"Gömlu dagana gefðu mér..."?

Hér í gamla daga var það einfalt viðfangsefni að hreinsa snjó af götum og gangstéttum. Gert með handafli. Skóflum.  Handafli margra, sem komust að með skóflur sínar hvar sem var.

Bílstjórar settu snjókeðjur á drifhjólin, margfalt öflugri spólvörn en bestu nagladekk nútímans.

Núna féll snjórinn aðfararnótt sunnudags og náði að verða til vandræða klukkan fjögur.

Í gamla daga voru böll þá búin og flestir komnir heim eða langleiðina þangað.

Nú er þetta dregið fram undir morgun.

Það liggur í augum uppi að jafnvel þótt það kosti næturvinnukaup að ræsa strax út allan tiltækan mannskap, bætir það sig upp síðar í mokstrinum, sem er því auðveldari sem byrjað er fyrr á honum.

Að ekki sé nú talað um að spara þann mikla tíma og kostnað sem fylgir ófærð.

Í miðbænum í gærkvöldi, næstum þremur sólarhringum eftir snjókomuna miklu, þurfti enn að klofa yfir háa ruðninga á ómokuðum gangstéttum og bílastæðum við þær, þar sem fætur fólksins og hjól bílanna voru búin að þjappa hann saman og gera enn erfiðara en ella að fjarlægja hann.

Ekki er í þetta skipti hægt að afsaka sig með því að kostnaður við snjómokstur hafi verið svo mikill í vetur.  Í raun kom veturinn fyrst í fyrradag, fjórum mánuðum síðar en venjulega.  


mbl.is „Ömurlegt“ ástand í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

""Þetta hefur gengið ótrúlega vel miðað við aðstæður en þetta gengur hægt," segir Halldór Þórhallsson hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar.

Snjóruðningstæki borgarinnar hafa verið að störfum í nótt.

Halldór segir mokstur ganga vel miðað við snjómagnið, en hægt.

Um 30-40 tæki eru notuð til verksins, víðs vegar um borgina.

"Það eru öll tæki úti og verða næstu daga," segir Halldór."

Þorsteinn Briem, 28.2.2017 kl. 17:44

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sam­an­lögð lengd gatna í Reykja­vík var 515 kílómetrar árið 2011 en göngu- og hjóla­stíg­a með bundnu slit­lagi 768 kílómetrar.

Sumar götur eru fjórar akreinar, moka þarf tvær akreinar gatna víðast hvar og gangstéttir eru í flestum tilvikum báðu megin við götur.

Einnig þarf að moka fjöldann allan af bílastæðum, fara þarf varlega vegna kyrrstæðra bíla og flytja þarf snjó af mörgum svæðum.

Þorsteinn Briem, 28.2.2017 kl. 17:50

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður er hálftíma að handmoka miklum snjó frá útidyrum að garðhliðinu hér í Sörlaskjólinu í vesturbæ Reykjavíkur.

Og moka þarf vel til að sorphreinsunarmenn komist með ruslatunnur sem í mörgum tilfellum eru á bakvið hús.

Sem betur fer eru götur því ekki handmokaðar hér í Reykjavík eða annars staðar á landinu, svo ég viti til.

Þorsteinn Briem, 28.2.2017 kl. 18:14

4 identicon

Snjallir menn að setja snjókeðjur á drifhjólin.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.2.2017 kl. 18:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband