Náttröll og draugar fortíðar í nútíma alþjóðasamfélagi.

Aldur Donalds Trumps og fleiri stjórnmálamanna ætti ekki að vera nein hindrun fyrir því að þeir geti skoðað og metið sinna þjóða og annarra þjóða með opnum huga og af víðsýni. Gamall líkami þarf alls ekki að vera hemill á unga og ferska sýn, heldur getur slík sýn gefið mikið af sér ef reynsla og þekking eru nýtt til að efla hana. 

En sýn Trumps á breytta tíma í samræmi við tæknibyltingu í fjarskiptum og samgöngum líkist því sem draugur úr fortíð sé kominn til að hrella samtímann eða að nátttröll þröngsýnna skoðana fyrri tíma hafi náð völdum í Hvíta húsinu. 

Í stað þess að gagnrýna og gangast fyrir endurbótum í því að stjórnkerfið sinni nauðsynlegri breytingu á atvinnuháttum og menntun til að laða fram það besta sem nýtt umhverfi hefur upp á á bjóða, ætlar Trump að ráðast af offorsi á alla þróun og snúa henni við. 

Lítið dæmi um breytingar fyrri tíma var það, þegar hlutverk setjaranna í prentsmiðjum, sem notuðu handafl við vinnu sína, breyttist, að þá var gerð að því gangskör að þeir gætu tileinkað sér ný vinnubrögð og störf, sem komu í staðinn hið gamla og úrelta á þessum vettvangi. 

Annað dæmi er sú bylting í samsetningu á hvers konar tækjum og varningi sem róbótar hafa valdið. 

Í stað þess að banna rótbótana og snúa tækninni til baka með tilheyrandi bakslagi, er skynsamlegra að stuðla að því að starfsfólkið, sem vann hina tilbreytingarsnauðu vinnu við samsetninguna, geti endurmenntað sig og tekið að sér ný störf, sem skapast við tæknibreytinguna. 

Til dæmis kalla róbótarnir sjálfir á ný störf og tæknivinnu. 

Dæmi um einfeldnislega sýn er það, þegar ég gerði fyrir hálfri öld textann "Árið 2012", þar sem meðal annars var sungin þessi setning um lífið í framtíðinni: 

"Já, veröldin var skrýtin og allt var orðið breytt, 

því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt." 

Þetta var einföldun í því skyni að gera yfirbragð textans hressilegt, en stóðst að sjálfsögðu ekki, því að auðvitað þurfti fólk til að finna vélarnar upp, hanna þær og sjá um notkun þeirra og viðhald. 

Og ekki aðeins það, fólkið þurfti á nýrri og mikilli menntun að halda. 

Við tækniframfarir breytist gerð atvinnulífsins. Á árunum 1945-1975 varð hrein bylting í íslenskum landbúnaði.

Í stað þess að allt væri gert með hreinu handafli eða notkun hesta, komu dráttarvélar og tilheyrandi tæki til sögunnar og þúsundir landbúnaðafólks missti atvinnu sína vegna þess að nú þurfti aðeins hluta þessarar stéttar til þess að afkasta því sem áður var gert með handaflinu. 

Á árunum 1960 til 1985 höfðu tugir þúsunda atvinnu í ótal íslenskum iðnfyrirtækjum, sem lögðust af þegar Viðreisnarstjórnin aflétti hömlum í formi verndartolla og hafta á árunum 1960 til 1971. 

Allar hagfræðilegar athuganir á þessu sýndu, að við það að framleiðslan færðist til þess viðskiptalands okkar, þar sem hagkvæmast var að framleiða vörurnar, en hins vegar að sumt íslenskt stæðist samkeppni og lifði breytingarnar af, högnuðust báðir aðilar á því þegar upp var staðið og öll kurl komin til grafar. 

Við umbreytinguna varð til hagnaður, sem nýttist fólkinu, sem missti vinnuna, til að mennta sig og gera sig hæft til annarra og hagkvæmari hlutverka í þjóðlífinu.  

Á þessum tíma þótti það frekar vera hægri sinnuð eða frjálslynd stefna, sem boðaði meira frelsi og olnbogarými í atvinnulífinu, en núna hamast mestu hægri menn á borð við Trump gegn þessu. 

Þeim þjóðum, sem bestum tökum ná á nýtingu hugvits, menntunar og nýsköpunar, vegnar best á hinum nýju og spennandi framfaratímum, sem geta blasað okkur nema nátttröll brjótist til valda og innleiði þau átök, styrjaldir og slæmu afleiðingar skefjalausrar rányrkju og umhverfisspjalla, sem eru ær og kýr hinna nýju fortíðardrauga.   

 


mbl.is Tugir stórfyrirtækja mótmæla banni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ameríkanann tóku tröll,
tísta svo því öllu,
svona er nú sagan öll,
send um víða völlu.

Þorsteinn Briem, 17.2.2017 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband