25.12.2016 | 17:10
Hvað fá útlendingarnir að vita?
Það er oft sem engu er líkara en að allir eigi að vita allt þegar kemur að ferðalögum hér á landi. Erlendir ferðamenn fari sjálfkrafa inn á vedur.is og vegagerdin.is, skilji allt sem þar birtist og hegði sér eins og þeir hafi fæðst hér, alist upp og búið í áraraðir.
Þegar allt er komið í óefni eru björgunarsveitir ræstar út klukkan átta á jóladagsmorgni.
Þetta minnir mig á atvik á Hellissandi fyrir aldarfjórðungi. Kona frá Búðardal ók þvert í veg fyrir bíl, sem ók á móti einstefnuakstursskilti á götu á Hellissandi og af hlaust harður árekstur með tilheyrandi eignatjóni.
Niðurstaða málsins varð sú, að aðkomukonan ætti að bera ábyrgð á árekstrinum af því að allir á staðnum viti, að það fari enginn á staðnum eftir þessu skilti um einstefnuaksturinn frekar en hann sjálfur metur nauðsynlegt!
Ég var þarna á ferð og fannst þetta svo athyglisvert að ég ætlaði að gera um það frétt í sjónvarpinu.
En um leið og ég fór að taka myndir og hugðist fara í viðtöl sáu menn að sér og sýknuðu aðkomukonuna.
Veðrið fer hratt versnandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samkvæmt fréttum eru fjölmargir bílar fastir á Reynisfjalli. Ég veit ekki af hverju svona margir ættu að vera þvælast akandi upp á fjallið en væntanlega er verið að tala um þjóðveginn sem liggur við Reynisfjall.
Emil Hannes Valgeirsson, 25.12.2016 kl. 17:59
Fyrirgefðu en getur þetta fólk engan veginn borið ábyrgð á sjálfu sér?
Ef það hefði einhverja skynsemi og sjálfsbjargarviðleitni til að bera er mjög auðvelt að fylgast með veðurspám fyrir allan heiminn á öllum tungumálum.
Þegar við ferðumst erum við almennt búin að kynna okkur staðhætti, siði og veðurspár.
Vandamálið er sérstaklega bundið við Kínverja sem taka bílpróf á netinu og æða svo blindandi af stað.
En við fáum ekki að keyra í þeirra landi. Skrýtið.
Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.12.2016 kl. 18:00
Ekki er nú Mörlandinn betri í mörgum tilfellum hér á Klakanum.
Og hér hefur margur Framsóknarmaðurinn orðið úti, jafnvel á milli stafs og hurðar, eins og dæmin sanna.
Þorsteinn Briem, 25.12.2016 kl. 18:13
íslensk lög íslenskra sjálfstæðislögmanna,,,túlkuð eftir hver á í hlut
Anna (IP-tala skráð) 25.12.2016 kl. 18:22
Í yfirliti yfir hæð fjallavega landsins í minnisbók Fjölvíss, sem hefur verið gefið út árlega næstum eins lengi og elstu menn muna, er svokallaður "fjallvegur" með nafninu "Reynisfjall" 119 metrar yfir sjávarmáli.
Til samanburðar er Vatnsendahæð 144 metra yfir sjávarmáli og stór hverfi í Reykjavík í álíka eða meiri hæð en þessi svonefndi "fjallvegur."
Ómar Ragnarsson, 26.12.2016 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.