4.1.2017 | 20:09
Nýr rafbíll með allt að 380 km drægi kemur á árinu. Halló, Akureyri!
Á þessu ári stefna General Motors verksmiðjurnar að því setja Chevrolet Bolt á markað, en það er bíll með 60 kílóvattstunda rafhlöður og 380 kílómetra drægi og er arftaki Chevrolet Volt.
Þetta sýnir mjög hraðar framfarir í rafbílasmíði, því að aðeins ár er síðan það þóttu miklar framfarir þegar rafhlöður Nissan Leaf voru stækkaðar úr 24 kílóvattsstundum upp í 30 og drægið upp í um 170 kílómetra á hleðslu.
Í Evrópu munu GM bjóða bíl sem samsvarar Chevrolt Bolt undir heitinu Ópel Ampera-e, sem efri myndin er af.
Bolt verðúr allmiklu dýrari en Nissan Leaf, Kia Soul, Renault Zoe og rafbílagerðirnar af Volkswagen Up og Golf, en hins vegar miklu ódýrari en Tesla.
Drægi rafbílanna er gríðarlega mikilvægt fyrir framgang þeirra, ekki síst hér á landi þar sem hleðslustöðvar eru fáar og vantar víða um land.
Til dæmis hefur ekki verið hægt fram að þessu að komast örugglega milli Reykjavíkur og Akureyrar á neinum rafbíl nema Tesla, og þá orðið að fara 25 kílómetrum lengri leið um Sauðárkrók.
Með tilkomu Bolt verður til nýr möguleiki á rafbíl með mun meira drægi en áður hefur þekkst og Bolt hefur fengið fjölmargar alþjóðlegar viðurkenningar.
Nú bjóða Renault verksmiðjurnar upp á Zoe með 40 kílóvattstunda rafhlöður og þar með mest drægi hinna ódýrari rafbíla þannig að það er heilmikið að gerast á rafbílasviðinu.
P.S. Hér er mæling bandarísku umhverfisverndarstofnunarinnar EPA (Environment Protecton Agency á drægi nokkurra rafbíla.
Tölurnar eru í landmílum (ein míla er 1609 metrar).
Ford boðar langdrægan rafjeppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það væri allt í lagi að vera með raf jeppa og hafa létta dísil rafstöð með sér á hálendið og litaða olíu.
Valdimar Samúelsson, 4.1.2017 kl. 23:00
19.12.2016:
Rafbíllinn Opel Ampera-e með fimm hundruð kílómetra drægi
Þorsteinn Briem, 4.1.2017 kl. 23:50
15.12.2016:
Rafbíll fær orku úr pæklinum - Drægið eitt þúsund kílómetrar
Þorsteinn Briem, 4.1.2017 kl. 23:51
15.12.2016:
Orkusalan færir öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöðvar fyrir rafbíla - Rafbraut um Ísland
Þorsteinn Briem, 4.1.2017 kl. 23:51
30.12.2016:
Olíufélög fá styrki fyrir rafbílavæðinguna hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 4.1.2017 kl. 23:52
30.12.2016:
Sextán hleðsluverkefni fá styrk
Þorsteinn Briem, 4.1.2017 kl. 23:54
Það fer eftir stöðlum sem notaðir eru hvað drægið er mikið. Tesla átti líka að komast 400 til 500 kílómetra en náði því alls ekki hér á landi.
Lofthitinn hefur gríðarmikið að segja og hann er einfaldlega minni hér á landi á sumrin en í nokkru öðru landi Evrópu.
Sá staðall, sem gefur styst drægi, gefur upp 380 kílómetra fyrir Bolt og það er varasamt að gefa upp meira drægi hér á landi.
Ég nefni sem dæmi að vinur minn einn á Nissan Leaf og hefur stundu verið tæpur með að komast 100 kílómetra austur í sumarbústað sinn á Rangárvöllum. Sá bíll er með 24 kílóvattstunda rafhlöður og hann er álíka stór og þungur og Bolt verður.
Ég verð þess var á rafreiðhjóli mínu hvað drægið minnkar mjög þegar kólnar í veðri.
Ómar Ragnarsson, 5.1.2017 kl. 02:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.