7.11.2016 | 11:08
"Fótur fyrir því" að 817 hafi verið hvattir.
Jónas Jónsson frá Hriflu, hugsanlega stjórnmálamaður síðustu aldar á Íslandi, var stórbrotinn en líka umdeildur formaður Framsóknarflokksins 1934-1944. Séra Emil Björnsson fréttastjóri Sjónvarpsins 1965-1985 var þingritari á tímabili og fréttamaður útvarps í framhaldi af því.
Hann sagði okkur fréttamönnunum eitt sinn frá því að hann hefði orðið vitni að því á fundi Framsóknarmanna á Laugarvatni í formannstíð Jónasar, að hann hefði staðið í rjóðri í skóginum fyrir ofan skólann ásamt þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni og talað yfir hausamótunum á þeim eins og kennari við nemendur sína.
Jónas var alla tíð eins og eitrað peð fyrir Framsóknarflokkinn í stjórnarmyndunarviðræðum.
Aðrir flokkar tóku það ekki í mál að samþykkja að hann yrði ráðherra og Jónas og flokkurinn urðu að lúta því við stjórnarmyndanirnar 1934 og 1939.
Krafa um ráðherradóm Jónasar af hálfu flokksmanna hans var samt aldrei rædd opinberlega á þessum tíma svo mér sé kunnugt, enda var fjölmiðlaumhverfið allt annað og lokaðra þá en nú.
Á endanum var Jónas síðan felldur úr formannsstóli 1944 og það er kaldhæðni örlaganna, að hann lenti í svipuðu og Sigmundur Davíð nú í kjördæmi sama landshluta í kosningunum 1946, að vera kosinn þar eftir sem áður rétt eins og Sigmundur 70 árum seinna, en orðinn utangátta í flokknum.
Á tíma Jónasar voru hann og flestir þingmenn kosnir í einmenningskjördæmum og því ekki um að -ræða að strika hann út í kosningum. En sérkennilegt er að sjá nú sagt að "fótur sé fyrir því" að hvatt hafi verið til útstrikana þegar haft er í huga umfang útstrikananna, 817 kjósenda.
Þessi fjöldi er einfaldlega of mikill til að gefið sé í skyn að útstrikendur hafi verið viljalaus verkfæri ofsækjenda SDG.
En klárum söguna af Hriflu-Jónasi. Í næstu kosningum á eftir, 1949, hætti hann á þingi, var orðinn utangarðsmaður í íslenskum stjórnmálum en gaf út eigið blað, Ófeig, sem mér fannst fróðlegt að lesa, enda Jónas á undan sinni samtíð strax í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar varðandi greiningu og skiling á stöðu Íslands í utanríkismálum.
Krefjast sætis fyrir Sigmund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er mér ofar skilningi hversvegna þú heldur áfram að nefna Jónas Jónsson frá Hriflu í sambandi við feril SDG. Mér vitanlega eiga þeir fátt sameiganlegt nema að báðir gengdu forustu Framsóknarflokksins um tímabil.
Agla, 7.11.2016 kl. 15:55
Það er þess vegna sem ég nefni þá, báðir formenn Framsóknarflokksins tímabundið og báðir felldir úr embætt.
Ég hef lýst þeirri skoðun minni að meta megi Jónas sem stjórnmálamann 20. aldar, en af skrifum mínum um SDG sést greinilega, að mér dytti ekki hug að halda hliðstæðu fram um hann, ekki einu sinni varðandi þau tæpu 16 ár sem liðin eru af öldinni.
Ómar Ragnarsson, 7.11.2016 kl. 20:13
Sammála mati þínu á SDG. Hann minnir mig á tapsáran og athyglissjúkan leikfélaga sem greip til samsæriskenninga ef hann, eða hans lið, beið lægri hlut í boltaleikjum okkar krakkanna. Okkur reyndist vel að þegja hann í hel.
Agla, 8.11.2016 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.