17.11.2016 | 11:17
Munur á de facto viðurkenningu og formlegri viðurkenningu.
Rússar háðu mannskætt stríð um miðja 19. öld vegna Krímskagans. Krímskaginn er í þeirra augum svipaður hernaðarlega séð fyrir þá og Floridaskagi er fyrir Bandaríkjamenn.
Í Seinni heimsstyrjöldinni sem Rússar kalla "Föðurlandsstríðið mikla" var lífi milljóna manna fórnað vegna þessa hernaðarlega mikilvæga skaga.
Nikita Krústjoff ofmat stöðu Sovétríkjanna gróflega þegar hann færði skagann úr Rússlandi yfir í Úkraínu 1964 á þeim forsendum að Úkraína væri kyrfilega bundin í Sovétríkin og að þetta skipti því ekki máli hernaðarlega séð.
Það er skiljanlegt að fyrrum lýðveldi eða leppríki Sovétríkjanna líkt og Pólland, Búlgaría og Eystrasaltslöndin sækist eftir því að komast undir öryggisvæng NATO og ESB.
En hernaðarlega er og verður ómögulegt fyrir Rússa að sætta sig við hugsanlegar NATO herstöðvar í Úkraínu og á Krímskaga.
Eða halda menn að Bandaríkjamenn myndu sætta sig við það að Kanada yrði aðili að efnahagslegu og hernaðarlegu bandalagi við Kínverja?
Formlega var innlimum Krímskagans brot á alþjóðalögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna, en því miður vega hernaðarlegir og efnahagslegir hagsmunir oft þyngra hjá stórþjóðum en lagalegt umhverfi.
Þá tíðkast hjá þjóðum að tala um öryggishagsmuni, sem því miður byggjast oft á tortryggni og vantrausti þjóða í millum.
Örlög griðasáttmálans við Hitler, sem gróflega var svikinn, kostaði Sovétríkin dauða 20 milljóna manna og því hafa Rússar ekki gleymt.
Æðruleysisbæn áfengissjúklinga byrjar á því að það verði að sætta sig við það sem ekki er á valdi sjúklingsins að breyta.
Það liggur í augum uppi að því verður ekki breytt að sinni að Krímskaginn verði undir rússneskri stjórn á meðan tortryggni er ríkjandi á þeim slóðum.
Til er tvenns konar stig viðurkenningar í alþjóðastjórnmálum: Formleg viðurkenning og de facto viðurkenning.
Síðarnefnda viðurkenningin felst í því að veita ekki formlega viðurkenningu en horfast í augu við ríkjandi ástand án þess að setja allt í bál og brand.
Krímskaginn verður ekki frekar tekinn af Rússum en Florida af Bandaríkjunum nema eitthvað sérstaklega breytt andrúmsloft komi til.
Fyrst verður að skapa slíkt andrúmsloft, og hljóðlát de facto viðurkenning getur verið hluti af því.
Á móti er hægt að vinna að því að Rússland viðurkenni de facto að Eystrasaltslöndin séu í NATO, enda var Krímskaginn margfalt lengur undir rússneskri stjórn en Eystrasaltslöndin undir sovéskri stjórn.
Ráðleggja Trump frá því að viðurkenna innlimun Krímskaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skynsamleg afstaða!
Góð útlegging hjá þér á Jónasi frá Hriflu í þættinum ykkar Láru.
Þú virðist skána því meir eftir því sem Samfylkingin skreppur saman, líklega fór hún þér ekki! ;-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.11.2016 kl. 17:00
"Á móti er hægt að vinna að því að Rússland viðurkenni de facto að Eystrasaltslöndin séu í NATO, ...."
Að sjálfsögðu viðurkennir Rússland að Eystrasaltslöndin séu í NATO.
Hverslags endemis bull er þetta, Ómar Ragnarsson?!
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 18:00
Allir vita að Krímskaginn er núna hluti af Rússlandi en engin þörf á að viðurkenna það opinberlega, enda samræmist þessi innlimun ekki alþjóðalögum.
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 18:08
Svíþjóð, Finnland og Írland eru í Evrópusambandinu en ekki NATO.
Og vestræn ríki taka að sjálfsögðu þátt í að verja Úkraínu, rétt eins og til að mynda Svíþjóð, enda þótt Úkraína sé hvorki í Evrópusambandinu né NATO.
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 18:20
27.9.2014:
"Fyrr um daginn tók Gunnar Bragi [Sveinsson utanríkisráðherra] þátt í ráðherrafundi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um öryggishorfur í álfunni.
Á fundinum sagði Gunnar Bragi að innlimun Krímskaga í Rússland ógni öryggi í Evrópu.
Vísaði hann til þess að Helsinki yfirlýsingin sem er grundvöllur starfsemi ÖSE feli í sér ákveðin grundvallargildi í samskiptum aðildarríkjanna, meðal annars að virða beri sjálfstæði ríkja og fullveldi landamæra þeirra og að ekki skuli beita hernaðarafli í deilumálum.
Sagði hann grundvallaratriði að öll aðildarríki ÖSE virði þessar skuldbindingar og alþjóðalög."
Utanríkisráðuneytið - Málefni Úkraínu rædd í New York
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 18:24
Ég hélt að utanríkisráðherrarnir Gunnar Bragi Sveinsson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir væru þingmenn Framsóknarflokksins en ekki Samfylkingarinnar.
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 18:48
Krímskagi, er "upphafsstaður" Rússa.
Síðan er ekkert meir um málið að segja ... allt hjal, og fullyrðingar af NATO áhangendum og fasistaskríls er gert af vankunnáttu og vanþekkingu. NATO vildi fá Krím, vegna þess hvað Rússar áttu þar ...
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 17.11.2016 kl. 19:14
Vestræn ríki hefðu ekki ráðist á löglegar herstöðvar Rússa á Krímskaganum.
Rússar brutu hins vegar alþjóðalög með því að leggja allan skagann undir sig.
Þorsteinn Briem, 17.11.2016 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.