14.3.2017 | 00:23
Hafa aldrei verið til sjós á Halamiðum eða Nýfundnalandsmiðum.
Útlendingar sem neita að trúa myndum, sem ljósmyndarinn John Kucko tók af ísuðu húsi, hafa aldrei verið til sjós á Halamiðum eða Nýfundnalandsmiðum og séð hinn óhemju mikla ís, sem særok getur hlaðið á skipin.
Og þeir lifa heldur ekki í þjóðfélagi, þar sem stórslys af völdum ísingar á sjó hafa verið stóráföll og minnt á eðli og veldi tveggja konunga, Vetrar og Ægis, þegar þeir leggja saman í púkk.
Ég átti kæran mág, Sigfús Jóhannsson, sem var á sjónum í marga áratugi og var heiðraður á Sjómannadeginum í Reykjavík, og sagði mér þannig frá baráttu sinni og skipsfélaga hans upp á líf og dauða við ísinguna að það er ógleymanlegt.
Orðið "ísilagt" í fréttinni er bæði misvísandi og óþarft, því að þetta orð er notað um ís, sem liggur á láréttum fleti. Vötn eru ísilögð og hægt að tala um ísilagða slóð.
Segja má að sumarbústaðurinn sé ísaður eða ísi hlaðinn.
Á þeim tímum þegar veðurspár voru ófullkomnar misstu Íslendingar tugi manna í hafið í einstökum aftakaveðrum á borð við Halaveðrið 1925 og veðrið á Nýfundnalandsmiðum 1959 vegna þess að særokið hlóð ísi utan á möstur, reiða og yfirbyggingu þannig að þungamiðja skipanna varð svo há, að þau ultu að lokum í öldurótinu.
Þegar togarinn Júlí fórst með 30 mönnum 1959, var það síðasta sjóslysið af þeirri stærð hjá íslenskum sjómönnum.
Nú fer þeim fækkandi hér á landi sem muna eftir sorgardögunum, þegar þjóðin beið milli vonar og ótta eftir fregnum af sjónum.
Íshús í New York vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Örvæntingarfull barátta sjómanna við að höggva ís af rá og reiða, stýrishúsi og hverju eina á sífellt þungísaðri togurum, eins og lifði áfram í frásögnum eftirlifenda, vekur manni enn hroll og skelfingu.
Þakka þér, Ómar.
Jón Valur Jensson, 14.3.2017 kl. 01:53
Í Nýfundnalandsveðrinu 1959 fórst Júlí GK með allri áhöfn, Þorkell máni var hætt kominn.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 14.3.2017 kl. 08:23
Takk, Þórhallur. Innsláttarvillur eru líklegri þegar verið er að pikka á lyklaborðið eftir miðnætti. Leiðrétti hana núna. En tveir Hafnarfjarðartogarar voru með þessum mánaðarnöfnum, Júní og Júlí.
Ómar Ragnarsson, 14.3.2017 kl. 09:59
Síðasta sjóslysið af völdum ísingar varð þegar Súlan EA 300 fórst út af Sandgerði í páskaveðrinu 9-11 apríl 1963. Í því veðri fórst á annan tug sjómanna vegna óveðurs og ísingar.
Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.3.2017 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.