Það eru takmörk fyrir öllu. Saga frá Látrabjargi.

Ef ferðamaðurinn, sem lést í Silfru núna síðast, lést af völdum hjartaáfalls, hefði það líklegast geta gerst á allt öðrum stað.  Ef hann hefði þurft að moka snjó eða ýta bílaleigubíl í snjónum um daginn hefði það kannski nægt til að hann fengi þetta áfall. 

Þótt að sjálfsögðu eigi að vera á tánum með það að vara ókunnuga við hættum hér á landi, og að aðgerðir ferðamálaráðherra í þá átt sé lofsverð, verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir að fólk fari sér að voða. 

Það verður ´til dæmis aldrei hægt að reisa múr eða ókleifa girðingu eftir endilangri 14 kílómetra langri brún Látrabjargs, svo að dæmi sé tekið. 

Sumt af því sem fólk gerir á yngri árum, myndi það ekki láta sér detta í hug að gera síðar á ævinni. Og Látrabjarg kemur upp í hugann í því efni. 

Á árunum 1957-1960 var ég í samvinnufélagi sem reisti fyrstu 12. hæða blokkina af þremur við Austurbrún. 

Ég var sjúklega lofthræddur í byrjun, sem kom sér illa, því að starf mitt fólst í járnabindingum og við það starf þurfti stundum að ganga eftir mótunum. 

En eftir því sem hæðunum fjölgaði minnkaði lofthræðslan og á 12. hæð lá við að ég treysti mér til að hlaupa ofan á steypumótunum. 

Þegar ég fór í gerð fyrstu heimildarmyndar minnar í sjónvarpi vestur á Látrabjarg, og var þar á ferð með björgunarsveitarmönnum frá Patreksfirði, kom þessi áunna geta sér vel, svo að í eitt skiptið tók ég það upp hjá mér þegar sinna þurfti kalli náttúrunnar, að finna stað á bjarginu, þar sem hægt var að standa svo utarlega á blábrúninni og snúa baki í Breiðafjörðinn sitjandi á hækjum sér, að hægt leysa þetta mál á þann einfaldasta hátt, sem hugsast gat, - láta það, sem losna þurfti við, gossa í frjálsu falli fram af bjarginu.

Þegar ég flaug með Steingrím Hermannsson fyrir Látrabjarg á kosningaferðalagi hans 1974, barst talið að þessu þegar ég benti honum á staðinn, þar sem borinn var áburður í bjargið þremur árum fyrr, og sagði:

"Þarna er staðurinn sem ég skeit fram af bjarginu, þurfti nánast að láta hælana standa fram af brúninni, og mér var sagt að þetta hefði enginn annar gert."

"Það er ekki alveg rétt" sagði Denni.

"Nú?"

"Ég hef gert þetta líka. Var ungur og myndi ekki gera þetta núna."

"Hvar skeist þú fram af bjarginu?" spurði ég.

"Ég gerði það ekki hér heldur í Drangey."  


mbl.is „Ekki í fyrsta sinn sem aldan hrifsar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fram af bjargi býsnum skeit,
bauð þar fuglum klofið,
enginn þeirra undan leit,
ekkert fékk þó lofið.

Þorsteinn Briem, 16.3.2017 kl. 05:20

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Gódur Ómar..smile

Sigurður Kristján Hjaltested, 16.3.2017 kl. 11:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband