Tungumálhakkarar og bandarískir kaupahéðnar gera innrás.

Á örfáum dögum eru kaupahéðnar að breyta þróun, sem hefur mátt lýsa með orðunum "hægt og bítandi" í holskeflu. Á innan við viku er búið að koma því svo fyrir, að það er verið að umkringja neytandann með bandarísku umhverfi, þar sem hin alltumlykjandi enska tunga og amerískt þjóðlíf ræður ríkjum í þágu bandarískra kaupahéðna, sem settu sér það takmark fyrir ellefu árum, að gera heila viku í kringum hinn bandaríska "Thanksgiving day" að mestu verslunarviku ársins utan sjálfra jólanna en þó í tengslum við þau.

Bandarískt óþol eftir jólagróðanum er látið vaða yfir Íslendinga. Thanksgiving er ígildi íslenskra töðugjalda, en hér á landi voru þau að sjálfsögðu haldin hátíðleg á bilinu frá ágústlokum til miðs septembers.

Hlálegt er að töðugjöld hér á landi séu að verða að prangararhátíð í lok nóvember.  

Máttur auglýsingaflóðs í fjölmiðlum er gernýttur með því að byrja að kynda undir pranginu á miðvikudegi, sökkva heilli helgi þar á eftir í "Black Friday", og veita síðan náðarhöggið áður en komist verði aftur út á íslenskan vettvang, með því að hella yfir mann Cyber Monday með eftirköstum í formi enn eins enska dagaheitisins, sem endast fram í miðja viku, ef ekki lengur, eins og sjá má á tengdri frétt á mbl.is. 

Því varla hefur Cyber Monday fjarað út en síbyljan "Tax Free-dagar heltekur auglýsingamarkaðinn. Ofan á allt eru allir neyddir til að skrifa heiti þessara framandi daga upp á ensku með stórum stöfum þar sem það á við.

Krafan um réttritun enskunnar er orðin ríkari en að skrifa og tala sitt eigið tungumál rétt.  

Nútíma Íslendingar brosa oft út í annað ef þeir lesa þá dönskuskotnu íslensku, sem notuð var um það leyti sem erlendir menn á borð við Rasmus Rask og Watson gerðust frumkvöðlar í því að bjarga íslenskri tungu og íslenska hundinum frá útrýmingu. 

Ásókn dönskunnar komst þó aldrei það langt að dönsk dagaheiti færu að ryðja burtu íslenskum dagaheitum eins og ensk dagaheiti gera nú.

Á facebook má í dag sjá aðvörunarorð varðandi hakkara, sem ráðast á lykilorð póstfanga.

En orðalagið í þessum aðvörunarorðum sýnir, að ensk heiti á hverju einu eru að verða ígildi tungumálahakkara, sem láta ekkert í friði, hvorki tungumálið né daglegt líf. 


mbl.is Dýrari á Tax Free-dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi málfarsfasismi er farinn að þróast út í ákærur fyrir hatursorðræðu.  Ekkert broslegt við það. 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 08:55

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegt að sjá þessa athugasemd. Dagur íslenskrar tungu orðinn að Degi málfarsfasismans. 

Ómar Ragnarsson, 30.11.2016 kl. 10:10

3 identicon

Íslenska er og verður töluð alla daga, ekki bara einn dag ársins.  Hún mun þróast eins og allt annað.  Aðfinnslur um hvað sé rétt og rangt þegar fólk tjáir sig er illa dulbúin þöggunarárátta.  Nú er hún greinilega komin úr böndunum.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 11:04

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Elín hvernig heldur þú að enskumælendur tækju því er við breyttum Thanks-giving-day í Töðugjöld. Við vorum alltaf apakettir og erum ennþá. Við tókum allt frá Svíunum en ekki Normönnum kannski Dönunum og Ameríkönum.

Ómar ég man ennþá eftir töðugjöldunum í gamladaga, ummmm, þeytta rjómanum á hnallþórunum í sveitinni hér áður svo ég sletti enskunni ---in the early 50s.--- :-)  

Valdimar Samúelsson, 30.11.2016 kl. 11:20

5 identicon

Er með fyrir framan mig þakkarávarp Sigurðar Pálssonar, sem hann flutti í tilefni þess að hann hlaut verðlaun Jónas Hallgrímssonar á Degi íslenskrar tungu. Fékk það sent til Sviss frá vinum mínum ásamt ljóðabók Sigurðar: Ljóð muna rödd. “Ég get varla hugsað mér betra kompaní en Jónas”, segir Sigurður í ávarpi sínu. Svo er fólk að tala um málfarsfasisma ef reynt er að koma í veg fyrir “uppblástur” þjóðtungu Íslendinga.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 13:37

6 identicon

Mér leggst bros á vör, þegar ég heir menn tala um "Dönsku" í sambandi við daganöfn.  Því núverandi daganöfn, eru ekki "ìslensk", heldur koma frá kristni, og eru með þýsku ívafi.

Ísland og Íslendingar hafa aldrei verið annað en apakettir.

Á "réttri" Íslensku, eru dagarnir þessir ...

Mánadagur,
Týsdagur,
Oðinsdagur,
Þórsdagur,
Freysdagur,
Laugardagur,
Sunnudagur

Nöfnum á fornum Goðum, voru tekin úr tungunni ... vegna þess að ekki þótti við hæfa, fyrir kristna þjóð að hafa slíkan ófögnuð.

Danir, Norðmenn og Sviar ... héldu sínum dagaheitum og gáfu þessum kristnu vangaveltum bara fingurinn.

Og Íslandi og Íslendingum, hefði farið betur í gegnum tíðina að fylgja eftir í þeim málum.  En ekki spila heilaþvegna apaketti, með hverju "fashion show", sem upp hverju sinni.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 14:58

7 identicon

Og úr því Bjarne vill hafa dagana rétta má árétta að fyrsti dagur vikunnar var vitaskuld ekki mánadagur heldur þórsdagur. Laugardagur var miklu oftar nefndur þváttdagur. Og nú er sunnudagur fyrstur í röðinni.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 16:51

8 identicon

Og dies veneris er Friggjar- frekar en Freyjudagur. Það eru bara apakettir sem halda að hann hafi heitið Freysdagur.

Jón (IP-tala skráð) 30.11.2016 kl. 17:28

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki veit ég hvort norrænar frændþjóðir okkar hafa töðugjöld. En ef svo er, eru þau örugglega ekki í byrjun aðventu og enn síður með Cyber Monday og Tax Free dögum. 

Ómar Ragnarsson, 30.11.2016 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband