinn Thomas Weyer fann nú í sumar farþegaskipið Goðafoss, sem legið hefur á hafsbotni frá því að þýskur kafbátur sökkti skipinu með tundurskeyti í nóvember 1944 með þeim afleiðingum að 24 fórust.
Nákvæm lega Goðafoss á hafsbotni hefur verið á huldu frá því að skipið sökk, allt að því að þýska tímaritið Spiegel greindi frá fundi Weyer nú í dag."
Þorsteinn Briem, 10.9.2016 kl. 08:47
Þú ert skemmtilega fróður um svo margt. Geturðu lýst þessari grafarhelgi nánar? Hver var ástæðan fyrir henni? Þótti ósæmilegt að sækja líkin skyldi vélin finnast?
Jón (IP-tala skráð) 10.9.2016 kl. 08:48
"Að auki teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 til forngripa og eru því friðuð sökum aldurs.
Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun fornminja (forngripa og fornleifa), húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra.
Friðuðum menningarminjum má enginn, hvorki eigandi, landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, raska, spilla, granda, hylja, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands."
Aldursfriðun - Minjastofnun Íslands
Þorsteinn Briem, 10.9.2016 kl. 09:49
Í íslenskum lögum er ákvæði um grafarhelgi, sem gildir um legstaði.
Eftir Glitfaxaslysið var það ákvörðun aðstandenda og flugfélagsins að ákvæði um grafarhelgi skyldi gilda gagnvart flakinu af Glitfaxa.
Það var afar eðlileg og sanngjörn niðurstaða.
Eini munurinn á hinum vota legstað Glitfaxa og kirkjugarði er, að þetta er votur grafreitur þar sem 20 manns hvíla.
Grafreiturinn er ekki vigður eins og kirkjugarðar eru, en er þó legstaður í öllum skilningi.
Ómar Ragnarsson, 10.9.2016 kl. 10:21
vill bara benda á að þessi þjóðverji er að fara með rangt mál ég bauð honum í þessa leit á sýnum tíma og er hann búinn að eigna sér allann heiðurinn af minni vinnu það er ekki búið að finna skipið það er ekki enn búið að fá það staðfest að þarna sé um flak að ræða og það er ekki búið að bera kensl á það... þessi maður er að vanvirða minningu allra þeirra sem fórust með þessu skipi með því að vera með svona yfirlýsingar
Gunnar A Birgisson (IP-tala skráð) 10.9.2016 kl. 12:31
Það er mér lítt skiljanlegt hvernig áhugi Tómasar Weyer á skipsflakinu geti verið vanvirðing minninga þeirra sem fórust. Þetta eru leiðinlegar öfgar, ef ekki tilfinningaklám.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.9.2016 kl. 13:41
Voðalegt vesen er þetta á þér, Ómar!
Fyrst gufar upp fundurinn Þorgerðar og síðan
Goðafoss sem aldrei hefur fundist nokkur tætla af.
Er ekki kominn tími á Hagkaup og Hagan Dazs?
(nei, ég er ekki hluthafi)
Húsari. (IP-tala skráð) 10.9.2016 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.