2.2.2017 | 07:36
"Svartur hestur"?
Við lifum á tímum þar sem andstæðir pólar í stjórnmálum og trúmálum draga að sér fylgi vaxandi hluta fólks, sem er orðið leitt og þreytt á því á stjórnmálaástandi, sem virðist steingelt, spillt og árangurslítið.
Afleiðingin hefur víða orðið sú, að fólk hefur lyft til valda og áhrifa einhverjum, nánast hverjum sem er, sem ekki er af þessu sauðahúsi "stjórnmálastéttarinnar".
Ágætt dæmi hér á landi voru borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 2010. Fram til 2006 hafði Sjálfstæðisflokkurinn og þar á undan íhaldsmenn notið stöðugs fylgis í borginni, í kringum 45-50 prósent, og var það nálægt því fylgi 2006 að hann gat myndað meirihluta með hverjum hinna flokkanna sem var.
En þá dundi yfir einstakt tímabil í sögu borgarstjórnarinnar, þar sem á aðeins rúmum tveimur árum voru tíðustu borgarstjóraskipti í manna minnum, fjórir borgarstjórar í mismunandi meirihlutum.
Síðustu tvö árin á kjörtímabilinu sáu borgarfulltrúar að sér og borgarstjórn sigldi að nýju lygnan sjó.
En skaðinn var skeður. Engar fréttir úr borgarstjórn voru í sjálfu sér góðar fréttir, en virkuðu alveg öfugt á kjósendur, því að hinn nýi stöðugleiki vakti ekki minnstu athygli, - kjósendur voru áfram bálreiðir vegna ástandsins 2007-2008.
Nýr, gerólíkur stjórnmálamaður, kom fram á sjónarsviðið og á tímabili fyrir kosningarnar 2010 var fylgi hans nóg til að flokkur hans kæmist einn í meirihluta.
Svipað hefur verið að gerast víðar, nú síðast með kjöri Donalds Trumps í Bandaríkjunum.
Kjósendur, langþreyttir á "spillingu og getuleysi stjórnmálastéttarinnar" voru tilbúnir til að lyfta nánast hverjum sem væri, til valda.
Þessa dagana linnir ekki fréttum um lætin og hamaganginn í Trump, og frá öðrum löndum, svo sem Frakklandi og Austurríki, hafa verið hatrömm átök á milli jaðarhópa í stjórnmálum og trúmálum.
En hversu lengi getur slíkt ástand varað?
Sagan geymir ótal dæmi um það að þegar barátta tveggja andstæðra póla birtist í gríðarlegum átökum, geti kjósendur líka orðið þreyttir á því.
Þá kemur fram fyrirbærið "dark horse", einhver hógvær frambjóðandi, sem stendur í miðjunni.
Dæmi úr prestkosningum hér á landi er kosning Þorsteins Björnssonar Fríkirkjuprests 1950 þegar gríðarlegur hamagangur hafði verið í kosningabaráttu stuðningsmanna Árelíusar Níelssonar og Emils Björnssonar, sem báðir töldust til "frjálslyndra presta" á þeim tíma.
Það sópaði að þeim báðum en fáir þekktu Þorstein, sem hafði þjónað í fjarlægu prestakalli langt úti á landi og talinn var hliðhollur svonefndum "KFUM" armi Þjóðkirkjunnar.
Þreyttir á hinum miklu flokkadráttum, veittu kjósendur "svarta hestinum" mest fylgi, en það olli raunar klofningi safnaðarins, sem hafði verið vígi hins "frjálslynda arms íslensku prestastéttarinnar fram að því.
Nú er eykur fylgi sitt í Frakklandi "dark horse" að nafni Emmanuel Macron sem siglir lygnan sjó á sama tíma og aðsópsmestu frambjóðendurnir hafa lent í vandræðum vegna hneykslismála.
Svona geta ýmsar öldur risið og hnigið á víxl í stjórnmálunum.
Sumir hafa spáð því, að það góða við kjör Donalds Trumps geti orðið það, að eftir fjögur ár muni hann eða aðrir svipaðir ekki eiga möguleika á kjöri í forsetakosningum vestra.
Verður Macron næsti forseti? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hægt að vinna með alla liti á bæði jákvæðan og neikvæðan hátt.
Ef að við yfirfærum litina yfir á skákborðið;
þá táknar HVÍTT almennt hið rétta, sanna & góða
t.d. klæði KRISTS í altaristöflum og fermingarkirtlar.
en svart hlýtur þá að vera allt hið gagnstæða.
--------------------------------------------------------
Þetta er svona almennt séð;
LÍfið er ekki svona einfalt eins og á skákborðinu.
Þó svo að fólk klæðist svörtum fötum eins og prestar,lögreglumenn og annað fólk af því að svart er látlaus litur tengt vinnufötum sem að sér ekki mikið á í daglegu amstri; að þá er ekki þar með sagt að það fólk séu svartar sálir að innan.
Þó svo að páll óskar gaypride-leiðtogi klæðist hvítum fötum að þá er ekki þar með sagt að hann sé kominn í tölu heilagra.
Jón Þórhallsson, 2.2.2017 kl. 08:48
Frakkar svartan fá nú hest,
sem fasistarnir níða,
en við kusum öðlingsprest,
sem enginn vildi ríða.
Þorsteinn Briem, 2.2.2017 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.