17.10.2016 | 08:03
Allt á sömu bókina lært.
Þótt fádæma uppgrip séu í þjóðfélaginu vegna dæmalausrar fjölgunar ferðamanna og hálfgerðs sprengiástands í ferðaþjónustunni eru lappirnar dregnar áfram hvað varðar innviði, stjórnun og þjónustu, sem nauðsynleg er til að forða því að í algert óefni stefni varðandi áföll og jafnvel hrun vegna þess að okkur hefnist fyrir það sambland af græðgi og nísku sem ræður ríkjum.
Það er ekki eitt heldur allt og hættuleg vanræksla lögreglu er ekki eina ástæðan.
Lítið dæmi var nefnt hér á síðunni fyrir viku:
Þótt verið hafi samfellt sumarblíða á landinu í meira en mánuð nú í haust, og veðurfræðingur í sjónvarpinu talað um júní- eða júlíveður í október, og þrátt fyrir að talað sé um nauðsyn þess að lengja ferðamannatímann og dreifa ferðamannastraumnum, hafa tvær hálendisleiðir, sem hafa verið greiðfærari allan þennan tíma en nokkru sinni fyrr á þessu ári, verið lokaðar.
Á skiltum er því logið til að þær séu ófærar, en hin raunverulega ástæða er, að það er ekki til fjármagn til að halda uppi svo miklu sem einum manni á hvorri leið sem landverði.
Eru þó tveir aðilar, sem þar ættu, ef allt væri með felldu, að geta lagt eitthvað til; - Vegagerðin og Vatnajökulsþjóðgarður.
Þetta er grafalvarleg staða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.