Ítrekuð ofaníát.

Ofaníát íslenskra og erlendra stjórnmálamanna eru svo mörg, að jafnast á við heil kjötfjöll. 

Strax árið 1927 tóku Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur sig saman um að mynda meirihluta á Alþingi til að verja ríkisstjórn Framsóknarflokksins vantrausti og árið 1934 mynduðu þessir flokkar ríkisstjórn saman. 

Á þessum árum barðist Alþýðuflokkurinn fyrir því að landið yrði eitt kjördæmi og vægi atkvæða alls staðar jafnt á landin, og taldi réttilega að það, að Framsóknarflokkurinn gæti einn fengið allt að meirihluta á Alþingi út á aðeins um 30% atkvæða, væri gersamlega óviðunandi misrétti. 

Enn í dag hefur jafnt vægi atkvæða ekki fengið brautargengi nema í frumvarpi stjórnlagaráðs, þar sem jafn vægi atkvæða er sett sem skilyrði, ein samt heimilt að skipta landinu í allt að átta kjördæmi. 

1944 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn ríkisstjórn ásamt krötum og var þar um að ræða eitthvert stærsta samanlagða ofaníát stjórnmálasögunnar, svo stórt að fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru andvígir þessari stjórnarmyndun. 

Það var engin furða, því að kratarnir reyndust tregastir til að mynda stjórnina, en Ólafur "fiffaði" í málinu, eins og hann lýsti því sjálfur, með því að gera krötum tilboð, sem þeir gátu ekki hafnað; stærsta framfararspori sögunnar í almannatryggingamálum. 

1949 hét Rannveig Þorsteinsdóttir, sem varð fyrsti Framsóknarmaðurinn til að komast á þing í Reykjavík, að "segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur". 

1950 myndaði flokkurinn hina fyrstu harðsvíruðu "helmingaskiptastjórn" með þessari sömu "fjárplógsstarsemi" og varð það faðmlag lengi í minnum haft. En Rannveig hrapaði jafn hratt niður af himni stjórnmálanna og hún hafði skotist upp.  

1956 hét Haraldur Guðmundsson alþingismaður og fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins því, að Alþýðuflokkurinn myndi aldrei fara í stjórn með "kommúnistum." 

Nokkrum vikum síðar voru kratar komnir í stjórn með kommum, Alþýðubandalaginu, og fóru síðar í stjórn með "kommúnistum" 1978 og 1988.

Eitt aðalstefnumál Allaballa allan þennan tíma var "Ísland úr NATO og herinn burt!" þegar þeir sátu í ríkisstjórnum  1956-58, 1971-74, 1978-79, 1980-83, og 1988-91, alls í fimm ríkisstjórnum í alls þrettán ár, og allan þennan tíma, frá 1956 til 1991, eða í 35 ár, sat herinn sem fastast. 

Enn eru margir gramir yfir því að Vinstri grænir skyldu samþykkja að Ísland sækti um inngöngu í ESB 2009 og til eru þeir sem telja að þátttaka Samfylkingarinnar í "Hrunstjórninni" 2007 sé eitt af því sem hafi átt þátt í fylgishruni flokksins. 

Það, sem hér er kallað "ofaníát" var í öllum tilfellum réttlætt með því, að þar væri um illskásta kostinn að ræða. 

1944 sat utanþingsstjórn og þótti Alþingismönnum það næsta óbærilegur kostur. 

1956 var staðan einfaldlega þannig að fá annað hvort áframhaldandi helmingaskiptastjórn Sjalla og Framsóknar eða vinstri stjórn, og í öllum þeim tilfellum, sem Allaballar fóru í stjórn, sáu þeir fram á það að hvort eð er gætu þeir einir ekki áorkað því að herinn færi. 

Þeir fengu að vísu inn í stjórnarsáttmálann 1956 að stefnt skyldi að brottför Varnarliðsins, en atburðirnir í Ungverjalandi og Miðausturlöndum gerðu ókleyft að fá Framsókn og krata til að fallast á það. 

1971 var líka talað um brottför varnarliðsins í áföngum, en undirskriftasöfnunin "Varið land" skaut Framsóknarmönnum og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna skelk í bringu. 

Í stjórnarsáttmálum vinstri stjórna eftir það var ekki einu sinni minnst á herinn. 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband