30.1.2017 | 17:02
Á aðdáun á Bandaríkjunum að leiða okkur hvert sem er?
Ég er í hópi þeirra sem hafa ævinlega haft miklar mætur á Abraham Lincoln og Franklin Delano Roosevelt.
Lincoln barðist fyrir mannréttindum blökkumanna og Roosevelt fyrir útbreiðslu mannréttinda og frelsis um allan heim.
Bandaríkjamenn komu til hjálpar þegar alræðísstjórnir, sem mismunuðu fólki á grundvelli trúarbragða og uppruna, voru búnar að leggja undir sig nær alla Evrópu og stóran hluta Asíu.
Bandaríkjamenn ljáðu land undir höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og utanríkisstefna þeirra hefur haft mannréttindi og frelsi að leiðarstefjum samfleytt síðan árið 1941.
Bandarískt þjóðfélag hefur frá öndverðu verið þjóðfélag innflytjenda frá öllum heimshornum, sem margir hverjir ólu með sér "ameríska drauminn."
Þetta var deigla menningarstrauma þar sem allir lögðu sitt af mörkum. Þarf ekki annað en að nefna áhrif þrælanna, blökkumannanna sem komu frá Afríku, á tónlist okkar tíma.
Bandaríkjamenn hafa að vísu, eins og svo algengt er með stórveldi, stutt margan einræðisherrann í öðrum heimsálfum, þegar það hefur þótt nauðsynlegt fyrir hagsmuni þeirra sjálfra, og þeir hafa sjálfir brotið mannréttdindi, en það er ekki fyrr en nú sem það er gert á harkalegan hátt með algerri stefnubreytingu.
Maður sér á netinu að margir Íslendingar styðja þá stefnu, sem Donald Trump hefur tekið.
Þessir landar okkar tala um "Sjálfstæðismanninn Trump", um að loks sé kominn þjóðarleiðtogi og "stjórnmálamaður sem segir það sem hann meinar" og "framkvæmir það líka af festu og skörungsskap."
Að nú sé liðinn tími alþjóðasamvinnu og frelsis í viðskiptum og í staðinn kominn tími hins öfluga þjóðríkis, samanber "að gera Ameríku stórfenglega á ný" og "Ameríku ofar öllu."
Og að um þetta eigum við Íslendingar að fylkja okkur.
Þeir spyrja ekki hvort aðdáun á Bandaríkjunum eigi að leiða okkur hvert sem er.
P. S. Og nú má sjá ummæli sumra sem gefa þessum aðgerðir þann blæ, að þær séu eðlilegar. Þetta er ekki orðað sem bann við ferðum fólks frá þessum múslimsku löndum til Bandaríkjanna, heldur "takmarkanir".
En allir vita að það er reginmunur á algeru banni og takmörkunum, því að engir flutningar fólks inn í lönd eru takmarkalausir. Enn eitt dæmið um "sannlíki" (alternate truth).
Íslendingar gætu verið í vanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Á móti má spyrja, er allt rangt annað en það sem stuðlar að óheftum framgangi alþjóða auðmagns og afnámi þjóðríkis og þar með lýðræðis?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.1.2017 kl. 18:33
Önnur spurning til þín Ómar sem reynslubolta í fréttamennsku, af hverju urðu ekki þessi sömu alþjóðlegu viðbrögð og nú við 120 daga banni Trumps á nokkrar múslímaþjóðir, þegar Obama bannaði Írökum í sex mánuði árið 2011, að koma til Bandaríkjanna?
http://www.iaindale.com/
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.1.2017 kl. 19:19
"Lárus Blöndal forseti Íþrótta og Ólympíusambands Íslands segir að það sé sorglegt og ógnvekjandi að Meisam Rafiei landsliðsmanni Íslands í taekwondo hafi verið vísað úr flugvél á leið á taekwondomót í Bandaríkjunum.
Lárus bendir á að Bandaríkjamenn séu að sækjast eftir því að halda Ólympíuleikana í Los Angeles árið 2024 og hann telur að ferðabannið sem Trump Bandaríkjaforseti hefur sett muni koma niður á umsókn Bandaríkjamanna þegar kosið verður um hvar leikarnir fara fram það ár."
Þorsteinn Briem, 30.1.2017 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.