22.11.2016 | 14:54
Guðmundur og Geirfinnur: "Ég er kominn heim!"?
Gunnar Tryggvason leigubílstjóri fannst látinn í bíl sínum 1968. Morðvopnið, skammbyssa, fannst hjá manni, sem var ákærður fyrir morð en var sýknaður. Málið telst óupplýst.
Fram til ársins 1974 fundust allir þeir, sem sannanlega voru myrtir á Íslandi, látnir, og eftir 1975 fundust hinir myrtu allir sömuleiðis.
Í einstaka tilfelli varð niðurstaða morðrannsóknar sú, að málin teljast óupplýst.
Í sumum málum töldust sakborningar ósakhæfir.
Í lista á netinu yfir morð á Íslandi vantar tvö mál, þar sem sakborningar fengu þó þyngstu refsingar sem höfðu þá verið dæmdar fyrir morð á síðari tímum hér á landi.
Þetta eru hin svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmál.
Halló, af hverju?
Það skyldi þó ekki vera vegna þess að þetta eru einu málin, þar sem vantaði lík og vantaði morðvopn eða önnur áþreifanleg sönnunargögn?
En samt þau mál, þar sem þyngstu dómarnir féllu.
Hvenær ætla menn að viðurkenna að þetta voru og eru óupplýst mannshvörf?
Tugir mannshvarfa síðustu áratugi hafa verið af ýmsum toga og í einu þeirra hvarf Íslendingur erlendis, var úrskurðaður látinn, en labbaði síðan sprelllifandi inn í gegnum Leifsstöð tólf árum síðar og úr því að hann var lifandi urðu eftirmál engin.
Málið dautt, en maðurinn ekki.
Líkt og þessi maður gerði, gætu bæði Guðmundur og Geirfinnur vel verið enn á lífi og átt það til að labba eins og ekkert sé í gegnum Leifsstöð og syngja lagið: "Eg er kominn heim!"
Það verður að renna upp sá dagur að úrskurðað verði í enduruppteknum Guðmundar- og Geirfinnsmálum: Málin teljast óupplýst.
Ný ábending frá traustum aðila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ekki dæmt fyrir morð. Guðmundar- og Geirfinnsmálið telst því ekki morðmál. Þar var dæmt fyrir ýmsa glæpi og brot en ekkert morð.
Dómstólar hafa tekið Guðmundar- og Geirfinnsmálið fyrir og telst það upplýst. Hugmyndir annarra um hvenær mál teljast upplýst hafa ekkert gildi.
Davíð12 (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 15:12
Held að þú þurfir að kynna þér Guðmundar og Geirfinnsmálið aðeins betur Davíð12 og lesa játningar fjórmenningana, en þau voru öll dæmd til langrar refsingar fyrir að hafa játað á sig morð á Guðmundi og Geirfinni, játningar sem voru fengnar með vafasömum hætti.
Það er rétt að Sævar og Erla voru ekki bara dæmd fyrir morðin, heldur voru þau líka dæmd fyrir skjalafals og fleira.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 16:08
Orðið "morð" er hvergi að finna í niðurstöðu Hæstaréttar. Dómstólar töldu játningarnar gildar. Hvað öðrum finnst skiptir ekki máli og þvingaðar játningar eru ekki endilega rangar.
Davíð12 (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 16:34
Dæmt var fyrir að þeir Guðmundur og Geirfinnur hefðu verið drepnir og dómarnir svo þungir, að slíkt gerist aðeins í morðmálum.
Það er hreinn orðhengilsháttur að segja að orðið "morð" komi ekki fyrir í dómsorðinu.
Ómar Ragnarsson, 22.11.2016 kl. 17:44
Þér má vel finnast það orðhengilsháttur, en það varst þú sem spurðir hvers vegna málið teljist ekki með morðmálum. Og ástæðan er að ekki er um morðmál að ræðs samkvæmt dóminum. Þín aðferð til flokkunar hefur ekkert gildi.
Davíð12 (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 18:12
15.10.2011:
"Vegna mikillar, og stundum villandi, umfjöllunar um svonefnt Guðmundar- og Geirfinnsmál undanfarið telur ríkissaksóknari rétt að setja á heimasíðu sína dóm Hæstaréttar í máli nr. 214/1978, þar sem lesa má bæði dóm sakadóms Reykjavíkur og Hæstaréttar í sakamálinu á hendur Erlu Bolladóttur, Guðjóni Skarphéðinssyni, Kristjáni Viðari Viðarssyni, Sævari Marinó Ciesielski, Tryggva Rúnari Leifssyni og fleirum."
Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/1978
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 18:46
"Ákærðu Kristján Viðar og Sævar Marinó eru, eru eins og áður er rakið, taldir sannir að sök um að hafa svipt tvo menn lífi, í bæði skiptin með þriðja manni ..."
"Ákærði Tryggvi Rúnar er sakfelldur fyrir að hafa ásamt meðákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó svipt einn mann lífi ..."
"Ákærði Guðjón er sakfelldur fyrir að hafa orðið manni að bana ásamt meðákærðu Kristjáni Viðari og Sævari Marinó ..."
"Ákærði Albert Klahn er sakfelldur fyrir að tálma rannsókn á því, er ákærðu sviptu Guðmund Einarsson lífi ..."
Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/1978
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:53
"Þegar komið verður fram yfir miðja þessa öld verða flestir þeirra fallnir frá sem Guðmundar- og Geirfinnsmál snertu á einhvern hátt."
Og þar með taldir Guðmundur og Geirfinnur.
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:55
Þegar engin eru líkin í þessu máli, engin sönnunargögn fyrir hendi og einungis falskar játningar er ekki um "sakamál" að ræða, "Davíð12".
Fjölmargir hafa játað á sig alls kyns sakir eftir að hafa setið mánuðum saman í fangelsi án þess að um nokkra sekt sé að ræða.
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:56
Þeir sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins eru allir saklausir, þar sem sekt þeirra hefur ekki verið sönnuð.
Og á þeim voru framin gróf mannréttindabrot.
"Rétturinn til réttlátra réttarhalda byggir á mörgu, eins og því hvernig sönnunargögnin eru kynnt, hegðun réttarmeðlima, almennings og fjölmiðla."
"Að vera álitinn saklaus þar til sekt er sönnuð.
Réttur þessi byggir á því að dómarar gæti þess að fordómar hafi ekki áhrif á úrskurð þeirra. Þetta á einnig við um aðra opinbera starfsmenn.
Í þessu felst að opinber yfirvöld, sérstaklega lögregla og saksóknarar, láti ekki í ljós skoðanir sínar á sakhæfi sakbornings fyrr en að réttarhöldum loknum.
Jafnframt felur rétturinn í sér að yfirvöldum beri skylda til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar eða valdamiklir hópar í samfélaginu hafi áhrif á framvindu málsins."
Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi - Ýmis mannréttindi
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:58
"Þegar um er að ræða sakamál er lögð rík áhersla á það sjónarmið að dómur sé byggður á réttum forsendum, þannig að saklaus maður verði ekki dæmdur fyrir brot sem hann hefur ekki framið."
"Í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skal maður, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, talinn saklaus þar til sekt hefur verið sönnuð."
Um lög og rétt. - Réttarfar, Eiríkur Tómasson, 2. útg., bls. 202-204.
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:58
"Karl Schütz kom hingað til lands fyrir nokkrum vikum að ósk ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að veita aðstoð við rannsókn Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins."
Alþýðublaðið 15.9.1976
Ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar 1974-1978
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 19:59
"Karl Schütz var að eigin sögn sérfræðingur í að "vernda æðstu ráðamenn Sambandslýðveldisins og upplýsa mál sem vörðuðu öryggi ríkisins".
Þegar hann var farinn af landi brott lýsti hann því yfir í viðtali við þýskt síðdegisblað að meðferð gæsluvarðhaldsfanganna hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni."
Hliðverðir dómsmorðs? - Greinasafn Sigurfreys
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:00
Læknablaðið, 11. tölublað 2011:
Flestir geta játað falskt - Viðtal við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing
3.10.2011:
Gísli Guðjónsson, einn fremsti réttarsálfræðingur heims, vill láta taka upp Guðmundar- og Geirfinnsmálin
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:01
Það hefur ekki verið sannað að Guðmundur og Geirfinnur séu dauðir.
Komi þeir fram á sjónarsviðið sprelllifandi segja nafnleysingjarnir að sjálfsögðu:
"Hæstaréttardómurinn stendur! Þeir sakfelldu í málinu eru því sekir!"
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:02
"Endurupptaka dómsmáls - 1. Það þegar mál er tekið til nýrrar meðferðar eftir að dæmt hefur verið í því."
Lögfræðiorðabók með skýringum, Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:04
26.2.2016:
"Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands segist lesa út úr dómi Hæstaréttar í gær að hvorki löggjafinn né endurupptökunefnd geti hreyft við gildi dóms sem hefur fallið.
Einnig að þegar endurupptökunefnd meti hvort mál skuli endurupptekið þurfi viss skilyrði að vera fyrir hendi, til dæmis að komið hafi fram ný gögn og svo framvegis.
Hæstiréttur áskilur sér alltaf endanlegt mat á því hvort slík skilyrði hafi verið fyrir hendi."
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:05
26.2.2016:
"Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands telur að endurskoða þurfi lög um endurupptökunefndina.
Hugsanlegt sé að styrkja nefndina með ýmsum hætti.
"Ein aðferðin er sú að gera endurupptökunefnd að dómstól," segir Stefán Már."
Þorsteinn Briem, 22.11.2016 kl. 20:06
Hvað verður langlífara, Guðmundar og Geirfinnsmálið eða Icesave?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 20:12
Takk fyrir fróðleikinn, Steini. Hér er hann gagnlegur.
Ómar Ragnarsson, 22.11.2016 kl. 21:10
Samkvæmt þessu er Ómar Ragnarsson ekki þessi "trausti aðili" ?
En á aðdáun skilið fyrir að þola vírusinn sem tröllríður blogginu.
Það les hann enginn annar.
Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.11.2016 kl. 21:20
Sæll Ómar.
Mannshvörf á Íslandi eru um 44 talsins.
Ég hef farið yfir flest þessara mála
mér til fróðleiks og yfirvegunar en hef
enga menntun né hæfni til slíkra hluta
en einungis lítilmótlega skoðun
mína sem ég get þó í öllum tilvikum ekki rökstutt.
Ég tel að í þriðjungi þessara mála hafi menn ýmist sviðsett
hlutina eða horfið til útlanda vegna persónulegra aðstæðna
og talið sig réttlætta í þeirri ákvörðun.
Ég hef ekki trú á því að Geirfinnur sé lífs en mér hefur hins
vegar fundist verulegar líkur á því að hann hafi farið til
útlanda. (Bandaríkjanna)
Því hef ég gert það að tillögu minni að 'freelance' menn
jafnt sem aðrir kembi allt flug á þessum tíma og ekki einungis
hér heima heldur verði allir farþegalistar tékkaðir af þar
sem því verður komið við í öðrum löndum í leiðinni og tal haft af einhverjum þeirra er þar voru á ferð.
Ekki hvað sízt þyrfti að ná til alls einkaflugs á þessum tíma
og hafa tal af þeim er þar voru á ferð.
Geirfinnur þekkti vel til á Vellinum og kann að hafa átt vini
þar sem voru tilbúnir að rétta honum hjálparhönd, - yfir hafið.
Geirfinnur er ekki kominn heim í venjulegum skilningi þess orðs
en enn eru líkur til þess að það geti orðið.
Húsari. (IP-tala skráð) 23.11.2016 kl. 13:56
Ólíklegt finnst mér að G. hafi farið úr landi eða látið sig hverfa á þann hátt, finnst mér. Það var líka eitthvað rannsakað, skilst manni. Þ.e. hvort hann hafi hugsanlega lifað tvöföldu líki o.s.frv. Engar vísbeningar komu nokkru sinni fram um slíkt.
Málið er miðað við fyrirliggjandi gögn, þá var G. einfari, þögull og talaði ekki um sín ersónulegu mál. Það var þá mjög algengt. Annað þótti veikleiki.
Það sem er svo merkilegt við Geirfinnsmálið, að hvergi í allri rannsókninni kemur fram ein einasta vísbending um að G. hafi verið viðriðinn eitthvað vafasamt. Menn reyndu og reyndu: Fóru um allt land þar sem G. hafði verið. Allsstaðar sama sagan.
G. var almennt gefin sú einun að hann væri traustur verkamaður, þögull og bæri ekki tilfinningar á torg.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.11.2016 kl. 10:39
Ps. Vegna þess er ég skrifa ofar um bakgrunn Geirfinns sem var rannsakaður og liggur fyrir í skýrslum, að hann hafði unnið víða, - hvergi nokkurntíman er nokkur sem tengir hann við eitthvað vafasamt.
Samt kemur lögga upp með það að hvarfið hljóti að tengjast spírasmygli á Suðurnesjum. (Spírasmygl var nokkuð alvarlegt afbrot í denn)
Og við það heldur lögga sig alla tíð. Spírasmygldæmið. Jafnvel þó engin vísbending finnist um slíkt.
Er alveg ótrúlegt.
Líka er ótrúlegt hve lengi það var að koma fram, að það hafði verið framhjáhald í myndinni. Kona hans var með viðhaldið á heimilinu. Þetta virðist ekkert hafa vakið mikla athygli löggu þo eitthvað hafi verið rannsakað.
Og hvernig fór svo með það, - að giftist ekki löggan svo konu G.? Mig minnir það.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.11.2016 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.