Ekki alltaf beint samasemmerki á milli mikilla snjóa og mikilla kulda.

Mesta snjódýpt, sem mælst hefur í Reykjavík, var 55 sm árið 1937. Ég man eftir 48 sentimetra snjónum 1952. Þá féll snjórinn í samfelldri logndrífu eins og nú.

Í bæði skiptin, einkum 1937, féll snjórinn á því tímabili á síðustu öld, þegar loftslag á Íslandi var hlýjast og jöklar minnkuðu hratt. 

1951 voru eindæma snjóalög á útmánuðum á Norðausturlandi. 

Fyrir tveimur árum féll metsnjór í austasta hluta Kanada og norðausturhluta Bandaríkjanna. 

Bæði vestra og hér á landi ruku menn upp fyrir tveimur árum og sögðu, að þetta sýndi að hlýnandi loftslag á jörðinni væri "ein risastór falsfrétt" og hinn mikli snjór sýndi þvert á móti að loftslag á jörðinni væri að kólna og færi jafnvel "hratt kólnandi." 

Ef þessir sömu menn hefðu verið á ferli 1937 og 1952 hefðu þeir hugsanlega haldið hinu sama fram þótt jöklar landsins væru lungann úr síðustu öld, og einna mest á árunum 1920-1965 á hröðu undanhaldi.

Ástæða hins mikla snævar, sem féll í nótt, var ekki fimbulkuldi, þótt snjór sem fyrirbæri sé venjulega tákn um kalt loftslag.

Snjórinn varð fyrst og fremst svona mikill, að því til landsins kom einstaklega magnaður hlýr og rakamikill loftmassi, sem þéttist í snjókomu þegar hann mætti svalara lofti.

Snjórinn mikli í Kanada og norðausturhluta Bandaríkjanna fyrir tveimur árum féll af svipuðum sökum, og í öllum nefndum tilfellum, 1937 og 1952 hér á landi, og fyrir tveiur árum vestra, féll snjórinn í hita við frostmark en ekki í frosthörkum.  

Fyrstu merki um breytt loftslag í Noregi voru þau, að á Harðangursheiði, liggur í um 1000 metra hæð, féll meiri snjór en veturna á undan. 

Ástæðan var mun meira af hlýju og röku lofti, sem barst úr suðvestri að ströndinni og þéttist í snjó þegar það skall á hinni 1000 metra háu hásléttu. 

En samt minnkuðu hinir litlu jöklar þar ár frá ári, af því að sumrin voru það mikið hlýrri og lengri en fyrr, að yfir heildina bráðnaði meiri snjór á sumrin en féll á veturna. 

Ég hef um áratuga skeið fylgst með hálendinu fyrir norðan Vatnajökul, einkum síðustu 20 ár. 

Á síðustu árum hefur blasað við breytt veðurlag að því leyti, að á svæðinu austan við ána Kreppu, sem verið hefur innan þess svæðis þar eem minnst úrkoma er á landinu, hefur verið meiri úrkoma og meiri snjór á veturna en áður var, en vestan árinnar hefur hið þurra loftslag hins vegar haldist, og jöklarnir, hugsanlega að undanskildum varanlegum sköflum í Snæfelli, halda áfram að minnka.

Bestu setninguna um loftslagsbreytingar á þó leiðtogi vestrænna þjóða, Donald Trump, sem sagði í einni af ræðum sínum, að það væri skítakuldi í New York sem sýndi fánýti kenninganna um hlýnun loftlags á jörðinni.  


mbl.is Snjódýptin aldrei meiri í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alltaf sumum er nú kalt,
allir Trumpinn kjósa,
lítið vit og loft þar svalt,
loks þeir saman frjósa.

Þorsteinn Briem, 26.2.2017 kl. 12:53

2 identicon

Herormar herja nú á akra í Suður-Afríku.
Þeir allra hörðust Global warming sinnar segja að El nino í Kyrrahafinu sé orsakavaldurinn.  Suður-Atlandshaf og Indlandshaf umlíkja Afríku og loftslagið þar kemur kyrrahafssvæðinu ekkert við.
Ef El nino er orsökin, þá ætti þessi ormaplága að koma upp í hvert skipti sem El nino kemur, en það hefur verið með nokkuð jöfnu árabili í tugir þúsunda ára.

valdimar jóhannsson (IP-tala skráð) 26.2.2017 kl. 14:40

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Verðurfar getur vissulega tekið miklum breytingum.

Á Íslandi eru það ekki fréttir heldur venjulegt ástand.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.2.2017 kl. 17:50

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér í  Reykjavík í dag, 5. mars, var dögun klukkan 5.40, birting kl. 7.33, sólris kl. 8.20, hádegi kl. 13.39, sólarlag  kl. 18.59, myrkur kl. 19.47 og dagsetur kl. 21.41.

Á Akureyri var sólris kl. 8.08 og sólarlag kl. 18.41 en  í Vestmannaeyjum var sólris kl. 8.13 og sólarlag kl. 18.54.

Í Reykjavík í dag gat sólin því skinið í tíu klukkustundir og 39 mínútur, á Akureyri í tíu klukkustundir og 33 mínútur og í Vestmannaeyjum í tíu klukkustundir og 41 mínútu.

"Í almanakinu telst dögun þegar sólmiðjan á uppleið er 18° undir sjónbaug (láréttum sjóndeildarhring) og dagsetur þegar sól er jafnlangt undir sjónbaug á niðurleið. Er þá himinn aldimmur yfir athugunarstað.

Birting og myrkur reiknast þegar sólmiðjan er 6° undir sjónbaug en það er nálægt mörkum þess að verkljóst sé úti við.

Sólris og sólarlag teljast þegar efri rönd sólar sýnist vera við sjónbaug, og er þá reiknað með að ljósbrot í andrúmsloftinu nemi 0,6°.

Hádegi er þegar sólmiðjan er í hásuðri og. miðnætti (lágnætti) er hálfum sólarhring síðar.

Sólarhæð (H°) er hæð sólmiðju á hádegi og þá er ljósbrot meðreiknað."

Almanak Háskóla Íslands árið 2017 - Sólargangstöflur

Þorsteinn Briem, 5.3.2017 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband