Er það frétt að vera ávöxtur sambands móður sinnar við föður sinn?

Stórfrétt er sögð hér á mbl.is með fyrirsögninni: "Afi hans var líka pabbi hans."

Margir hafa farið inn á fréttina til að lesa nánar um þetta ef marka má lista yfir það sem mest er lesið. 

Til þess að halda áfram að kynna sér málið þarf að smella á "Lesa meira"  

En þá fer í verra, því að upphafssetning fréttarinnar er þessi: 

"Skoski listamaðurinn John Byrnes komst að því að hann væri ávöxtur ástarsambands móður hans við föður hans." 

Ég hélt að það væri hvorki mikil frétt né óvenjulegt að svona væri í pottinn búið, því að sams konar eða að minnsta kosti svipað gilti um alla, þótt í sumum tilfellum væri kannski ekki nema um það samband að ræða, sem til þarf, þótt það væri ekki ástarsamband.  

John Byrnes er ekkert einsdæmi. Um mig og aðra er líka hægt að segja: "Hann komst að því að hann væri ávöxtur ástarsambands móður hans við föður hans." 

Eða: "Hún komst að því að hún væri ávöxtur ástarsambands móður hennar við föður hennar." 

Ég hélt reyndar að það gilti um nær alla að vera ávöxtur sambands móður sinnar við föður sinn. 

Eða öfugt, ef menn vilja hafa það þannig, - "..ávöxtur sambands föður síns við móður sína." 

Og þá mætti kannski bæta svona erindi við þekkt lag Stuðmanna: 

 

Hvað er svona merkilegt við það

að vera sonur pabba síns

og nota Black og Decker? 

Hvað er svona merkilegt við það 

að vera sonur mömmu og pabba?....

 

Á hitt er svo að líta að með því að liggja smávegis yfir texta fréttarinnar skýrist málið aðeins þótt ruglingslegt hafi orðið lengst af. 


mbl.is Afi hans var líka pabbi hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ekkert mál", höfundur lags og texta Ragnhildur Gísladóttir, flytjandi Grýlurnar.

Þorsteinn Briem, 21.3.2017 kl. 15:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt, Steini, en er venjulega tengt samvinnu Stuðmanna og Grýlnanna. 

Ómar Ragnarsson, 21.3.2017 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband