12.10.2016 | 23:08
Stjórn Steingríms var ekki óstöðug 1988-91.
Það er rétt að að öðru jöfnu sé margra flokka stjórn óstöðugri en tveggja flokka stjórn. En það er ekki algilt. Frá því að stjórn Steingríms Hermannssonar var myndið haustið 1988 sat hún tryggilega til enda kjörtímabilsins 1991.
Þarna réði meira stjórnmálaleg samskiptasnilld Steingríms en aðrar aðstæður, því að í byrjun hékk stjórnarmeirihlutinn á einu atkvæði þótt fjögur framboð stæðu að stjórninni.
Síðar orðaði hann það svo að löngum stundum hefði jafn mikill tími farið í það hjá honum að semja við Stefán Valgeirsson einan en alla aðra til samans.
Eftir að Steingrímur gat kippt hluta Borgaraflokksins inn í stjórnina stóð hún föstum fótum til enda kjörtímabilsins.
Það er heldur ekki rétt að forseti Íslands hefði aldrei haft áhrif við stjórnarmyndun, því að Ásgeir Ásgeirsson átti drjúgan þátt í myndun minnihlutastjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í desember 1958.
Eftir kosningarnar 1974 var Ólafur Jóhannesson með stjórnarmyndunarumboðið og leiddi stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn.
Þær enduðu hins vegar með því að Geir Hallgrímsson varð forsætisráðherra og var sagt í hálfkæringi að Óli Jó hefði myndað stjórnina fyrir hann.
Steingrímur Hermannsson varð forsætisráðherra í ríkisstjórninni 1983 þótt Framsóknarflokkurinn væri snöggt um minni en samstarfsflokkurinn.
Það lítill munur var á fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013 að það var engin goðgá að formaður Framsóknarflokksins fengi umboðið eftir fágæta fylgisaukningu hans.
Hins vegar má spyrja þeirrar spurningar hvort staðan væri önnur nú ef Bjarni Benediktsson hefði orðið forsætisráðherra.
Hann var límið sem hélt núverandi stjórn saman og óvíst er að uppljóstranirnar úr Panamaskjölunum hefðu haft sömu áhrif og þau höfðu ef Sigmundur Davíð hefði til dæmis verið fjármálaráðherra.
Forsetinn myndar ekki stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.