6.12.2016 | 02:33
Úrslitakostir BNA gerðu árás Japana óhjákvæmilega.
Sigurvegarar skrifa oftast söguna af styrjöldum og átökum og það hefur meðal annars verið gert varðandi árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941.
Við heimsókn forsætisráðherra Japans þangað síðar í þessum mánuði er ekki úr vegi að huga að því sem raunverulega gerðist í samskiptum Japana og Bandaríkjanna á árunum 1937 til 1941.
Í kjölfar árásarinnar á Perluhöfn hélt Roosevelt Bandaríkjaforseti fræga ræðu um "dag óhæfuverksins" ( day of infamy) og síðan þá hafa þjóðir heims almennt litið á árásina sem tilefnislaust níðingsverk og að Japanir hafi ekki haft neina ástæðu til að fara í stríð við Bandaríkin.
En þegar atburðarásin í samskiptum þjóðanna næstu mánuði á undan er skoðuð sést vel, að úrslitakostir Bandaríkjamanna í viðræðum þeirra við Japani um ástandið við Kyrrahaf og aðgerðir til að viðhalda friði ollu því að Japanir áttu aðeins um tvennt að velja, úr því sem komið var þegar staðið var frammi fyrir þessum úrslitakostum:
1. Að ganga að þeim úrslitakostum að draga innrásarlið sitt til baka frá Kína.
2. Að hafna úrslitakostunum og fá yfir sig þvílíkar viðskiptalegar refsiaðgerðir, að japanski herinn yrði eldsneytislaus eftir þrjá mánuði.
Úrslitakostirnir þýddu í raun, að ef herlið Japana yrði dregið frá Kína, hefðu Bandaríkin unnið stríðið sem þar geysaði, án þess að hleypa af einu einasta skoti.
Og ef úrslitakostunum var hafnað, gátu Japanir ekki viðhaldi vígbúnaði sínum og haldið Kínastríðinu áfram.
Einangrunarstefnan sem ríkt hafði í Bandaríkjunum síðan 1919 byggðist á því að beita ekki hervaldi utan Ameríku og á yfirborðinu litu úrslitakostir við samningaborð ekki út sem hernaðaraðgerð.
En úrslitakostirnir voru hernaðarlegir í eðli sínu, því að herforingjaklíkan, sem öllu réði í Japan á þessum tíma, hugsaði aðeins á hernaðarlegum og heimsveldislegum nótum og stefndi að því að tryggja Japönum nauðsynleg hráefni til að viðhalda hernaðarmættinum með þeim landvinningum sem þyrfti til að hafa öruggan aðgang að auðlindum Suðaustur-Asíu og setja á fót heimsveldi andspænis breska heimsveldinu.
Roosevelt spilaði með úrslitakostum sínum á Samúræja hugsunarhátt japönsku hershöfðingjanna og Bandaríkjamenn gerðu það aftur árið eftir þegar þeir drápu Yamamoto hershöfðingja, sem hafði skipulagt og látið framkvæma árásina á Perluhöfn.
Japanskur hershöfðingi gat ekki horfst í augu við þá auðmýkingu sem fólst í uppgjöf fyrir úrslitakostum. Ef hann gekk að þeim og beið með því ósigur í stórri styrjöld án þess að nýr mótherji hefði hleypt af skoti, yrði hann að fremja kviðristu eða láta fallast á sverð sitt.
Ýmsar samsæriskenningar hafa verið viðraðar varðandi það að Roosevelt hafi vitað fyrirfram af árásinni á Pearl harbour, því að erfitt sé að finna skýringu á eindæma lélegum viðbúnaði hersins hina örlagaríku daga í desemberbyrjun 1941.
Þær samsæriskenningar eru ósennilegar en hitt er líklegt að Roosevelt hafi vitað, að Japanir myndu telja sig tilneydda til að hafna úrslitakostunum og fara í stríð við Bandaríkin.
Yfirmenn hersins hafi hins vegar ekki verið viðbúnir hinni óvæntu og stórfelldu árás á Pearl Harbour, sem byggðist á því, að Japanir áttu þá einir þjóða orrustuflugvél, Mitsubishi Zero, sem var hægt að hafa á flugmóðurskipum og voru samt jafnokar bestu landflugvéla annarra hervelda.
Þær voru auk þess léttar og langfleygar og hægt að senda meira en 300 stykki um langan veg af flugmóðurskipum til árásarinnar.
Með árásinni tóku Japanir áhættu varðandi það að Kanarnir væru með flugmóðurskip í höfninni og töpuðu því spili, því ekkert flugmóðurskip var þar.
Ýmsir sagnfræðingar hafa leitt af því rök að skynsamlegra hefði verið fyrir Japani að hafna úrslitakostunum en fara út í aðrar aðgerðir til þess að tryggja yfirráð sín yfir nauðsynlegum hráefnum.
Hin "svívirðilega árás" á Pearl Harbour varð nefnilega alger vendipunktur í hugsunarhætti Bandaríkjamanna, sem snerust á augabragði úr hikandi hlutleysisþjóð í bálreiða stríðsþjóð.
Svo bálreiða, að Roosevelt fékk það fram að stríðið við Þjóðverja skyldi hafa forgang framyfir Kyrrahafsstríðið.
Að lokum er rétt að taka það skýrt fram, að ef eitthvert stríð var svívirðilegt á árunum 1937-1945 var það hin grimmdarlega árás Japana á Kína, þar sem tugir milljóna voru drepir í einhverjum mestu stríðsglæpum allra tíma.
Að því leyti áttu Japanir alla sök á styrjöldinni milli þeirra og Bandaríkjamanna.
Fyrstur til að heimsækja Pearl Harbor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð grein Ómar. Þegar ég sá þessa klausu í greinini.
2. Að hafna úrslitakostunum og fá yfir sig þvílíkar viðskiptalegar refsiaðgerðir, að japanski herinn yrði eldsneytislaus eftir þrjá mánuði
Hver seldi Japonum olíu þá... Sagan hélt áfram...Þegar nærri 900 mílna löng Alaska olíupípan var byggð sem var eitt af stærstu affrekum þessa heims þá smíðuðu Japanir pípuna/rörin.
Þegar olían byrjaði að flæða þá var henni skipað til Californíu og seld þaðan til Japan. Þetta í raun leyndarmál og móralslega var ekki hægt að sigla henni beint til Japans vegna olíuskorts í USA en verkið var sett á cost plus hraða út af ástandinu í Bandaríkjunum.
Hugsið ykkur kaldhæðni stjórnvalda og það eftir að 30 þúsund menn og konur unnu dag og nótt 7x12 frá 1969 til 1977 til að bjarga þjóðinni frá olíuskorti.
Alþjóða viðskipti eru ekki þjóðum í hag. Þeir selja Japönum ennþá olíu eftir þvi sem ég veit.Kannski breytist það með ríkisstjórn Trumps.
Valdimar Samúelsson, 6.12.2016 kl. 06:59
Bretar voru og eru óalandi og óferjandi skríll. Bandaríkjamenn og Sovétmenn unnu Síðari heimsstyrjöldina en engan veginn Tjallar.
Orrustan við Stalínbæ, nú kenndum við Volgu, blóðugasti bardagi mannkynssögunnar, var vendipunkturinn í Síðari heimsstyrjöldinni og Föðurlandsstríðinu mikla, eins og Sovétmenn kalla sinn slag á árunum 1941-1945.
Þegar Tjallarnir komu hingað vorið 1940 litu þeir út eins og hinn þýskumælandi Gísli gamli á Uppsölum, langflestir unglingar og fátækir verkamenn sem ekki áttu eina skræðu, öfugt við íslenska bændur, sem voru að kafna í bókum. Og Íslendingar gerðu fyrir Tjallana flugvöll í Vatnsmýrinni með haka og skóflu.
Gervifallbyssum, búnum til úr tré eins og Gosi spýtukall, var hlammað niður á ströndina við Ermarsund og þær málaðar til að líta út fyrir að vera ekta. Og soltið hefðu Tjallar sáru hungri, ef við hefðum ekki gefið þeim fisk að éta, bæði hérlendis og í þeirra aumu og skítköldu heimkynnum. Enda hlógu Þjóðverjar sig máttlausa að þessu volæði Tjallanna öllu.
Íslendingar kynntust ekki almennilegum verkfærum fyrr en Kaninn kom með sína Willysa, skurðgröfur og jarðýtur, sem notaðar voru til að gera flugvöll við Keflavík, en síðar tún og skurði sem nú er verið að moka ofan í.
Steini Briem, 4.12.2008
Þorsteinn Briem, 6.12.2016 kl. 07:10
Þjóðverjum og Japönum hefur vegnað vel eftir Seinni heimsstyrjöldina með miklum viðskiptum við aðrar þjóðir en ekki með því að leggja undir sig lönd þeirra.
Og það væri nú harla einkennilegt ef Vestur-Evrópuríkin, sem flest áttu aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 og Sovétríkin hrundu árið 1991, hefðu ekki átt nokkurn þátt í hruni kommúnismans í Austur-Evrópu.
Austur-Evrópubúar vissu að sjálfsögðu að efnahagsleg lífsgæði í Vestur-Evrópu, og þar með ríkjum Efnahagsbandalags Evrópu, voru mun meiri en í Austur-Evrópu.
Þeir vildu því öðlast svipuð efnahagsleg lífsgæði og íbúar Vestur-Evrópu.
Og að sjálfsögðu einnig lýðræði, þannig að þeir gætu kosið fleiri en einn stjórnmálaflokk í þingkosningum.
Hrun kommúnismans í Austur-Evrópu snerist því engan veginn fyrst og fremst um trúarbrögð.
Og Austur-Evrópuríkin vildu sjálf fá aðild að Evrópusambandinu, fyrst og fremst til að auka sín lífsgæði.
Steini Briem, 9.2.2015
Þorsteinn Briem, 6.12.2016 kl. 07:16
MATVÆLAÖRYGGI BJARTS Í SUMARHÚSUM NÚ OG ÞÁ:
Meirihlutinn af fatnaði og matvörum sem seldur er í verslunum hérlendis er erlendur.
Þar að auki eru erlend aðföng notuð í langflestar "íslenskar" vörur, þar á meðal matvörur.
Erlend aðföng í landbúnaði hérlendis eru til að mynda dráttarvélar, alls kyns aðrar búvélar, varahlutir, tilbúinn áburður, heyrúlluplast, illgresis- og skordýraeitur, kjarnfóður og olía.
"Íslensk" fiskiskip hafa langflest verið smíðuð í öðrum löndum og þau nota að sjálfsögðu einnig olíu.
Og áður en vélvæðing hófst í landbúnaði hérlendis keyptu "Bjartur í Sumarhúsum" og hans kollegar innflutta ljái, lampaolíu, áfengi, kaffi, tóbak, sykur og hveiti.
Og hvaða hráefni er notað í "íslenskar" pönnukökur?!
Kexverksmiðjan Frón notaði eitt þúsund tonn af hveiti og sykri í framleiðslu sína árið 2000 en Framsóknarflokkurinn heldur náttúrlega að það hafi allt verið ræktað hérlendis og "Bjartur í Sumarhúsum" hafi slegið grasið með berum höndunum.
Leggist allir flutningar af hingað til Íslands leggst því allur "íslenskur" landbúnaður einnig af.
Þorsteinn Briem, 6.12.2016 kl. 07:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.