21.11.2016 | 21:37
Ný ógn og ruddaskapur. Með rettuna í vinstri og símann í hægri.
Eftir að hafa breytt ferðavenjum sínum í að fara að mestu leiðar sinnar á tveimur hjólum, annars vegar á rafreiðhjóli og hins vegar á léttu vespu-vélhjóli eftir atvikum, tekur maður betur eftir hegðun bílstjóranna í umferðinni, því að hvort tveggja er, að maður hefur meiri tíma og betri aðstöðu á hjóli til að fylgjast með því sem er að gerast næst manni en undir stýri á bíl, og þar að auki er meiri þörf er á að hafa athyglina vakandi á hjóli en á bíl, vegna þess hve maður er gersamlega berskjaldaður og óvarinn fyrir uppátækjum bílstjóranna.
Geðþótta skyndiákvarðanir eru hættulegastar. Til dæmis þegar bílstjóri tekur fyrirvaralausa U-beygju yfir heila miðlínu á þjóðvegi svo að lögreglumaður á vélhjóli liggur eftir stórslasaður og mölbrotinn.
Með reglulegu millibili munar mjóu að slys verði.
Bílum er vippað skyndilega eldsnöggt yfir á næstu akrein við hliðina án þess að gefa stefnuljós.
Snarhægt er fyrirvaralaust á bílum án stefnuljósagjafar til þess að geta skutlað sér inn í bil á milli bíla á akreininni við hliðina.
Nýlega ætlaði ég að fara rólega eftir gangbraut yfir aðrein þar sem umferðin á gangbrautinni hafði grænt ljós á móti sér.
Ég var samhliða gangandi manni.
Þá kom bíll á mikilli ferð aðvífandi. Hann kom seinna að staðnum þar sem ferlarnnir mættust heldur við, en fór hraðar en við.
En ef hann hægði ekki ferðina var ljóst að hann myndi aka á okkur þar sem ferlar gangbrautar og aðreinar mættust ef allir héldu áfram ferð sinni.
Yfirleitt hægja bílstjórar á sér við þessar aðstæður og leyfa gangbrautarfólkinu, sem horfir á grænt umferðarljós fyrir framan sig, að halda áfram. En ekki þessi.
Við stönsuðum á síðustu stundu og útkoman var skýr: Bílstjórinn hefði ekið á okkur eins og ekkert væri ef við hefðum ekki stansað. Ekki málið. Bara rétt sisvona.
Þarna var fróðlegt að sjá hve langt sumir treysta sér að ganga í því að neyta aflsmunar.
Frænka mín ein stórslasaðist í hitteðfyrra, axlarbrotnaði illa þar sem hún hafði stansað á bíl sínum við rautt umferðarljós.
Ökumaður í bíl á eftir henni var í óða önn að senda smáskilaboð og ók á fullri ferð aftan á bíl hennar. Ári eftir slysið þurfti hún enn að láta sprauta sig vikulega og var hvergi nærri búin að ná sér þrátt fyrir samfellda sjúkraþjálfun.
Efast um að hún verði jafngóð eftir. En niðurstaðan, miðað við orsakir slyssins, var sú að tilraunin til að senda skilaboðin vó þyngra en að stansa á rauðu ljósi.
Það kemur reglulega fyrir þegar ég er á rafreiðhjólinu við hringtorg að bílstjórar komi að og eru í miðju farsímasamtali í þann mund sem þeir aka yfir gangbraut og inn í flókið hringtorgið.
Sumir ranka við sér og stoppa, en ég treysti því miður ekki slíkum bílstjórum og gef með táknmáli til kynna að meðan þeir séu í símanum muni ég ekki hreyfa mig.
Sjá má á svip eins og eins að þetta veki reiði hans.
Einn slíkur kom um daginn á drjúgri ferð að svona gatnamótum með logandi sígarettuna í vinstri hendinni og talaði í farsímann með hægri!
Farsíminn er orðinn að ógn jafnframt því að vera dásamlegt tækniafrek. Það er ekki aðeins að hann drottni yfir okkur í umferðinni, heldur höfum við gert hann að rudda, sem ryðst inn í samræður okkar andspænis lifandi fólki, þegar annar aðili samræðnanna svarar skyndilega í hringjandi símann og tekur einhvern úti í bæ fram yfir mann, já, er í raun rokinn fyrirvaralaust í fússi í burtu frá manni.
Sú afsökun er ekki gild, að kannski sé verið að hringja úr númeri í gegnum skiptiborð stórs fyrirtækis, svo að ef ekki sé svarað, sé ekki vitað hver af t.d. 400 starfsmönnum fyrirtækis sé að hringja, og þess vegna verði að svara strax. Þetta gæti verið mjög áríðandi símtal.
Þvert á móti: Sá sem hringir á þennan hátt getur ekki ætlast til þess að sá sem hringt er í, svari alltaf strax. Sá, sem hringir getur sjálfum sér um kennt ef fyrirhugaður viðmælandi getur ekki hringt til baka.
Við þurfum að búa okkur til sanngjarnar samskiptareglur og öruggar reglur um notkun farsimanna okkar.
Þessir símar eiga ekki að vera einhvers konar guðir á himnum, sem geti ruðst inn í samræður okkar augliti til auglitis við fólk og umturnað öryggi okkar í umferðinni, heldur einföld tæki til að auðvelda okkur samskipti og fjarskipti án þess að verða ógnvaldur.
79% hafa notað farsíma undir stýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.