13.12.2016 | 15:22
Trump, F-35, og hinn þýski Tiger.
Á öllum tímum hafa verið uppi stórhuga hernaðarsérfræðingar sem hafa ýmist látið sig dreyma um hrikaleg stríðstól eða jafnvel hrint smíði þeirra í framkvæmd.
Í kringum 1970 voru uppi stórfengleg áhorm um geðveikislega stóra sprengjuþotu, svonefnda Valkyrju, sem yrði að leysa hina úreltu B-52 af hólmi.
Í ljós kom að hugmyndin um Valkyrjuna var fullkomlega óraunhæf vegna þess hve óskaplega dýr, flókin og viðkvæm hún var. Og enn í dag er B-52 í notkun, meira en 60 árum eftir að hún var hönnuð.
Þetta leiddi hugann aftur til ársins 1943 þegar Þjóðverjar hugðust snúa stríðsgæfunni á austurvígstöðvunum við með því að tefla fram lang öflugasta skridreka þess tíma, ofurskriðdrekanum Tiger, en sagt var að einn slíkur dreki hefði í fullu tré við 10 rússneska T-34 skriðdreka.
Tiger átti að verða lykillinn að sigri í stærstu skriðdrekaorrustu sögunnar við Kursk.
Þetta misheppnaðist gersamlega. Tiger var alltof dýr í framleiðslu, þurfti allt of marga menn til viðhalds, var alltof bilanagjarn og einfaldlega alltof flókin smíð.
Aðeins tókst að framleiða um 1800 skriðdreka af þessari gerð, en Rússar framleiddu meira en 80 þúsund T-34 skriðdreka.
Gríðarlega flókin orrustu- og sprengjuþota með hreyfanlega vængi átti að verða skæðasta vopn Bandaríkjahers á árunum eftir Valkyrju-ævintýrið, en örlög hennar urðu litlu skárri.
Á flugsýnningu í París ætluðu Bandaríkjamenn að sýna yfirburða orrustuþotu, X-31, sem átti að geta flogið með stefnukný nánast eins og þyrla í viðbót við mikla alhliða getu.
Sýningin mistókst að mestu og Rússar stálu senunni á Sukhoi-37 sem varð glæsilegasta sýningaratriðið.
X-31 hvarf hljóðlega af sjónarsviðinu.
Nú er ætlunin að framleiða F-35 þotuna, sem á að verða afburðavél. Kostnaðurinn við gerð hennar rýkur upp og Donald Trump hefur boðað, að hætt verði við framleiðslu hennar.
Sömuleiðis að hætt verði við gerð nýrrar og rándýrrar forsetaþotu á meðan sú gamla gerir það bara gott.
Líklega skynsamlegar ákvarðanir hjá honum og honum ekki alls varnað.
Athugasemdir
Now you are talking!
(í þýðingu sjónvarps: Nú ertu að tala!)
Húsari. (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 16:08
Það gæti reynst snúið að hefja ekki framleiðslu á F-35 þotunni sem hefur verið framleidd síðan 2006 í yfir 180 eintökum.
Davíð12 (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 16:28
Þessi er 3 sinnum ódýrari, 10 sinnum ódýrari í rekstri og mun líklegri til að granda óvini...https://en.wikipedia.org/wiki/Saab_JAS_39_Gripen
GB (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 18:11
Því fer fjarri að Þjóðverjar hafi tapað orustunni við kúrsk vegna of fárra öflugra Tigris-skriðdreka í byrjun og bilana gjarnra eins og síðuhöfundur heldur fram.
Sóknaráætlun Þjóðverja, plan Zitadelle, við Kúrsk var hrundið í framkvæmd 5. júlí 1943. Skriðdrekafjöldi þessa hersveita taldi nær 1100 skriðdreka þar af 200 Phanther 45 tonn á þyngd, 90 Tiger 55 tonn og tugi Ferdinand 70 tonn á þyngd. Í byrjun þessarar mestu skriðdrekaorustu sögunnar munu Þjóðverjar hafa haft yfir að ráða um 4 þúsund skriðdrekum en Rússar mun fleiri eða um 6 þúsund. Það sýndi sig hins vegar að skriðdrekar þjóðverja höfðu nánast algera yfirburði. Fyrstu viku bardaganna grönduðu skriðdrekar Þjóðverja hátt í fjögura stafa tölu (1000) rússneskra skriðdreka en misstu sjálfir tiltöllega mjög fáa. Þar munaði mestu um afhroð Rússa á suðurhluta Woronesch vígstöðvanna þann 11. júlí. Þegar þarna var komið sögu virtist hreint ekki loku fyrir það skotið að Þjóðverjum myndi takast að gjöreyða skriðdrekaflota Rússa á svæðinu. Þessi möguleiki var hins vegar sleginn út af borðinu þegar Hitler fékk því framgengt að heilu skriðdrekafylkin yrðu send til Ítalíu til að bregðast við innrás Breta og Bandaríkjmanna í Sikiley deginum áður (10. Júlí).
Í raun töpuðu Þjóðverjar ekki sjálfri skriðdreka orustunni þó þeir yrðu að hörfa aftur til upphaflegu víglínunnar fljótlega eftir að hluti skriðdrekafylkjana höfðu verið sendur til Ítalíu. Þar með rann Zitadelle í sandinn og seigdrepandi undanhaldið hélt áfram.
Hitler dró að hefja orustuna á langinn því hann vildi bíða þess að hinir nýju risastóru 70 tonna Ferdinand-skirðdrekar kæmust loks af færibandinu. Það hefði hann betur látið ógert því það voru þessir skriðdrekar sem komu með vandamálin en ekki Tígrisskriðdrekarnir sem höfðu reynst frábærlega í gagnsókn Þjóðverja á suðurvígstöðvunum um vorið (eftir afhroð Þjóðverja við Stalíngrad), sem stjórnað var af snillingnum Mannstein og lauk með sigri þjóðverja. Eiginlega var Ferdinand-skriðdrekinn hálfgerð fallbyssa á beltum fremur en skriðdreki því það var ekki hægt að snúa turninum ásamt byssunni heldur aðeins hreyfa hana upp og niður. Galli kom fram í gírkössum þessara hlúnka og þrátt fyrir góða brynvörn voru beltin illa varin sem Rússar nýttu sér í návígi. Margt bendir til að Þjóðverjar hefðu unnið þessa mestu skriðdrekaorustu sögunnar ef Hitler hefði sleppt því að bíða í fleiri vikur eftir þessum mislukkuðu stríðstólum sem Ferdinand-skriðdrekarnir reyndust vera.
Þess má geta að Þjóðverjar framleiddu a.m.k. yfir 20 þúsund skriðdreka árið 1944 en vitaskuld voru öflugustu skriðdrekarnir þar í minnihluta.
Daníel Sigurðsson, 13.12.2016 kl. 20:57
Saab JAS 39 Gripen sést á ratsjá og því væri óvinurinn búinn að skjóta þessar 3 niður og farinn að skála þegar hann tæki fyrst eftir Lockheed Martin F-35 Lightning II sem ekki sést á ratsjá.
Hábeinn (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 21:05
X-ið í X-31 stóð fyrir Experimental og var hún því tilraunarvél. Fullbúnar orustuvélar BNA eru merktar með F. þetta ættir þú að vita Ómar flugkappi.
Jónas (IP-tala skráð) 14.12.2016 kl. 01:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.