26.10.2016 | 08:44
Dæmi um gullgrafarahugsunarháttinn.
Eftir að búið var að tala niður alla aðra möguleika til "atvinnuuppbyggingar" hér á landi aðra en stóriðju fyrsta áratug þessarar aldar, og það nefnt "eitthvað annað" í háðungarskyni, tók Eyjafjallajökull sig til og gaus með þeim afleiðingum að það truflaði samgöngur um allan heim.
Þá virtist endanlega úti um Ísland og orðstír landsins að fljótfærnislegum dómi margra.
En þvert á móti reyndist þetta eldgos upphafið að eins konar gullæði fyrir landann í formi flóðs af erlendum ferðamönnum í krafti þess, að loksins fékk Ísland þá kynningu sem "land like no other" eins og stendur í vandaðri mynskreyttri fræðibók um 100 stór undur veraldar.
Bílaleigujeppinn svonefndi í Mývatnssveit, sem kannski ætti frekar að kalla bílapartajeppa, er eitt fjölmargra dæma um gullgrafarahugsunarháttinn sem hefur gripið svo marga í ferðamannaflóðinu.
Annað dæmi um hann einmitt þessa dagana er það ófremdarástand, sem myndast hefur á þeim fjölmörgu stöðum í Reykjavík, þar sem hvers kyns hótel og gististaðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur án þess að hugað hafi verið að nauðsynlegu aðgengi eða aðstöðu til að koma ferðamönnunum til og frá gististaðnum.
Á fróðlegum fundi um umferðarmál, sem ég sat í gærkvöldi, kom meðal annars fram að á næsta aldarfjórðungi muni íbúum Reykjavíkur fjölga um 70 þúsund.
Ég greindi fundarmönnum frá persónulegum ráðstöfunum mínum til að minnka bensíneyðslu og útblástur vegna ferða minna í borginni og út um allt land um 70% nú þegar.
Einnig hefur það rými, sem hjólin mín, rafreiðhjól og bensínknúið vespuhjól, taka í gatna- og vegakerfinu, minnkað um 80%.
Ég minntist líka á það hvernig austrænar þjóðir, svo sem Japanir og Tævanir, hafa gert ráðstafanir, Japanir um áratuga skeið, en Tævanir nú nýlega, til þess að minnka umfang og sóun vegna samgöngutækja sinna.
Þetta virtist koma fundarmönnum mjög spánskt fyrir sjónir.
Ekki skráður sem bílaleigubíll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eins og áður "gleymir" þú að nefna hér það sem langmestu máli skiptir í þessu samhengi, sívaxandi ferðamennsku um allan heim og alltof hátt gengi íslensku krónunnar fyrir hrunið hér á Íslandi haustið 2008, Ómar Ragnarsson.
Hins vegar fjölgaði gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 einnig erlendum ferðamönnum hér á Íslandi.
Steini Briem, 23.7.2016
Þorsteinn Briem, 26.10.2016 kl. 17:58
Ferðaþjónustan hefur vaxið mikið hér á Íslandi undanfarin ár meðal annars vegna þess að gengi íslensku krónunnar var alltof hátt og ekki innistæða fyrir þessu háa gengi.
23.3.2015:
"Árið 2001 spáði Vilhjálmur Bjarnason þingmaður og þáverandi sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun því að hingað til lands myndi koma um ein milljón ferðamanna árið 2016 ... en talan fékkst meðal annars með því að framreikna þá fjölgun sem varð á ferðamönnum milli áranna 1990 og 2000."
Spáin reyndist nærri lagi
Steini Briem, 23.7.2016
Þorsteinn Briem, 26.10.2016 kl. 18:00
Sigurjón Pálsson. Hvernig ætlarðu að koma í veg fyrir að allir þessir ferðamenn streymi til landsins? Við getum ekki bannað fólki að koma hingað, til dæmis Kínverjum. Þeir eru um 1,3 milljarðar, þannig að ef 1% þeirra kæmi hingað eru það um 13 milljónir manna. Í Kína er ört vaxandi velmegun og Kínverjar ferðast sífellt meira.
Hvað ætlarðu að gera í því máli? Standa með skilti í Leifsstöð: Vinsamlegast komið ekki inn í landið. Ég vil ekki verða náttúrulaus. Sífellt fleiri ferðamenn munu koma til landsins, hvort sem þér líkar það betur eða verr. Og að sjálfsögðu ferðast þeir um allt landið. Flestir þeirra stoppa stutt við í Reykjavík, 1-2 daga,, en ferðast svo í viku um landið, samkvæmt könnunum.
Um hálf milljón erlendra ferðamanna kom til landsins í fyrra og árið 2007 eyddu þeir hér alls um fimmtíu milljörðum króna, um 100 þúsund krónum hver. Eftir fall íslensku krónunnar í fyrrahaust eyddu þeir hins vegar um 200 þúsund krónum hver. Krónan féll um 80% gagnvart Bandaríkjadal og þar að auki keypti hver og einn ferðamaður meiri vörur og þjónustu hér en áður.
Því má gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn eyði hér alls um 100 milljörðum króna í ár um allt landið og þeir koma hingað allt árið. Um 123 þúsund erlendir ferðamenn komu í Leifsstöð síðustu fjóra mánuðina í fyrra, um 31 þúsund á mánuði að meðaltali, en í fyrra komu hingað um 42 þúsund ferðamenn á mánuði að meðaltali.
Þar að auki komu hingað í fyrra um sjötíu þúsund ferðamenn með um 80 skemmtiferðaskipum sem geta lagst að bryggju í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Húsavík. Alls komu því hingað um 570 þúsund erlendir ferðamenn í fyrra og þeim hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði miðað við sömu mánuði árið 2007.
Og þúsundir manna um allt landið hafa hér atvinnu af ferðaþjónustu allt árið, til dæmis starfsfólk hótela, veitingastaða, ferðaskrifstofa og flugvalla, ferðaþjónustubændur, flugmenn, flugfreyjur, leigu- og rútubílstjórar, miklu fleira fólk en vinnur hér í álverum, sem eru þar að auki einungis á örfáum stöðum á landinu. Í fyrra fækkaði íbúum á Austurlandi í sjö sveitarfélögum af níu, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði.
Raflínur og heljarinnar raflínustaurar úti um allar koppagrundir eru heldur ekkert augnayndi, þannig að virkjanir eru engan veginn "afmörkuð atvinnustarfsemi".
Og að sjálfsögðu munu bílar ekki ganga hér alltaf fyrir bensíni. Þeir munu ganga fyrir rafmagni og verða hlaðnir með ódýru húsarafmagni á nóttunum, þannig að ekki þarf að reisa hér virkjanir vegna þess.
Steini Briem, 18.2.2009
Þorsteinn Briem, 26.10.2016 kl. 18:01
Sigurjón Pálsson. Við Íslendingar eigum sjálfir rétt á að ferðast um okkar eigið land án þess að sjá raflínur og raflínustaura úti um allar koppagrundir. Og enda þótt einungis þriðjungur Íslendinga hefði áhuga á því, þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra sjónarmiða í málinu.
Lýðræði snýst ekki bara um að meirihlutinn, til dæmis 51%, ráði í öllum málum án þess að taka nokkurt tillit til minnihlutans eða ófæddra einstaklinga.
Mun fleiri hafa hér atvinnu af ferðaþjónustu en stóriðju og störfum við ferðaþjónustu fjölgar hér mikið á hverju ári. Hins vegar væri ekki hægt að fjölga hér endalaust störfum í stóriðju, auk þess sem hvert starf í stóriðju kostar íslenska ríkið miklar fjárhæðir, sem það þarf að taka að láni í útlöndum. Landsvirkjun þarf að greiða árlega 30-40 milljarða króna í vexti af erlendum lánum, auk afborgana.
Þar að auki hefur fólk í öllum sjávarþorpum landsins tekjur af ferðamennsku og sjávarútvegi en þannig er það engan veginn í stóriðjunni. Tekjur okkar af rafmagnssölu til álvera minnkuðu um meira en helming í Bandaríkjadölum fyrir hverja kílóvattstund síðasta misseri vegna verðhruns á áli, á sama tíma og tekjur okkar af sölu sjávarafurða drógust einungis saman um 5-10% í dollurum talið.
Og nú eyða erlendir ferðamenn hér meiru hver og einn í erlendri mynt en þeir gerðu árið 2007 vegna gengisfalls krónunnar.
Ég hef engra beinna hagsmuna að gæta í málinu og get því litið hlutlaust á það. Einnig hrefnuveiðar. Þær skila engu í þjóðarbúið, því hrefnukjöt kemur einungis í stað kjöts frá íslenskum bændum, sem starfa þar að auki allt árið. Hrefnuveiðar voru stundaðar hér í fyrrasumar af litlum bát frá Kópavogi og kjötið var unnið af fyrirtæki í Reykjavík.
Og íslenskir bændur flytja út mikið af landbúnaðarafurðum, því hálf milljón erlendra ferðamanna kaupir hér íslensk matvæli í stórum stíl í verslunum og veitingahúsum, auk þess að ryksjúga hér upp íslenskar lopapeysur.
Steini Briem, 18.2.2009
Þorsteinn Briem, 26.10.2016 kl. 18:02
Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi um allan heim síðastliðna áratugi.
Þróun alþjóðlegrar ferðaþjónustu frá árinu 1980 - Línurit bls. 7
Þorsteinn Briem, 26.10.2016 kl. 18:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.