Íbúfen og "Íbúafen."

Það jaðrar við hamfarir sem er að gerast í húnsnæðismálum á Íslandi um þessar mundir. Á sama tíma sem tekjur af erlendum ferðamönnum hafa vaxið um hundruð milljarða á ári og mikið gróðæri í gangi í kringum það, ríkir fordæmalaus ládeyða í húsnæðismálum síðustu 80 ár. 

Hún er svo mikil þessi allsherjar ládeyða að þetta stærsta viðfangsefni þjóðarinnar um þessar mundir er ekki nefnt í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. 

Málin hafa fest sig í eins konar feni á borð við það sem nú er verið að byggja í í Vatnsmýri, þar sem eru 4-5 metrar ofan á fast.

Þetta nýja hverfi sagt vera merki þess að verið sé að byggja yfir unga fólkið, sem allar tölur sýna, að er fyrsta kynslóðin á lýðveldistímanum sem er að hrekjast frá þeirri einföldu þörf í kaldasta landi Evrópu að eiga þak yfir höfuðið. 

Og ellilífeyrisþegar stynja undir snarhækkandi húnsnæðisverði. 

Þegar þetta hefur verið gagnrýnt ásamt fleiru, sem kallar á umbætur svo að við missum ekki unga fólkið úr landi, hefur hlutunum verið snúið á haus með því að saka umbótasinna um að hafa stefnuna "ónýta Ísland." 

Það má sem sagt ekki nefna snöru í hengds manns húsi. 

Þegar gamla fólkið þjáist af verkjum, tekur það oft verkja- og bólgustillandi lyf, sem heitir íbúfen.

Bæði hinir elstu og unga fólkið á Íslandi ganga nú þrautagöngu í húsnæðismálum vegna skorts á úrræðum og mikillar verðbólgu á húsnæðismarkaðnum.

Þetta eru bæði verkir og bólga. 

Hverfi á borð við dýra hverfið í mýrinni þar sem er einna lengst niður á fast á höfuðborgarsvæðinu mætti kalla "Íbúafen" sem yrði samheiti fyrir þær hremmingar sem húsnæðismál landsmanna hafa lent í vegna sofandaháttar íslenskra stjórnmálamanna bæði hjá ríki og sveitarfélögum.  

Það má saka ríkisstjórnir og sveitarfélög á lýðveldistímanum um ýmis konar mistök í efnahagsstjórninni, en tölurnar um íbúðabyggingar frá 1944 til 2008 sýna þó, að húsnæðismálum var miklu betur sinnt allan þann tíma en núna. Það er sama hvert litið er: Það eina sem sést er íbúðafenið sem málaflokkurinn er sokkinn í.  

 


mbl.is Ládeyða án fordæma á lýðveldistímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hlíðarendasvæðið er í eigu einkaaðila og enginn er skyldugur til að kaupa þar íbúð.

Heilu hverfin í Reykjavík eru byggð í mýri og kennd við mýrar.

Og flugvöllurinn á Vatnsmýrarsvæðinu er að sjálfsögðu ekki í mýri, enda væri ekki hagstætt að lenda flugvélum þar í mýri.

Hversu djúpt er ofan á fast við Skerjafjörð þar sem ekki má byggja íbúðir að mati Ómars Ragnarssonar, frekar en á Hlíðarendasvæðinu?!

Þorsteinn Briem, 13.3.2017 kl. 13:14

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bílastæði á Vatnsmýrarsvæðinu verða mörg neðanjarðar, enda taka bílastæði mikið og dýrt pláss ofanjarðar og ekki myndu margir vilja búa í gluggalausum kjallara, þannig að sjálfsagt er að nota þá sem bílastæði.

Og margir þeirra sem nú aka langar leiðir í vinnu til að mynda á Landspítalanum, stærsta vinnustað landsins, í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands munu væntanlega kaupa íbúðir á Vatnsmýrarsvæðinu.

Þannig
geta þeir sparað kaup og rekstur á einum bíl á heimili í stað tveggja, sem þýðir einnig að minna pláss þarf undir bílastæði en ella á Vatnsmýrarsvæðinu.

Þorsteinn Briem, 13.3.2017 kl. 13:18

3 identicon

Halló Steini. "The name of the game" er almenningssamgöngur. En ekki að hver háskólanemi komi akandi á eigin bíl,sem og hver hjúkka.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.3.2017 kl. 13:40

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þúsundir manna hér á Íslandi, bæði Íslendingar og útlendingar, misstu vinnuna vegna Hrunsins hér haustið 2008.

Þúsundir útlendinga höfðu þá verið að byggja íbúðir hér á höfuðborgarsvæðinu og þeir fluttu úr landi ásamt þúsundum íslenskra iðnaðarmanna.

Þúsundir manna hér á Íslandi misstu einnig íbúðir sínar og urðu gjaldþrota.

Íbúðir voru því tiltölulega ódýrar hérlendis mörgum árum eftir Hrunið og því ekki mikill vandi fyrir ungt fólk að kaupa íbúðirnar ef það hafði til þess fjárráð, sem það hafði yfirleitt ekki.

Og þúsundir manna fluttu úr landi vegna lágra launa hérlendis.

Til að hægt sé að reisa hér ný íbúðarhús þarf að flytja inn vinnuaflið og það þarf einnig að búa einhvers staðar.

Og nú starfa hér aftur þúsundir útlendinga við að reisa íbúðar- og atvinnuhúsnæði, þar á meðal hótel og gistiheimili, svo og við ferðaþjónustuna, þannig að hægt verður að aflétta hér öllum gjaldeyrishöftum á morgun.

En að sjálfsögðu geta þessar þúsundir útlendinga flutt inn í húsnæði sem ekki er búið að byggja vegna Hrunsins hér á Íslandi haustið 2008.

Atvinnuleysi hér á Íslandi er nú nær ekkert vegna ferðaþjónustunnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa hatast við.

Og nú hefur loks nýlega verið hægt að stórhækka hér laun vegna ferðaþjónustunnar sem hefur mokað erlendum gjaldeyri inn í landið, þannig að gjaldeyrisforðinn er nú jafnvirði átta hundruð milljarða króna.

Nokkur ár tekur að hanna og reisa íbúðarhúsnæði, enginn skortur er á lóðum fyrir íbúðarhúsnæði hér í Reykjavík í mörgum hverfum borgarinnar og hér býr einungis rúmlega helmingur þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

En sumir hafa greinilega fengið á heilann Hlíðarendasvæðið, sem er í einkaeigu, og tapað öllum málaferlum vegna þessa svæðis.

Þorsteinn Briem, 13.3.2017 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband