31.10.2016 | 01:12
Eitruðu peðin hjá Framsókn, Sigmundur Davíð og Jónas frá Hriflu.
Athyglisvert er hve fáir ræða þann möguleika að Framsókn gæti orðið með í stjórn ásamt öðrum miðjuflokki, Viðreisn eða í miðju-vinstri stjórn án Sjálfstæðisflokksins.
Af því að Framsókn skilgreinir sig sem miðjuflokk ætti það að vera óskastaða þegar mynda þarf margra flokka stjórn.
Tvisvar í dag hefur í umræðum forystumanna flokkanna verið tæpt á vandanum varðandi Framsókn, það "eitraða peð" sem felst í nokkuð sterkri stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hann ávann sé með því að skrópa á þingi og hamast í kjördæmi sínum fyrir kosningarnar, svo að þar er staðan ekkert lakari en í Suðurkjördæmi hjá Sigurði Inga Jóhannssyni.
Einn af forystumönnum flokkanna minntist á það í dag að Sigmundur Davíð væri vís til að krefjast ráðherraembættis ef Framsókn yrði með í stjórn.
Sigurður Ingi minntist á þetta lauslega í dag í viðtali, þar sem hann sagði, að það ætti eftir að "græða sárin" innan flokksins og fylkja honum einhuga á ný.
Af þessu má ráða, að á meðan Framsókn er í núverandi ástandi, lítist öðrum flokkum ekkert vel á að vera með Framsókn í stjórn nema þá að SDG verði ekki ráðherra.
Það er til fordæmi fyrir svona ástandi í Framsókn. Flokkurinn myndaði þrjár ríkisstjórnir á árunum 1932 til 1946, og í öll skiptin var það ómögulegt að dómi samstarfsflokkanna, nema að Jónas Jónsson frá Hriflu væri utan stjórnar.
Og þannig var það, jafnvel þótt Jónas væri formaður flokksins 1934-46 og af mörgum talinn stjórnmálamaður síðustu aldar.
Útilokar eingöngu Pírata | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held að það sé mikið til í þessari greiningu á vanda Framsóknarflokksins um þessar mundir.
Wilhelm Emilsson, 31.10.2016 kl. 03:39
Hossir þú heimskum gikki
hann gengur lagið á
og ótal asnastykki
af honum muntu fá.
Gröndal.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 31.10.2016 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.