21.9.2016 | 23:16
Valgerður og túrbínutrixið lifandi komin.
Fyrir rúmlega áratug þegar Valgerður Sverrisdóttir var iðnaðarráðherra sagði hún að eðli friðlýsinga væri á þann veg, að hvenær sem stjórnvöld teldu það nauðsynlegt gætu þau að sjálfsögðu numið þær úr gildi.
Enda var það gert þegar friðlýsingu Kringilsárrana var aflétt svo að hægt væri að sökkva fjórðungi hans undir aðal miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, en það var gert á vegum Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra.
Andi þeirra tveggja svífur yfir vötnum þessa dagana, þegar setja á sérstök lög eins og ekkert sé til þess að upphefja álit Skipulagsstofnunar og sérstakrar úrskurðarnefdnar um raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og Bakka og brjóta líka í leiðinni ákvæði Árósasáttmálans.
Það þýðir einfaldlega að öll lög sem gilda um óafturkræf náttúruspjöll og umhverfismál yfirleitt verða ekki pappírsins virði þegar stjórnvöld vilja beita valdi sínu og reyna að breiða yfir eigið klúður í máli eins og þetta línulagningar mál er.
Það hefur legið fyrir í mörg ár, að mikil andstaða hefur verið við það hjá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum að láta leggja risalínur fyrir tíu sinnum stærra álver en kísilverið á Bakka verður, og þverskallast við öllum ábendingum og óskum um að breyta legu línanna svo að þær verði ekki lagðar yfir hraun þar sem þau eru allra merkilegust og viðkvæmust og línuleiðin veldur langmestum óafturkræfum spjöllum.
Það hefur allan þennan tíma verið vel hægt að leggja minni línu skaplegri leið, þótt hún yrði lengri en línurnar sem ætlunin er að vaða með yfir hvað sem fyrir verður án minnsta tillits til umhverfisáhrifa.
Ef stjórnvöld eiga nú að komast upp með að keyra þau ólög í gegn sem stefnt er að og láta það "túrbínutrix" virka, (keyptar túrbínur í stórvirkjun án þess að málið hefði verið leitt til lykta), sem mistókst 1970, hefur engin framför orðið á þessum 46 árum, heldur afturför þar sem offorsi í framkvæmdum er beitt til að vaða yfir allt og alla.
Gróft brot á mannréttindum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvaða virkjun
Ef stjórnvöld eiga nú að komast upp með að keyra þau ólög í gegn sem stefnt er að og láta það "túrbínutrix" virka, (keyptar túrbínur í stórvirkjun án þess að málið hefði verið leitt til lykta), sem mistókst 1970, hefur engin framför orðið á þessum 46 árum, heldur afturför þar sem offorsi í framkvæmdum er beitt til að vaða yfir allt og alla.
m (IP-tala skráð) 22.9.2016 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.