9.3.2017 | 17:30
Hve margir hafa lært og rannsakað ferðamál erlendis?
Fyrsti og lengi eini þjóðgarðavörðurinn á Íslandi, sem hafði kynnt sér að einhverju leyti erlenda þjóðgarða, var séra Heimir Steinsson, þegar Steingrímur Hermannsson réði hann sem þjóðgarðsvörð á Þingvöllum og veitti honum styrk til að fara til Bandaríkjanna til að kynna sér þjóðgarðinn Yellowstone.
Þjóðgarðarnir í vesturhluta Bandaríkjanna eru um margt svipaðir að eðli og Ísland er sem ferðamannaland. Ríkin í Klettafjöllunum og næsta nágrenni þeirra, þar sem langflestir og stærstir þjóðgarðar eru, eru dreifbýl og landslagið fjöllótt eða lítt gróið.
Wyoming ríki, þar sem þjóðgarðarnir Yellowstone og Grand Teton liggja sama, er til dæmis mun strjálbýlla en Ísland. Í Yellowstone, sem er 9000 ferkílómetrar, koma þrjár milljónir manna árlega, að mestu leyti að sumarlagi.
Í þeim þjóðgarði hefur tekist að hafa málin í lagi, og aðgangsstýringin hefur falist í aðallega þrennu:
1. Að hleypa fólki inn í þjóðgarðinn í gegnum fjögur stór hlið, þar sem fólk kaupir sér sérstakan aðgang eða, - það sem flestir gera, - kaupa sér náttúrupassa, sem gildir í ákveðið tímabil í alla þjóðgarða Bandaríkjanna.
2. Að hafa ítölu í alls 1600 km langa göngustíga garðsins.
3. Að spara ekkert til við að hafa innviðina, þjónustu og eftirlit nógu traust.
Ekkert af þessu þrennu hefur verið gert hér á landi, enda virðumst við kappkosta að læra sem minnst af reynslu annarra þjóða og reyna að gera það, sem aðrar þjóðir gera ekki: Að undanskilja "heimamenn", þ.e. okkur sjálf frá því að sitja við sama borð og allir aðrir ferðamenn, frá hvaða landi sem þeir koma. Á passanum hér að ofan stendur kjörorðið: Stoltur þátttakandi í verndun náttúruverðmætanna og uppbyggingu innviða, en á Íslandi er hrópað: "Niðurlæging! Auðmýking!"
Allt fór á hvolf þegar minnst var á náttúrupassa fyrir þremur árum, ítala er hvergi stunduð og sambland af græðgi, nísku og þröngsýni ráða því miður of mikið förinni hér.
Hve margir af þeim, sem nú hafa hæst og ráða för hafa lært ferðamálafræði og farið í rannsóknarferðir í erlenda þjóðgarða þar sem aðstæður eru líkastar því sem hér eru?
Þeim verður ekki stýrt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.