Björt framtíð vill vera "stjórntæk".

Það er þekkt fyrirbæri, að nýstofnaðir flokkar sækist eftir því að komast í meirihlutasamstarf sem víðast og Björt framtíð hefur gert út á það sjónarmið að skapa nýjar samskiptaaðferðir við stjórnmálalegar úrslausnir og draga úr "skotgrafapólitík". 

Þetta hefur verið kallað gera sig "stjórntækan" með því að þjálfa flokksfólk í stjórnunarstörfum á stjórnmálasviðinu. 

Á sínum tíma náði Framfaraflokkurinn í Noregi miklum árangri með því að stunda þessa pólitík í sveitarstjórnum þess lands. 

Það að vera stjórntækkur er annað orðalag yfir það að komast til valda sem víðast, og flokknum hefur orðið býsna vel ágengt í því í þremur af fjórum stærstu kaupstöðum landsins. 

Fulltrúi flokksins í stjórnarskrárnefnd var til dæmis ákveðinn talsmaður tillagna nefndarinnar, en í því máli tók Samfylkingin, flokkurinn sem hann hafði áður verið í, afgerandi afstöðu á flokkstjórnarfundi, gegn þeirri eftirgjöf sem fólst í tillögunum. 

Þess vegna kemur afstaða Bjartrar framtíðar ekki á óvart varðandi stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, heldur er það rökrétt framhald af þeirri stefnu að verða "stjórntækur" sem víðast og sem fyrst. 

Svo er að sjá að í huga forráðamanna flokksins hafi Lækjarbrekkufundurinn ekki náð þeim tilgangi sínum, að skapa aðstöðu til að mynda meirihlutastjórn þáverandi stjórnarandstöðuflokka á þingi. 

Og úr því að Bjarni Benediktsson fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrstur og bauð upp á þriggja flokka stjórn frá hægri í stað þess möguleika að mynduð yrði fimm flokka stjórn frá vinstri, gripu formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gæsina meðan hún gafst. 

Björt framtíð var hinn eini af núverandi þingflokkum, sem á tímabili fór niður fyrir 5% múrinn í skoðanakönnunum og það virkar því áreiðanlega hvetjandi á að nýta sér það tækifæri, sem felst í því að vera innanborð í öllum stjórnarmyndunarviðræðum frá upphafi. 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á maður að trúa því að næsti forsætisráðherra verði lyginn og siðblindur Panama-pappír? Ekkert skárri en Sigmundur Davíð. Til hvers voru mótmælin, til hvers voru kosningar? Við hefðum getað sparað okkur ómakið og bara látið Sigmund Davíð tuddast áfram.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.11.2016 kl. 16:26

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er að sjálfsögðu ekki það sama að vera í sveitarstjórn og á Alþingi.

Hvert er meginmarkmið Bjartrar framtíðar og Viðreisnar á Alþingi, Ómar Ragnarsson?!

Þorsteinn Briem, 12.11.2016 kl. 16:31

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla ólíklegt að Framsóknarflokkurinn verði í næstu ríkisstjórn eða verji ríkisstjórn vantrausti sem heldur áfram viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Næsta víst að Viðreisn eða Björt framtíð eða báðir flokkarnir verði í næstu ríkisstjórn og þeir leggja báðir áherslu á aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Og að sjálfsögðu er fyrst reynt að mynda meirihlutastjórn.

Steini Briem, 2.11.2016

Þorsteinn Briem, 12.11.2016 kl. 16:35

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar segir líta út fyrir að flokkurinn sé í lykilstöðu fyrir stjórnarmyndun.

Áður en hann hélt inn á fund forseta sagðist hann aðspurður ekki útiloka neitt stjórnarsamstarf nema eitt og átti þá við að ganga inn í meirihlutasamstarf með fráfarandi ríkisstjórnarflokkum.

"Þetta var áhugavert útspil," sagði Benedikt aðspurður um þær hugmyndir Pírata að styðja minnihlutastjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Þetta væri ekki eitthvað sem flokkurinn útilokaði."

Steini Briem, 31.10.2016

Þorsteinn Briem, 12.11.2016 kl. 17:07

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vinstri grænir (10 þingmenn), Píratar (10), Björt framtíð (4) og Samfylkingin (3) hafa ekki meirihluta á Alþingi með 27 þingmenn.

Og Viðreisn með sjö þingmenn er ekki hrifin núna af fimm flokka ríkisstjórn með þessum flokkum.

En það er ekki þar með sagt að útilokað sé að sú stjórn verði mynduð og hagstætt fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð að hafa þann möguleika í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn.

Þorsteinn Briem, 12.11.2016 kl. 17:19

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek hér undir með Hauki, þetta er eiginlega ósvífið.  Held svo að með þessu gönuhlaupi Óttarrs hafi hann grafið sína eigin pólitísku gröf. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2016 kl. 17:21

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Formaður Bjartrar framtíðar er ekki eini þingmaður flokksins og ræður að sjálfsögðu ekki einu og öllu í Bjartri framtíð, sem er þar að auki ekki vinstri flokkur.

Og hvert er meginmarkmið Bjartrar framtíðar og Viðreisnar á Alþingi?!

Þorsteinn Briem, 12.11.2016 kl. 17:39

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það tjóir ekki að skammast út í Bjarta framtíð fyrir að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Viðreisn og Sjálfstæðisflokk. Vinstri stjórnin, sem reynt var að efna til fyrir kosningar, hefði einfaldlega ekki meirihluta á þingi. Takist Bjartri framtíð að koma helstu stefnumálum sínum kirfilega á dagskrá í stjórnarsamstarfi má flokkurinn vel við una.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.11.2016 kl. 22:10

10 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er undarlegur fjandi, að þeir sem hæst gala um samræðupólitík, skuli fjargviðrast út í Bjarta Framtíð. Það er ekki búið að koma saman ríkisstjórn. Viðræður standa yfir og alls óendis víst að þær beri árangur. Hvernig væri að anda með nefinu og gefa flokkum og fólki innan þeirra tóm til að kanna samstarfsvettvang? Útkoman verður aldrei slík að öllum líki, en svona virkar lýðræðið. Gott ef sem flestir gætu sætt sig við það.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.11.2016 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband