Ástandið nú keimlíkt því sem var í janúar 1980.

Eftir þingkosningar í byrjun desember 1979 skall á svipað ástand og nú á vettvangi íslenskra stjórnmála. Þáverandi forseti setti í gang gamalkunna "hringekju" þar sem hver formaðurinn á fætur öðrum fékk stjórnarmyndunarumboð, stýrði stjórnarmyndunarviðræðum ákveðinna flokka, gafst upp og afhenti umboðið að nýju. 

Frá því fyrr um haustið hafði setið minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, nokkurs konar starfsstjórn, varin vantrausti af Sjálfstæðisflokknum. 

Sex vikum eftir kosningar var ástandið keimlíkt því sem það er nú, formenn búnir að reyna, enginn hafði umboðið, og þing og minnihlutastjórn voru að störfum. 

Í kosningum til nefnda þingsins höfðu flokkar ýmsa möguleika á samstarfi, en vegna þess að þingið var í tveimur deildum, var ástandið flóknara en nú. 

Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn höfðu möguleika á samstarfi sem myndi gera meirihlutasamstjórn þeirra mögulega, en kratar, einkum Benedikt Gröndal formaður þeirra, voru því fráhverfir. 

Þess vegna varð það ekki framkvæmanlegt að mynda starfhæfa meirihlutastjórn í anda gömlu Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. 

Jón Baldvin Hannibalsson sagði síðar að þarna hefði orðið pólitískt umferðarslys. 

Ástand efnahagsmála var mun erfiðara á þessum tíma en nú. Klerkabylting í Íran hafði framkallað olíukreppu með stórhækkuðu eldsneytisverði, sem skapaði einstæðan eldsneytisskort í Bandaríkjunum með löngum biðröðum bíla við bensínstöðvar. 

Verðbólga og versnandi staða útflutningsatvinnuveganna vegna eldsneytiskostnaðar var því stóralvarlegt viðfangsefni sem krafðist styrkrar ríkisstjórnar. 

Þótt nú sýnist vera svipað viðfangsefni varðandi það að láta enda ná saman í ríkisfjármálum, er ástandið ekki nærri eins alvarlegt í bili eins og það var í janúar 1980. 

Sjö vikur frá kosningum og þremur og hálfum mánuði frá falli vinstri stjórnarinnar vann Kristján Eldjárn að því að utanþingsríkisstjórn undir forsæti Jóhannesar Nordal gæti leyst minnihlutastjórn Alþýðuflokksins af ef þingmönnum tækist ekki að mynda stjórn. 

Fordæmi Sveins Björnssonar frá 1942 gerði þetta mögulegt fyrir forsetann og myndaði auk þess þrýsting á þingmenn. 

Svo fór að Gunnari Thoroddsen tókst á magnaðan hátt að hugsa "út fyrir boxið" eins og Birgitta Jónsdóttir orðaði slíkt í gær og mynda meirihlutastjórn, sem raunar átti erfitt þegar frá leið að ná saman um nógu bitastæðar aðgerðir, enda afar erfiðar efnahagslegar aðstæður í þjóðarbúskapnum vegna olíukreppunnar í heiminum. 

Þess má geta að á tímabilinu frá fyrri hluta árs 1942 til haustsins 1944, eða í tvö og hálft ár, tókst Alþingi ekki að mynda meirihlutastjórn, mest vegna þess að trúnaðarbrestur ríkti milli forystumanna stærstu stjórnmálaflokkanna, þeirra Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar. 

Þá kom það mönnum í koll að hafa gefið stórar yfirlýsingar á báða bóga, sem þeim var um megn að draga til baka. 


mbl.is Þingið og formenn fái svigrúm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margt er hér nú fólið flátt,
í fýsninni að vomast,
Birgittu er boxið smátt,
bágt í það að komast.

Þorsteinn Briem, 13.12.2016 kl. 08:01

2 identicon

Þegar stjórnmálamenn hugsa út fyrir boxið þá vilja þeir éta úr annarra manna boxum.  Fá aldrei nóg.  Það eru allir búnir að fá nóg af þeim.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 13:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Viðreisn var tilbúin að skoða hátekjuskatt

Þorsteinn Briem, 16.12.2016 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband