Umferðin speglar andlegt ástand þjóðar.

Ef Íslendingar gerðu ekki talsvert af því að fara til útlanda og kynnast umferðarmenningu þar, væri ástandið hér heima enn verra en það er. Áratugum saman kunnu Íslendingar almennt ekki hina einföldu reglu að þar sem umferð fer af tveimur akreinum yfir á eina akrein, gangi hún langfljótast fyrir sig ef menn skiptast á við að búa til það sem kallað hefur verið "rennilás" eða "tannhjól." 

Hversu margir, sem lesa þessi orð, vita um tilvist þessara hugtaka?  Kannski fjölgar þeim hægt og bítandi, en það er eitthvert andlegt ástandi okkar sem þjóðar, sem hefur valdið því hve hægt hefur gengið að innleiða þennan sjálfsagða hlut hér. 

Boðorðin í umferðinni virðast vera að "á Íslandi við getum verið kóngar allri hreint". Við leggjum til dæmis oft bílum okkar þannig í stæði, að þeir standa út fyrir mörk þeirra og riðla öllum möguleikum á að stæðin nýtist sem best.  

Það er engu líkara en að það sé talið brot á friðhelgi einkalífs að láta nokkurn mann vita með stefnuljósagjöf hvað maður ætli að gera.

Í einni ökuferði í gegnum borgina lenda menn ýmist í því að tefjast stórlega af tveimur meginástæðum:

1. Hinir fremstu í biðröð á umferðarljósum taka sér þann tíma, sem þeim sjálfum þóknast, til að drullast af stað, til dæmis af því að þeir eru að nota biðina til að vinna á snjallsímanum sínum, svo að í staðinn fyrir að til dæmis sjö komist yfir á beygjuljósi, eins og gerist erlendis, komist aðeins tveir yfir.  Á næstu gatnamótum lenda þeir svo kannski sjálfir aftar í biðröð og bölva þeim fremstu á undan í sand og ösku fyrir slóðaskap og eigingirni.

2. Menn verða af tækifærum til að halda greiðlega áfram við hringtorg og á gatnamótum, vegna þess að þeir sem eru aðvífandi gefa ekki stefnuljós og taka heilu hringtorgin og T-gatnamótin í gíslingu. Þeir, sem ekki gefa stefnuljós, lenda síðan sjálfir í öfugu hlutverki á næstu gatnamótum og bölva þeim, sem ekki gefa stefnuljós, í sand og ösku.

Eftir eina ferð eftir endilangri borginni verður niðurstaðan stanslaust ergelsi, tafir og togstreita, lýjandi ástand, sem allir tapa á, en flestir stunda samt ákaft í að viðhalda.

Af hverju er ekki frekar hægt að njóta þess að vinna saman að því að gera umferðina greiðari og öruggari?

Varðandi umferðarhraðann er það svo, að eftir að ég byrjaði að ferðast sitt á hvað á rafreiðhjóli og vespuvélhjóli, er maður betur meðvitaður en áður um þau sannindi að "hraðinn drepur", þ.e. að fyrir vélhjólafólk er afleiðing of mikils hraða margfalt alvarlegri en hjá bílstjórum.

Áberandi er hve margir bílstjórar stunda það að vera á 10 til 30 km/klst meiri hraða en hraðatakmörk leyfa. Að aka til dæmis á öðru hundraðinu eftir austanverðri Miklubraut og á 80-90 km hraða um Gullinbrú.   


mbl.is Hugnast ekki virðingarleysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við ökum enn á vinstri akgreininni, þannig að sú hægri er oftast fljótfarnari, á að vera öfugt. Svo eru það bara gáfnaljós sem nota stefnuljós, hinir spara rafmagnið !

Steinar Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.2.2017 kl. 08:57

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ætíð hann á undan mér,
í umferðinni gleyminn,
enginn veit hvert ætlar sér,
allan hann á heiminn.

Þorsteinn Briem, 14.2.2017 kl. 09:43

3 identicon

Við Íslendingar eru sveitafólk, við kunnum ekki enn að búa í þéttbýli.frown

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 14.2.2017 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband