Lýðskrum er betra en populismi. Sjálfviti betra en besservisser.

Stundum á "ástkæra ylhýra" betri orð en erlendar tungur yfir ýmis hugtök. Pupullinn og það að vera "popular" er þýtt á íslensku sem alþýðan eða almúginn og að vera vinsæll. 

En stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geta ekki náð fylgi nema að vera vinsælir, þ.e. "popular." 

Íslenska orðið "lýðskrum" lýsir betur þeirri hugsun sem útlendingar nota með orðinu populisma. 

Lýðskrumið felst í því að höfða síður til raka og staðreynda en til frumstæðra tilfinninga svo sem græðgi og ótta og að skipta fólki og þjóðum í "okkur og hina". 

Hörð þjóðernisstefna á borð við þær sem fóru með himinskautum á fjórða áratug síðustu aldar lyfti lýðskrumi í hæstu hæðir.

Að því leyti til er hægt að segja að populismanum í slíkum skilningi hafi verið hafnað í Hollandi, en á hinn bóginn hefur sést á kosningabaráttuunni að aðrir flokkar hafi orðið að sveiga stefnu sína í þjóðernisátt.

Íslenska nýyrðið "sjálfviti" lýsir fyrirbærinu besservisser betur en erlenda orðið, því að sjálfviti gefur til kynna að besservisserinn sjálfur telji sig vita allt betur en allir aðrir, auk þess sem orðið sjálfviti rímar skemmtilega á móti orðinu hálfviti og má oft á tíðum varla á milli sjá hvor er í raun meiri "hálfviti."  


mbl.is „Popúlismanum hafnað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Ómar

Er þá kannski hægt að segja að popular-music sé lýðskrumstónlist?

Það efast ég um. 

Mig minnir að uppruni hugtaksins sé í Bandaríkjunum þar sem stjórnmálaflokkurinn "Flokkur fólksins" (People's Party) og meðlimir þess voru í daglegu tali kallaðir "Populists". Þessi stjórnmálaflokkur rann svo saman við Demókrataflokkinn árið 1896.

Annars þýðir hugtakið populist; sá sem lætur sér annt um hagsmuni venjulegs fólks.

Lýðskrum er annað. 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 16.3.2017 kl. 13:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert bendir til að fylgi þjóðernissinnaðra flokka hafi aukist hér á Íslandi undanfarin ár, heldur þveröfugt.

Þorsteinn Briem, 16.3.2017 kl. 16:43

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenska þjóð"fylkingin" fékk 0,2% atkvæða í alþingiskosningunum í haust.

Þar af 1 atkvæði frá Gunnari Rögnvaldssyni.

Þorsteinn Briem, 16.3.2017 kl. 16:48

4 identicon

Populist vote þýðir meirihluti atkvæða.

GB (IP-tala skráð) 16.3.2017 kl. 20:24

5 identicon

"Lýðhyggja" er enn betra orð, enda felst popúlisminn í því að gefa gaum að þörfum almennings, sem sagt lýðsins. Slíkar hreyfingar birtast einmitt þegar almenn afstaða er sú að ráðandi öfl hafa brugðist gagnvart lýðnum og traustið á þeim hefur þess vegna rýrnað. Enn fremur getur það varla talist eðlilegt að tiltekin pólitísk afstaða sé gefin formlegt heiti sem er níðrandi, eða hvað?

Það má gera grín að fólki, svo sem með því að kalla það "Góða Fólkið" (sem meðal annars gefur í skyn að viðkomandi fólk sé að beita tilfinningum en ekki staðreyndum og rökum) en það er annað að beinlínis skilgreina tilteknar skoðanir á þann hátt að eðli sínu samkvæmt séu þær að "höfða síður til raka og staðreynda en til frumstæðra tilfinninga".

Það er munur á skoðun annars vegar og forsendum hins vegar, og það er fyllilega mögulegt að finna andstæðinga hnattvæðingar og fjölmenningar sem eru ekki að byggja afstöðu sínar á eintómum frumstæðum tilfinningum - sem og dygga stuðningsmenn þessara stefnumála sem eru örgustu lýðskrumarar og tilfinningahyggjumenn.

Egill Vondi (IP-tala skráð) 17.3.2017 kl. 22:26

6 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Orðið lýðskrum er reyndar gömul þýðing á alþjóðahugtakinu demagógía (úr grísku). Demagóg er þannig lýðskrumari. Popúlismi (leitt af latínu populus, þjóð) er í raun hið sama, bara á latínu í stað grísku! Ég hef lengi verið sannfærður um að við Íslendingar séum að skjóta okkur í fótinn með því að hafna jafn algerlega og gert hefur verið að taka orð og hugtök sem tíðkast í öllum málum menningarlanda inn í okkar mál í aðlöguðu formi. Slíkt kemur alls ekki í veg fyrir að hefðbundin orðanotkun haldi velli eða að við hættum að nota möguleika tungumálsins. Þýska hefur til að mynda nokkurn veginn sömu möguleika og íslenska til að mynda fyrirhafnarlítið ný orð. Hún notar þó alþjóðaorðin jafnframt hinum sérþýsku. Ég óttast mest að þvergirðingháttur málhreinsunarmanna leiði að lokum til þess að sífellt fleiri fari beint yfir í enskuna!

Sæmundur G. Halldórsson , 18.3.2017 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband