13.9.2016 | 09:31
Jónas frá Hriflu og Hermann Jónasson uppá nýtt.
Jónas Jónsson frá Hriflu var um margt yfirburðamaður í íslenskum stjórnmálum á árunum 1915-1940, lúsiðinn og afar snjall í að beita pennanum, það er, að skrifa bækur og blaðagreinar, en það var áhrifamesti farvegur sem stjórnmálamenn gátu notað til að hafa áhrif.
Jónas lagði öðrum fremur grunninn að fjórflokknum með stofnun Framsóknarflokks og Alþýðuflokks 1916, og margir velja hann, þegar talað er um stjórnmálamann síðustu aldar.
Hannn var drifkrafturinn í því þegar vinstri stjórn hratt hægri stjórn frá völdum 1927-1939 og listinn er glæsilegur yfir þau verk og framkvæmdir, sem voru hugssjónir hans, og hrundið var í framkvæmd eða byrjað á, svo sem Landsspítali, Sundhöll, Ríkisútvarp, héraðsskólar, Ljósafossvirkjun og Þjóðleikhús.
En Jónas var aldrei forsætisráðherra og sat aðeins í einni ríkisstjórn frá 1927-31. 1939 sýndi hann mikla framsýni, sá fyrir að Íslendingar yrðu að staðsetja sig undir verndarvæng "Engilsaxa", þ.e. Bandaríkjamenn og Breta, og vann að því á bak við tjöldin að þjóðstjórn var mynduð 1939.
Persónulegir skapgerðargallar ollu því, að Jónas gat ekki verið í ráðherraembætti eftir 1931, þannig að á formannsárum hans, sem enduðu 1944, voru hjartakóngar Framsóknar tveir, Jónas og Hermann Jónasson, sem var forsætisráðherra 1934-42.
Jónas var ekki orðinn sextugur þegar hann varð að víkja úr stóli formanns Framsóknarflokksins 1944 og verða þar með áhrifalaus, þótt hann sæti á þingi til 1949 og skrifaði og gæfi út blaðið Ófeig nokkru lengur.
Frá 1934 og í þrjá áratugi eftir það, var Hermann Jónasson hjartakóngur Framsóknarflokksins.
Nú hafa tveir fyrrverandi formenn flokksins, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson, stigið fram og lýst því að það sé ekki fekar mögulegt nú en fyrir átta áratugum að hafa tvo hjartakónga í spilum Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson lýsir því sem flestir sjá, að það er svo sláandi munur á stjórnunarhæfileikum og mannlegum samskiptumm Sigurðar Inga Jóhannssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að því fyrr sem hinn síðarnefndi dregur sig í hlé frá stjórn flokksins, því betra fyrir flokkinn.
Bæði Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson hættu sem formenn á sínum tíma eftir stutta setu í formannsstóli og ætti því að vita hvað þeir eru að tala um.
Fyrir Framsóknarmenn er nú höfuðnauðsyn að átta sig á því að það er aðeins rúm fyrir einn hjartakóng í flokknum þegar gengið verður næst til kosninga.
Sigmundur Davíð víki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki í fyrsta skipti sem þú líkir Sigmundi Davíð við Jónas frá Hriflu. Það er ekki við hæfi. Jónas var Þingeyingur, sterk greindur, mjög vel ritfær og með góða menntun. Ekkert af þessu prýðir Sigmund Davíð. Svo nær ómenntaður, því slakur námsmaður, meðal greind, hinsvegar vellauðugur Tortóla braskari.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.9.2016 kl. 09:58
Ekki í fyrsta skipti sem krati kemur út úr skápnum sem framsóknarmaður, hámenntaður og svo langt yfir aðra hafinn.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.9.2016 kl. 11:54
Þetta er tæknilegur samanburður ef svo má að orði komast. Það flögrar ekki að mér að í lok þessarar aldar muni nafn Sigmundar Davíðs verða nefnt sem stjórnmálamanns 21. aldar.
Ég er aðeins að tala um það mjög svo tímabundna og vonandi skammlífs ástands í Framsóknarflokknum núna að þar séu tveir hjartakóngar.
Ég sé á miðlum að sumir aðdáendur Sigmundar mega vart vatni halda af hrifningu yfir því sem hann sagði um alþjóðleg fjármálaöfl á miðstjórnarfundinum.
En Jón Baldvin Hannibalsson hefur lýst því fyrirbæri best allra Íslendinga fram að þessu og einnig lýst því auðræði, sem ríkisstjórnir heims glúpna fyrir.
Ómar Ragnarsson, 13.9.2016 kl. 12:26
Ath. "...skammlífs..." á að vera "...skammlífa...".
Ómar Ragnarsson, 13.9.2016 kl. 12:30
Er Sigmundur Davíð nokkuð hjartakóngur - er hann ekki frekar svona laufagosi?
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 13.9.2016 kl. 13:05
Draumórar úr Framsóknarfjósinu:
Framsókn mun valkvíði kvelja,
kynbótanaut skal nú velja,
frá Guðna fékk Skrauta,
sáttakossana blauta,
bara Sigmundur væri nú belja!
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2000/10/31/gudni_kyssti_skrautu_ad_stora_armoti/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/13/sigmundur_david_viki/
Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 13.9.2016 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.