27.2.2017 | 12:46
Afgerandi íslenska forysta á þessu sviði. Tveir "hálfir Óskarar?"
Þótt lögmál Murphys hafi náð nýjum hæðum við misheppnaða afhendingur Óskars-styttunnar vestra, hafa Íslendingar ótvíræða forystu í neyðarlegum uppákomum við tilkynningar á úrslitum.
Æðsta virðing allra þar,
barst alveg röngu liði.
En Framsókn er og Framsókn var
fremst á þessu sviði.
Í formannskjöri að þá skildi
ofurlítill þröskuldur,
er þá frétt bar örsmár miði:
The chairman goes to.. Höskuldur.
En eins og kunnugt er kom í ljós nokkrum mínútum seinna að hinn litli atkvæðamunur hafði verið Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í vil.
Þar að auki hefur það gerst við afhendingu Eddu-verðlauna hér á landi, að styttan datt í tvennt við afhendinguna svo að handhafinn fékk tvær hálfar Eddur og hefur alla tíð síðan verið í vafa hvort hann eigi að halda meira upp á efri helminginn eða neðri helminginn.
Það er eftir að sjá að Óskarinn detti einhvern tíma í tvennt og verði að tveimur hálfum Óskurum. Það er afar ólíklegt.
Lásu upp heiti rangrar myndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.