20.9.2016 | 01:32
Mistökin með Mjóddina á sínum tíma.
Þegar Breiðholt og Mjódd voru skipulögð á sínum tíma var þetta svæði uppi í sveit þar sem aðeins voru komin nokkur timburhús í Blesugróf.
Ekki þarf annað en að líta á landakort, bæði nú og einnig þá, til að sjá að við Mjóddina eru stærstu krossgötur megin þjóðleiða landsins, og að þess vegna hefði þurft að hafa Mjóddina miklu stærri og láta íbúðabyggðina ekki ná eins langt niður í hana og gert var.
Þetta blasir við þegar skoðuð er stærð Skemmu-, Smára- og Lindasvæðanna í landi Kópavogs.
Raunar var mesta skipulagsslysið á sínum tíma að sameina ekki Kópavog og Reykjavík á sjötta áratug síðustu aldar þegar gott tækifæri gafst til þess.
Landamerkin eru hreinasta kraðak og samráðið svo víðs fjarri við skipulagningu hverfa, að ef fara á á milli húsa í Salahverfi og Seljahverfi, sem aðeins eru í hundrað metra fjarlægð hvort frá öðru, þarf að aka marga kílómetra.
En meirihlutar í bæjarstjórnum beggja byggðanna, íhaldið í Reykjavík og kommarnir í Kópavogi, óttuðust að falla ef bæirnir yrðu sameinaðir.
Vilja ekki bílaumboð í Mjóddina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er rétt hjá þér Ómar, það ætti að vera löngu búið að sameina alla byggðina á stórreykjavíkursvæðinu í eitt. Þetta nær því samt ekki að smábær í Evrópu. En ef það verður gert fækkar silkihúfunum umtalsvert en það má alls ekki.
Steindór Sigurðsson, 20.9.2016 kl. 02:59
Full sameining stórra sveitarfélaga eins og Rvk og Kópavogs er ekki endilega heppileg út frá rekstrarlegum forsendum. 40-80 þúsund manna sjálfstæðar einigar eru bestar, las ég einhversstaðar fyrir mörgum árum. Sameiginlegt skipulagsvald er hins vegar heppilegt og hefði átt að vera búið aðkoma því á fyrir löngu hjá öllum sveitarfélögum á stór-Reykjavíkursvæðinu. Flestum ef ekki öllum stórborgum er skipt upp í sjálfstæðar rekstrarkkommúnur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.9.2016 kl. 04:28
Þrenn gatnamót á Miklubraut eru umferðarmestu gatnamót landsins og öll með um eitt hundrað þúsund bíla á sólarhring:
Gatnamót Miklubrautar, Hringbrautar, Snorrabrautar og Bústaðavegar.
Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Gatnamót Miklubrautar, Reykjanesbrautar, Sæbrautar og Vesturlandsvegar.
Og gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru að sjálfsögðu jafn mikið austan og vestan Kringlumýrarbrautar.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:21
Gatnamót Hringbrautar, Snorrabrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar skammt frá Landspítalanum eru ein umferðarmestu gatnamót landsins með um 100 þúsund bíla á sólarhring, sem er um helmingur fólksbílaflotans hér á Íslandi, en hann var 206 þúsund bílar árið 2011.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:23
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, þar sem gert er ráð fyrir að Landspítalinn verði áfram við Hringbraut, var samþykkt fyrir nokkrum árum af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:28
Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík:
Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu 1. janúar 2014:
Reykjavík 121.230 (58,1%),
Kópavogur 32.308 (15,5%),
Hafnarfjörður 27.357 (13,1%),
Garðabær 14.180 (6,8%),
Mosfellsbær 9.075 (4,4%),
Seltjarnarnes 4.381 (2,1%).
Samtals 208.531.
Sunnan Reykjavíkur og Seltjarnarness (í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði) 73.845 íbúar.
Í Laugardal, Árbæ, Breiðholti, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Mosfellsbæ og á Kjalarnesi 74.970 íbúar.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi 14.519 íbúar.
Á Seltjarnarnesi, í Vesturbæ, Miðbæ, Hlíðum, Holtum, Túnum og Teigum 45.064 íbúar, 30.545 fleiri en í Háaleitis- og Bústaðahverfi.
Og póstnúmer 105 Reykjavík er að langmestu leyti í Hlíðum, Holtum og Túnum vestan Kringlumýrarbrautar.
Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er því vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, nálægt Klambratúni (Miklatúni) og því skammt frá Landspítalanum.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:32
Ómar Ragnarsson 2.4.2015:
"Á sínum tíma hefði verið skárra að reisa sjúkrahúsið í Fossvogi meðan enn var þar nægt landrými og aðeins einn spítali kominn í stað allra húsanna, sem komin eru á Landsspítalalóðinni.
En nú er orðið of seint að reyna að gera þetta í Fossvoginum.
Við innanverðan Grafarvog er stórt autt svæði við Keldur. Sömuleiðis hjá Vífilsstaðaspítala."
Ómari Ragnarssyni finnst sem sagt allt í lagi að Landspítalinn sé langt frá miðju íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu en flugvöllur fyrir höfuðborgarsvæðið megi engan veginn vera það.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:35
Sumir hafa misst vatnið á fæðingardeild Framsóknarflokksins út af því að flugvöllur verði ekki skammt frá Landspítalanum við Hringbraut.
En sumum, til að mynda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Ómari Ragnarssyni, finnst hins vegar allt í lagi að færa Landspítalann frá flugvellinum á Vatnsmýrarsvæðinu á annan stað á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008 var hægt að reisa nýtt og stórt sjúkrahús á Landspítalalóðinni við Hringbraut og lóðin hefur ekki minnkað eftir Hrunið.
Þorsteinn Briem, 20.9.2016 kl. 05:36
Mig minnir að hafa séð einhversstaðar að kommarnir í Kópavogi hafi viljað sameinast Reykjavík en íhaldið þar barist á móti því með kjafti og klóm.
Í dag er Kópavogur hins vegar orðinn það stór að sameining við Reykjavík er ekki málið; frekar að auka samvinnu sveitarfélaganna á svæðinu með einhverjum ráðum
ls (IP-tala skráð) 20.9.2016 kl. 08:16
Ég kaupi það ekki að það sé einhver fullkomin stærð á íbúafjölda í bæ eða borg. Það er alltaf hægt að hafa hverfisráð sem íbúarnir sjá um sjálfir og hafa fulltrúa í borgarstjórn.
Í mínum huga ætti að sameina allt höfuðborgarsvæðið og hætta þessari vitleysu. (Alveg óháð því hvort fólk sé íhaldsamt, hippar eða kommar, jafnvel allt þar á milli.)
Ég er sammála skilgreiningunni hans Ómars á Mjóddinni.
Sumarliði Einar Daðason, 20.9.2016 kl. 12:57
Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu er alls ekki vestan við Kringlumýrarbraut.
Fyrir vestan hana búa um 40 þúsund manns, en meira en 160 þúsund austan hennar.
Ómar Ragnarsson, 20.9.2016 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.