1.11.2016 | 14:10
Er hluti af "elítunni" að gefa fordæmi fyrir kjör sín?
Gunnar Helgi Kristinsson sagði í viðtali við DV fyrir þremur árum eða svo, að aðeins "elítan" ætti að fá að skrifa nýja stjórnarskrá en alls ekki þjóðkjörið stjórnlagaþing/stjórnalagaráð.
Hann skilgreindi "elítuna" sem helstu fræðimenn í háskólasamfélaginu, svo sem hann sjálfan, og æðstu embættismenn þjóðarinnar auk Alþingis, sem hefði löggjafarvaldið.
Þetta er athyglisvert sjónarmið í ljósi 165 ára sögu viðleitninngar til að Íslendingar semji sjálfir nýja og íslenska stjórnarskrá.
Samkvæmt skilningi Gunnars Helga hefði alls ekki átt að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings (Þjóðfundar) til þess árið 1851 með Jón Sigurðsson innanborðs.
Þótt Alþingismenn væru kjörgengir til Þjóðfundarins voru margir aðrir kjörnir til setu þar.
Þetta leiðir hugann að því hvernig Kjararáð er skipað. Sá grunur læðist að manni að þar séu menn í elítunni að ákveða kjör fyrir elítuna og þar með fordæmi fyrir sjálfa sig að einhverju leyti, en það er lítið skárra en að Alþingismenn sjálfir ákveði um kjör sín.
Ef þeir hópar, sem heyra undir Kjararáð, dragast aftur úr í launum á þann hátt, að það þurfi að hífa þá upp ítrekað með slíkum látum, sem nú eru viðhöfð, þarf að finna einhverja aðra leið til þess að sinna því verkefni að ákveða laun "elítunnar".
Að vísu er versta leiðin sú að Alþingi ákveði þetta sjálft en blautar tuskur framan í almenning um leið og búið er að loka kjörstöðum er augljóslega ekki rétta aðferðin.
Þetta er algjörlega óásættanlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það þarf engan að gruna að þannig gæti málum verið háttað. Tengsl þessa fólks við "ELÍTUNA" eru borðleggjandi. Ef þú klórar mér mun ég klóra þér.
Ragna Birgisdóttir, 1.11.2016 kl. 14:46
Mörgum varð nú brátt í brók,
bitling að sér skara,
ennþá drekkur Ómar kók,
ekki kann að spara.
Þorsteinn Briem, 1.11.2016 kl. 19:54
Ég aldrei drekk kaffi, stunda´aldrei neitt svall
set aldrei neitt dýrt í töskuna,
en tek í Bónusi´á tvöhundruð kall
tveggja lítra flöskuna.
Ómar Ragnarsson, 1.11.2016 kl. 21:13
Þið eruð snillingar báðir tveir
Ragna Birgisdóttir, 1.11.2016 kl. 21:49
Á ekki í leiðinni að lækka laun allra verkalýðsforingja úr 1,5 til 2 milljónum króna í kr. 760.000 á mánuði. Þeir þurfa valla meira en alþingismenn?
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 2.11.2016 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.