Gott væri lengja brautina um 150 metra, jafnvel í báða enda.

Flug um Ísafjarðarflugvöll hefur alla tíð verið vandasamt eins og blasir við þegar horft er á flugvallarstæðið. Þótt brautin þar sé 1400 metra löng eru það aðallega þrjú atriði, sem skerða öryggi hennar og notagildi, nálægðin við fjallshlíðina sem hún liggur meðfram,- í öðru lagi fjallið Kubbi, sem er í brautarstefnu innan við brautina og þriðja lagi hinn þröngi fjörður sem þarf að fljúga inni í, hindranir. 

Þar að auki getur verið misvindasamt í flugi að og frá vellinum og ofan á allt þetta bætist, að völlurinn er lokaður fyrir almannaflug í myrkri. 

Það getur verið afar bagalegt á veturna, þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkstundir um hádaginn, og þá oft einmitt þann hluta sólarhringsins þegar veðrið er ekki sem best. 

Hugsanlega hefur áður verið minnst hér á síðunni á litla úrbót, sem getur þó reynst drjúg við vissar aðstæður, en það er að lengja brautina um 150 metra í ytri endann. 

Kostir þess eru eftirfarandi. 

1. Þegar lent er út eftir, getur komið sér vel að hafa 150 metra auka hemlunarvegalengd brautar til að stöðva flugvélina, ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í lendingunnni, til dæmis vegna misvindis, sem kemur ofan úr svonefndri Naustahvilft í fjallinu upp af flugstöðinni og getur valdið því að vélin lyftist þegar hún er í þann veginn að snerta brautina og snertir ekki brautina fyrr nokkuð seinna en flugmenn höfðu áætlað . 

2. Í flugtaki inn eftir, kemst viðkomandi flugvél 150 metrum fyrr í loftið en ella, en það getur reynst dýrmætt ef eitthvað fer úrskeiðis í flugtakinu og eftir það, svo sem ef annar tveggja hreyfla gefur sig og klifra verður á afli aðeins annars þeirra í þröngri hægri beygju þar sem fjallið Kubbi getur verið erfið hindrun og þar á eftir neðri hluti hlíðarinnar fyrir neðan Seljalandsdal.

Einkum er slíkt klifur erfitt, ef það er vinstri hreyfillinn sem stöðvast, því að nothæfi hreyfillinn vinnur með afli sínu gegn beygjunni og leitast við að ýta flugvélinni út úr henni. 

3. Ef hætta þarf við flugtak í flugtaksbruni í hvora áttina sem er, er ævinlega gott að hafa lengri braut framundan til að hemla ef hætta þarf við flugtak í flugtaksbruninu, bæði fyrir hemlunina sjálfa en einnig til að flugmenn fái lengri tíma til að taka sem réttasta ákvörðun.

Fyrrnefnd lenging brautarinnar breytir að vísu engu við lendingu inn eftir né við klifur út eftir, en ofangreindir kostir eru þess virði að endurbæta flugbrautina og lengja hana jafnvel líka í hina áttina. Það er tiltölulega ódýr framkvæmd miðað við þá kosti, sem hún hefur. 

Og ef spurt er, af hverju endilega Ísafjarðarflugvöllur frekar en margir aðrir, þá blasir svarið við þegar horft er völlinn og umhverfi hans: Hann er vægast sagt sérstakur, þessi mikilvægi flugvöllur. 

Þar að auki eru Vestfirðir enn eini landshlutinn sem hefur engan flugvöll, sem nota má í myrkri og er þannig á svipuðu stigi og fyrir hálfri öld. 

Það ætti ekki að vera ofrausn að setja smá brautarviðbót á helsta flugvelli fjórðungsins.

Fyrr eða síðar myndi slík viðbót koma sér vel. 

Og það er alla jafna alltaf kostur að flugbrautir séu sem lengstar. 

Stundum virðist þetta atriði gleymast, eins og þegar eitt sinn var sagt í sambandi við Reykjavíkurflugvöll í einni skýrslunni um hann hér um árið, að stytting brauta yki öryggi vallarins. 

Hafi það verið svo, hefur það verið í fyrsta skipti í flugsögunni, sem slíkt hefði gerst.


mbl.is Flogið til Ísafjarðar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Já, öryggi flugvalla snýst fyrst og fremst um umhverfi þeirra, ekki síst það sem nálægt er endum flugbrautanna, enda hættan á flugslysum þar einna mest, en ekki á flugbrautunum.

Sumir hafa hins vegar engan áhuga á því þegar um Reykjavíkurflugvöll er að ræða.

Þorsteinn Briem, 27.3.2017 kl. 08:03

2 identicon

Er þessi flugvöllur á Ísafirði ekki vonlaust dæmi? Er ekki langtum betur betri aðssæður í Dýrafirði? og meira öryggi.Og er Akureyri ekki sama hættusvæðið fyrir td stórar flugvélar,þær passa ekki í þennan skurð sem Eyjafjörður er.Væri ekki betar fyrir Agureyringa að notast við Aðaldalsflugvöll,þar eru aðstæður  til að og fráflugs langtum betri.Og þegar verður búið að tappa vatni úr Vaðlaheigagöngum styttist leið Agureyringa mikið.

Hallo (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband