18.1.2017 | 12:16
Vantar enn hraðhleðslustöðvarnar og ekinn er "sauðárkrókur."
Gott er að sjá að sú þjóð, sem auðveldast á með að framkvæma óhjákvæmileg orkuskipti skuli vera komin í annað sæti Evrópuþjóða í rafvæðingu bílaflotans.
Landið verður samt ekki raunverulegt rafbílaland fyrr en hægt verður að komast á milli landshluta á rafbílum, en það er engan veginn hægt að segja að það sé hægt.
Sjá hefur mátt auglýsingar um tilboð til þess að setja upp hleðslustöðvar í hverju sveitarfélagi, en þar er ekki um hraðhleðslustöðvar að ræða heldur venjulega hleðslu, sem yfirleitt tekur 4-7 klukkustundir.
Hraðhleðslustöð gerir hins vegar kleyft að hlaða bílinn á hálftíma upp í 80% af hleðslunni, og væru slíkar stöðvar til dæmis á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur með minnst 100 kílómetra millibili, væri hægt að tala um að rafbílavæða þá leið.
En einungis er stöð í Borgarnesi og önnur á Sauðárkróki! Og það er sannkallaður sauðárkrókur sem lagður er á leiðina með því að þurfa að aka yfir Þverárfjall 25 kílómetrum lengri leið en ef ekið væri um þjóðveg númer eitt.
Á milli Borgarness og Sauðárkróks eru 225 kílómetrar og eins og sést á súluriti, sem sett verður hér á síðuna, sést að allir núverandi rafbílar í bílaflotanum eru langt frá því að komast þessa leið á einni hleðslu.
Tölurnar eru í mílum, og sá sem á eftir að komast lengst kemst 380 kílómetra, en hinir flestir eru neðan við 150 kílómetra.
Því er enn ekki búið að efna loforð landsfeðra fyrir nær þremur árum um rafbílavæðinguna.
Bíllinn sem lengst kemst á þessu súluriti, er Chevrolet Bolt / Opel Ampera-e er enn ekki komninn í sölu og verður nokkuð dýr.
Tesla hefur verið langdrægust fram að þessu en er dýr lúxusbíll.
Við hornið eru öflugri rafhlöður og Renault Zoe, sem er með ódýrari rafbílum, verður senn boðinn með 41 kílóvattstunda rafhlöðu sem gefur honum næstum tvöfalt meiri langdrægni en hingað til hefur verið í boði.
Þess má geta, að lofthiti hefur mikil áhrif á drægni á öllum rafknúnum farartækjum, og sem dæmi má nefna að vinur minn, sem á Nissan Leaf, hefur þurft að sýna lagni til þess að komast rúmlega 100 kílómetra vegalengd frá heimili sínu á Reykjavíkursvæðinu austur í sumarbústað milli Hellu og Hvolsvallar.
Sá bíll var með 24 kílóvattstunda rafhlöðu en býðst nú með 30 kílóvattstuna rafhlöðu.
Rétt er að taka það fram að það var lofsvert framtak fólgið í því að setja upp góða hleðslustöð á Sauðárkróki.
Þess slappara er það að ekki sjáist enn hraðhleðslustöðvar á mörg hundruð kílómetra köflum á helstu þjóðvegum landsins.
Fyrir "litla manninn" er hins vegar möguleiki á að minnka kolefnisfótspor sitt verulega eða meira en 60% með um það bil einnar milljónar fjárfestingu, eins og ég er nú að framkvæma, meðal annars með hringferð um landið á vespuhjólinu síðastliðið sumar og alls 3500 kílómetra ferðum um landið í haust:
1. Rafknúið reiðhjól til ferða innan borgar. 250 þús.
2. Létt 125 cc vespuhjól til ferða um allt land á þjóðvegahraða fyrir brot af þeim kostnaði sem bíll hefur í för með sér. 450 þús.
3. Notaður lítill bíll til ferða sem hjólin geta ekki afgreitt, þar sem fleiri eru samferða eða farangur með í för. 300 þús króna fjárfesting.
Eða samnýting á bíl makans, ódýrasta og einfaldasta bílnum á markaðnum.
Ísland annað mesta rafbílaríkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
19.12.2016:
Rafbíllinn Opel Ampera-e með fimm hundruð kílómetra drægi
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:35
15.12.2016:
Orkusalan færir öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöðvar fyrir rafbíla - Rafbraut um Ísland
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:36
30.12.2016:
Olíufélög fá styrki fyrir rafbílavæðinguna hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:37
30.12.2016:
Sextán hleðsluverkefni fá styrk
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:38
17.8.2016:
"Hægt væri að skipta út allt að 87% bandarískra bíla með ódýrum rafmagnsbílum jafnvel þó að ökumenn þeirra gætu ekki hlaðið þá yfir daginn.
Þetta er niðurstaða rannsakenda við MIT-háskóla og Santa Fe-stofnunina sem könnuðu aksturshegðun Bandaríkjamanna og ýmsa þætti sem hafa áhrif á drægi rafbíla."
Óttinn við drægi rafbíla ofmetinn
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:39
Í fjölmörgum fylkjum Bandaríkjanna verður miklu kaldara á veturna en hér á Íslandi.
Þorsteinn Briem, 18.1.2017 kl. 13:40
Samkvæmt upplýsingum frá því BL eru hleðslustöðvar Orkusölunnar ekki hraðhleðslustöðvar. Það vantar þær, Steini.
500 kílómetra drægi á Opel Ampera-e er fullkomlega óraunhæft. ÉPA í Bandaríkjunum gefur upp 380 kílómetra, sem er nær hinu raunverulega.
Ómar Ragnarsson, 18.1.2017 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.